Það er langt um liðið síðan síðasta blogg kom, enda finnst mér oftast ekkert sérstakt hafa gerst sem vert er að segja frá. En svo koma tímar sem maður sest niður og áttar sig á að það er eitt og annað sem hefur gerst í Tenelandi. Það voru ákveðin tímamót hjá mér í lok apríl. Þá lauk minni vinnu hjá Vita. Ég átti upphaflega bara að leysa af út október á síðasta ári en það framlengdist út apríl. Þannig að nú stend ég hér og þarf að treysta á að við getum látið Tenerife Ferðir ganga upp. Tenerife Ferðir er fyrirtæki sem ég stofnaði í félagi við annan mann og við sérhæfum okkur í ferðum fyrir Íslendinga á Tenerife, hægt að skoða frekari upplýsingar um hvað á www.tenerifeferdir.is
Við Jóhanna höfum líka verið að sinna fasteignum hér fyrir Íslendinga, séð um útleiguna, þrifin og fl í þeim dúr en núna höfum við tekið annað skref og tekið að okkur verkefni fyrir Zenterhouse fasteignasölu þar sem við aðstoðum íslendinga sem hingað koma við að kaupa fasteignir. Það getur tekið á að framkvæma kaup hér og margir sem notfæra sér það að útlendingar vita ekki hvernig markaðurinn hér virkar, þannig að þar stígum við inn og aðstoðum væntanlega kaupendur. Þannig að það er nóg að sýsla þessi misserin.
Tókum okkur fimm daga frí á dögunum og skutumst til Dublin að hitta vini okkar þar. Áttum frábæra fimm daga. Það er skrítið að fara til útlanda og átta sig á að allt er dýrara í útlöndum en heima hjá þér. Pínu skrítinn snúningur, svona miða við að þegar maður fór frá Íslandi og eitthvað annað að þá var þar flest allt mikið ódýrara. Fannst líka dálítið skrítið að fara heim og vera fara heim í betra veður en í útlöndum. En þetta er eitthvað sem á eftir að lærast sennilega.
Spænskan, hvernig gengur hún? Algeng spurning sem ég fæ. Hún gengur ágætlega, viðurkenni að ég mætti vera duglegri við að læra hana en næ stanslaust að selja mér að ég hafi of mikið að gera fyrir kvöldskóla, stundum dálítið til í því. En annars spjara ég mig ágætlega og skil langflest sem við mig er sagt. Drengirnir eru samt talandi og skrifandi spænskuna og komnir mun lengra en við.
Annað mál sem hefur bögglast um í kollinum á mér og það er hversvegna ég má ekki borga skatta á Íslandi þó ég búi ekki þar. Ég er skráður inn í landið hér og borga skatta hér til Spánar í gegnum fyrirtækið mitt, en ég hef líka verið að vinna fyrir Íslensk fyrirtæki og borgað skatta af því á Íslandi. En nú má ég það ekki. Veit að þetta eru reglur og allt það en þær þarfnast endurskoðunar. Hvernig kemur það sér ílla fyrir Íslenska ríkið að ég borgi þeim skatta? Ég nota enga þjónustu á Íslandi en borga fulla skatta. Hélt að það væri í rauninni kjör þegn landsins. Það er ekki öll vitleysan eins.
En annars er gott að frétta af okkur í Tenelandi, veturinn sem leið er búinn að vera algjörlega frábær veðurlega séð, vinnulega séð og tækifærislega séð. Við fögnum þessu öllu með opnum örmum og njótum þess að fikra okkur áfram nýjar slóðir. Það er nefnilega þannig að ekkert í þessu lífið gerist að sjálfu sér, en það sem við ákveðum, það gerist.
P.s ef þú ert á leiðinni hingað, athugaðu þá hvort það sé ekki eitthvað sem við bjóðum upp á sem þig langar að gera hér á eyjunni www.tenerifeferdir.is
Sólarkveðjur frá Tenerife
Getur fylgst með okkur hér
SnapChat : Svalik
Instagram: svalikaldalons
Facebook: Svali á Tenerife