Hola Amigos, takk fyrir að lesa bloggið mitt. Gaman að finna áhuga á þessu ævintýri okkar á Tenerife. Við erum flutt í Los Cristianos og maður lifandi hvað það er frábært. Loksins farin að koma okkur fyrir og ég meira að segja mjög viljugur að fara í IKEA. Fengum snotra íbúð í íbúðarcomplex sem heitir Los Sauces. Búum þar á 3. hæð með litlar svalir með morgunsól, dásamlegum sundlaugargarði og allt til alls bara. Við erum alveg í skýjunum með þetta og mjög spennt fyrir þeim tímum sem eru framundan.
Íbúðin er seld á Íslandi og því engar fjárhagsskuldbindingar til lengur, það er verulega skrítin tilfinning. Á ekkert og skulda ekkert, er enn að venjast þeirri tilhugsun. En þrátt fyrir að vera búin að selja heima þá erum við ekki á þeim buxunum að fara að kaupa hér á næstunni. Verðum í leigu fyrstu tvö árin a.m.k.
En afhverju seldu þið íbúðina? Fáum þessa spurningu oft, og svarið er tvíþætt. Í fyrstalagi til að klippa á strenginn heim, þ.e hugsunin að maður geti bara farið heim ef þetta er erfitt. Ef maður á ekki athvarf heima þá eru minni líkur á að þú hugsir um að fara heim, heldur finnur bara leið til að redda þér hér á Tenerife. Gerum okkur grein fyrir því að við eigum eftir að fara í gegnum öldudali hvað þetta varðar en þetta var ákvörðunin og við stöndum við hana. Og á hinn bóginn er gott að vera ekki með neinar skuldbindingar á klakanum, skulda engum banka neitt á okur vöxtum. Er svo sannfærður um að við eigum eftir að uppskera vel, læra nýtt tungumál, nýja siði og búa í öðru loftslagi. Mér finnst þetta hljóma bara eins og gott plan :-)
Fór í fyrstu ferðina á vegum Vita á sunnudaginn(4.feb) og var gengið niður Masca gilið. Algjörlega frábær ganga, erfið á fótinn fyrir marga. Gengur niður úr 650 m hæð í 7 km. En erfiðast við gönguna er sennilega allt bröltið. Þetta er ekki manngerður stígur, heldur náttúrulegur stígur ef stíg skildi kalla. En ég mun vera með fleiri gönguferðir við allra hæfi og er í raun nú þegar búinn að setja nokkrar slíkar saman. En svo er auðvitað hjóla-hlaupa og gera allt hitt fólkið hér líka og við erum að búa til leiðir svo að fólk geti komið hingað og gert allt þetta skemmtilega með íslenskri fararstjórn.
Spænskunámið fer að hefjast, misstum af fyrsta námskeiði sem hófst í byrjun Jan en við hendum okkur á það næsta sem hefst eftir ca tvær vikur. Gaman að segja frá því að við erum líka búin að sækja um í skóla, sem er við hliðina á okkur, til að læra spænskuna almennilega en það byrjar ekki fyrr en næsta haust og þá þrisvar í viku allan veturinn. Þannig að styttri námskeið verða að duga þangað til.
Bestu kveðjur frá Tenerife, minni á að það er hægt að fylgjast með mér á Snapchat og Instagram
Snap: svalik
Insta: svalikaldalons