Stundum þegar ég hef verið að aðstoða fólk við að undirbúa sig fyrir komu barns í heiminn hef ég spurt pabbann/makann hvernig hann sjái fyrir sér að styðja konuna sína í gegnum fæðinguna. Sjaldnast stendur á svari ,,ég ætla bara að gera mitt besta, gera það sem hún biður mig um og vera til staðar“.
Það er nefnilega heilmargt sem stuðningsaðilinn getur gert til að létta undir í fæðingunni.
Mikilvægur en vanmetinn eða vanræktur stuðningur felst í því að vera sjálfur í lagi, vera búinn að borða vel undanfarna daga og hvíla sig. Fæðing er oftast hörkupúl sem getur verið mjög löng og krafist þess að maður geri allskonar, það er mikið betra fyrir mann sjálfan og alla í kring að vera upplagður.
Það er gott að vera með á nótunum, hafa spjallað vel um komandi fæðingu og hvernig þið sjáið hana fyrir ykkur. Hvar ætlið þið að fæða? Hvenær er stefnan tekin á að fara þangað? Afhverju? Hvað ætlið þið að gera í biðtímanum? En þegar allt er komið á fullt? En ef það er eitthvað óvænt, hvað þá? Hvert er plan A? En plan B? Hvað viljið þið gera ef plan C hoppar til ykkar? Við hvað eruð þið hrædd og af hverju? Hvernig ætlið þið að tækla það ef sú staða kemur upp? Viðhorf til verkjastillingar, hvert er það? Eruð þið með svipað tollerans í því? Ef þið eruð búin að ræða málin vel getið þið betur tekist á við aðstæður sem koma upp.
Fæðingarundirbúningur er líka mikilvægur, það er gott að þekkja fæðingarferlið, upphaf, einkenni, hvað er eðlilegt og við hverju þarf að bregðast. Hvað er gott að gera í hverjum aðstæðum og hafa reynt og prófað það sem líklega kemur upp. Mikið betra að hafa kynnt sér það í tíma frekar en að panikka á ögurstundu.
Að sama skapi er gott að hafa tileinkað sér ákveðna öndunartækni sem róar mann og nýtist í fæðingunni, fyrir mann sjálfan og svo konuna sem maður styður. Einfaldasta formið er að anda þrisvar djúpt að sér andanum og anda frá rólega og skoða með opnum huga hvaða áhrif það hefur á líkamann.
Þá getur verið gott að vera búinn að kynna sér eitthvað um nudd í fæðingu, það eru ákveðin svæði á baki og mjöðmum sem mörgum konum finnst gott að láta nudda eða þrýsta á í fæðingu, maður fær oft auka stig í kladdann með því að vita hvar er gott að fá nudd og strokur. Flestar konur vilja léttara nudd í upphafi fæðingar og svo þéttara eftir því sem líður á fæðinguna.
Einlægt hrós er alltaf hvetjandi og það getur verið gott að vera búinn að setja smá hugsun í hvaða orð hvetja konuna áfram, hvaða hrós hittir hana í hjartastað og eflir og hvetur. Hvaða orð notar hún sjálf til að hvetja sig áfram? Ekki vera spar á hrósið, það kemur mann nær lokamarkmiðinu.
Vertu til staðar í augnablikinu og veittu því athygli sem er að gerast. Sjúklega erfitt, sérstaklega þegar aðstæður eru pínu erfiðar en það margborgar sig. Skoðaðu með opnum huga hvað er að gerast, hvert er hún að horfa? Er endurtekning í ferlinu hjá henni? Nær hún að slaka á og sóna út á milli hríða? Veittu því athygli hvort það hljómi allt eins og það sé í himnalagi eða er verið að gefa eitthvað annað til kynna?
Ekki tala meðan á samdrætti stendur, betra að tala á milli og ef eitthvað er óljóst er yfirleitt betra að spyrja beinna spurninga sem auðvelt er að svara með jái eða nei-i. ,,Viltu vatn?“ er þægilegri spurning en ,,hvað viltu drekka?“. Fyrri spurningin býður upp á já/nei svar og svo er líka hægt að kinka kolli eða hrista höfuðið eftir því sem við á.
Vertu vakandi fyrir bendingum, stundum geta konur ekki talað eða vilja ekki segja neitt og
þá er gott að geta bent með höfðinu eða fingrunum í áttina að því sem mann vanhagar um eða truflar mann.
Forðastu allar leiðbeiningar um andardrátt nema vera handviss um að það sé viðeigandi ,,anda inn- anda út“ getur verið mjög ruglandi og manns eigin andardráttur ekki í takt við öndun konunnar eða í samræmi við líðan hennar. Ef maður er ekki viss um að andardráttur konunnar sé eins og hún myndi kjósa reynist vel að stilla sig inn á hana og leiðbeina með útöndun, hvetja til að anda rólega frá sér og anda alveg frá sér frekar en að spá í hvernig innöndunin er.
Vertu þolinmóður eins og þú getur. Fæðing tekur oft langan tíma, venjuleg fæðing yrði aldrei sýnd í sjónvarpi í rauntíma því hún er langdregin og getur dregist og dregist. Vertu þolinmóður og haltu í jákvæðnina og bjartsýnina. Áður en þið vitið af er litla krílið komið í fangið til ykkar.