c

Pistlar:

29. febrúar 2016 kl. 12:18

Soffía Bærings (soffiadoula.blog.is)

Leiðir til að fækka/hætta næturgjöfum

Ein algengasta fyrirspurnin sem ég fæ er um hvernig sé best að hætta næturgjöfum og þá helst hvenær, hvort einhver tími sé betri en annar.

Börn eru ólík og hafa misjafnar þarfir svo það verður að taka inn í jöfnuna hvernig týpa barnið er, aldur og svo auðvitað þarfir og óskir foreldranna.

Það er mikilvægast af öllu að foreldrar finni innra með sér að næturgjafirnar trufli upp að því marki að þeir vilja hætta og hvatinn komi frá þeim og barninu en ekki utan frá utanaðkomandi aðilum. Málið er að það kemur alltaf að því að barnið sefur í gegnum nóttina og næturvöknunin heyrir sögunni til. Ef þið eruð frekar afslöppuð með þetta og takið þessu létt er það bara allt í lagi. Hinsvegar er áríðandi að taka málin í sínar hendur þegar maður finnur að svefnleysið eða svefnrofið er farið að hafa merkjanleg áhrif á sig og þá er gott að vera nokkuð staðfastur í sínu.

Þegar tekið er á næturdrykkju barna er gott að hafa í huga að það að barnið hætti að drekka á nóttunni þýðir ekki endilega að það hætti að vakna á nóttunni en það getur vel þýtt að það vakni sjaldnar og að það sé auðveldara að takast á við næturvöknunina. Stundum er töfralausnin að hætta næturdrykkju, þegar hvatinn að því að vakna er orðinn lítill fara sum börn að sofa í gegnum nóttina.

 

Ég tók saman nokkur atriði sem vonandi hjálpa þegar minnka á næturgjafirnar.

 

Gefa góða næringu jafnt og þétt yfir daginn.

Krílin okkar eru mikið á ferðinni, skoða heiminn, rífa, tæta, leika og oft er eins og þau hafi hvorki tíma né nennu til að drekka og næra sig á daginn en það skiptir máli að næra magann reglulega yfir daginn svo hann vilji hvílast á nóttunni. Börn sem nærast lítið á daginn vegna anna munu bæta sér það upp á nóttunni. Það er líka gott að hafa í huga að oft er auðveldara að hætta næturgjöfum ef maður man eftir því að gefa sér tíma í daggjafirnar.

 

Veita athygli og nánd yfir daginn

Sum börn eru of upptekin á daginn til að veita foreldrum sína nokkra athygli og sækja sér í nánd og hlýju á nóttunni. Það er auðveld að minna niður snertingu og umönnum eftir því sem barnið er eldra án þess að gera sér grein fyrir því. Aukin næturdrykkja og þegar börn hanga á stóran hluta nætur kemur líka oft í kjölfarið á meiri fjarveru t.d. þegar farið er aftur til vinnu og samverustundum fækkar.

 

Passaðu að gefa fulla gjöf ef barnið vaknar.

Stundum rumskar barnið til að drekka en sofnar í raun strax aftur (og kannski þú líka) og þá hefur það ekki drukkið nægju sína, er enn svangt og vaknar fljótlega aftur til að drekka. Gott ráð er að ef barnið vaknar til að drekka eftir ásættanlegan tíma er að passa að gefa því vel að drekka og freista þess þannig að barnið sofi aftur langan dúr.

 

Losaðu brjóstið

Eftir að barnið hefur drukkið nægju sína gættu þess þá að það losi takið af brjóstinu og haldi áfram að sofa. Þegar hægja fer á kyngingum hjá barninu er upplagt að losa brjóstið frá, þægilegast að setja fingurinn í munnvikið og þá losnar takið. Stundum verða þau pirruð og þá er bara að meta hvort maður haldi áfram að leyfa barninu að drekka og haldi svo áfram að losa en lykillinn að árangri er að losa alltaf takið í næturgjöfum og halda sér við efnið. Fyrst er barnið pirrað, svo fer það að venjast þessu og að endingu nær maður upp vananum að barnið drekkur, sleppir brjóstinu og heldur áfram að sofa.

 

Gættu þess að ofsvara barninu ekki.

Börn rumska oft yfir nóttina og gefa frá sér hljóð en í mörgum tilfellum halda þau svo áfram að sofa, það er mikilvægt að staldra við og meta stöðuna áður en maður bregst við. Frekar að hinkra aðeins og sjá hvort þau fari aftur að sofa en að rjúka til og gefa sofandi barni.

Einföld regla eins og að telja upp á tíu, anda þrisvar og prófa að sussa á barnið eða gefa því snuð virkar oft til að koma börnum af stað í annan svefnhring.

 

Ekki sofa upp við barnið

Stundum vakna börn einfaldlega bara af því að þau eru svo nálægt mömmunni, lyktinni og húðinni og það getur hreinlega vakið þau að rekast upp við bera húð. Hlýtt og gott, rumsk, mömmuhúð, alveg rétt- er ekki kominn tími til að drekka?

Þetta ferli má brjóta upp með því að hafa bil á milli ykkar, ef barnið sefur upp í að hafa pláss á milli eða hitt foreldrið á milli eða með því að barnið sé í eigin svefnfleti.

 

Það er allt í góðu að segja nei!

Þegar börnin eru farin að skilja vel er hægt að setja þeim mörk og neita þeim. Þetta krefst endurtekningar og þolinmæði en hefst að lokum.  Aðstæður gætu verið svona, Barn; drekka (oftast sagt með hljóðum eins og neeh) mamma; nei/ ekki núna/ seinna/ á morgun. , barn; drekka, mamma; nei/ ekki núna. Með því að vera staðfastur og yfirvegaður hefst þetta að lokum. Hér er það endurtekningin og staðfestan sem skilar sér hratt. Persónuleiki barnsin hefur heilmikið að segja, sum börn láta sér segjast við neitum tvö eða þrjú meðan önnur þræta fleiri fleiri daga.

 

Fáðu aðstoð

Stundum er það þess virði að skipta út hlutverkum og leyfa hinu foreldrinu að taka við næturbröltinu. Ávinningurinn af þessu getur verið margvíslegur, einn er betri svefn, annar er betra tækifæri fyrir pabbann að hugga barnið og tengjast því og barnið öðlast meiri færni við að hafa fleiri umönnunaraðila.

Í þessum aðstæðum borgar sig að pabbinn svæfi barnið og sinni því svo þegar það vaknar aftur með því að hugga, róa, rugga.

 

Til þess að þetta gefist vel þarf barnið að vera orðið það gamalt að það skilji og skynji umhverfi sitt vel. Ykkar tilfinning verður að fylgja máli og verið viss um að barnið sé orðið það gamalt að þörfin fyrir næturgjafir er ekki lengur til staðar. Það borgar sig líka að gefa sér tíma í þessa kynningu fyrir barnið. T.d. ef móðir hefur nær eingöngu annast barnið þegar kemur að háttatíma og fyrir svefninn líka getur verið gott að gera það saman 1-2 kvöld áður og svo að hitt foreldrið taki við. Það gefur öllum hlutaðeigandi tækifæri á að þjálfa sig í breyttum aðstæðum. Stundum bregðast börn nefnilega hart við því þau eru hissa í nýjum aðstæðum frekar en þau séu að hafna umönnunaraðilanum. Hér er líka lykilatriði að mamman geti fundið ró í að fara annað og að hitt foreldrið treysti sér í að annast barnið á yfirvegaðan máta og vera þolinmótt.

Veljið tímann vel, þegar allir eru upplagðir og hressir og hitt foreldrið hefur séns á að hvílast meira eins og um helgi. Þá er á sama tíma mikilvægt að muna að grátur og kvart í örmum foreldris er ekki það sama og vera skilinn eftir og grenja úr sér næturvöknunina.

 

Svefnlausnir eru ekki skyndilausnir

Þegar maður er að aðlaga svefninn og breyta svefnrútínunni er gott að muna að góðir hlutir gerast hægt og að við erum sérfræðingar í börnunum okkar. Það er gott að vera staðfastur, fylginn sér og halda í endurtekningu til að ná árangri en hlutirnir taka tíma og maður verður að gera ráð fyrir að ný svefnvenja skapist í rólegheitunum. Það má líka hvenær sem er breyta um áætlun og jafnvel hætta við.

Þegar maður er að breyta svefnvenjum er gott að horfa í hegðun barnsins til að sjá hvaða áhrif breytingin hefur á það, er það líkt sjálfu sér á daginn, líður vel og nægjusamt eða sýnir það breytta neikvæðari hegðun svo sem að vera hangandi í, grátgjarnt og viðkvæmt. Ef svo ber undir getur verið gott að bakka og endurskoða áætlunina.

Muna svo umfram allt að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir og allt miðar áfram í rólegheitum.

 

Gangi ykkur vel.



Soffía Bærings

Soffía Bærings

Soffía er doula og hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja konum í gegnum fæðingu. Hún er áhugakona um mannréttindi fæðandi kvenna og velferð nýrra fjölskyldna.Hún heldur úti síðunni www.hondihond.is

Meira