c

Pistlar:

27. nóvember 2024 kl. 15:21

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

Áhrif hvala á íslenska nytjastofna – neyðarkall frá sjómönnum

Afrán hvala er um 3,3 milljónir tonna af fiski, sem er tvöfalt til þrefalt meira en heildarveiði íslenska fiskiskipaflotans

Umræða um áhrif hvala á fiskistofna er orðinn áleitin hér á landi, einkum þegar horft er til  loðnustofnsins sem gegnir stóru hlutverki í íslenskum efnahag og er einnig mikilvæg fæða bolfiska. Skipstjórarnir Birkir Hreinsson og Guðmundur Þ. Jónsson á Vilhelm Þorsteinssyni EA-11 vöruðu nýlega við því að fjölgun hvala geti haft neikvæð áhrif á loðnustofninn og því hagsmuni byggðarlaga.

Ég hef áður skrifað greinar um þetta efni og  bent á svipuð sjónarmið og skipstjórarnir  varðandi aukin ágang hvala og áhrif þeirra á nytjastofna við Ísland.

Sjónarmið skipstjóranna

Birkir og Guðmundur benda réttilega á að hvalir éta gríðarlegt magn af loðnu, sem hefur auðvitað áhrif á stærð loðnustofnsins og  afkomu margra sjávarbyggða. Loðnubrestur dregur  úr hagvexti, og kemur sér sérstaklega illa fyrir þau byggðarlög sem reiða sig á loðnuna. „Hvalir éta óhemju mikið magn af loðnu,“ segir Guðmundur. „Þetta bitnar á loðnustofninum og hefur áhrif á hagkerfið í heild sinni.“

Umræða um hvalveiðar og vísindalega nálgun

Ég vil taka undir með  skipstjórunum og leggja áherslu á mikilvægi þess að endurmeta stefnu um hvalveiðar með vísindalegum rökum.

Skipstjórarnir benda á að fjöldi hvala hefur aukist verulega frá því að Alþingi friðaði þá að mestu. Þeir telja að skoða verði hvalveiðar til að draga úr afráni hvala á loðnu. Áætlað át hvala á svæðum við Austur-Grænland, Ísland og Jan Mayen er talið geta  numið allt að 13,4 milljónum tonna. Þetta er meira en tvöföldun frá því á síðustu öld, sem gefur til kynna aukin áhrif hvala á vistkerfið. Þetta mikla magn sem hvalir éta gæti þýtt um 100 til 300 þúsund tonnum minni veiði bolfisktegunda og verulegt magn uppsjávartegunda.

Árið 2018 áætlaði Hafrannsóknastofnun að afrán hvala væri um 3,3 milljónir tonna af fiski, sem er tvöfalt til þrefalt meira en heildarveiði íslenska fiskiskipaflotans. Þó þessi tala sé há hefur ekki verið reiknað nákvæmlega hvaða áhrif hvalir hafa á nytjastofna enda  flókinn þáttur í vistkerfinu.

Kallað eftir bættri rannsóknaraðferðafræði

Hákon Þ. Guðmundsson, útgerðarstjóri hjá Samherja, tekur undir þessi sjónarmið og bendir á að mælingar á loðnustofninum gætu verið ónákvæmar þrátt fyrir hefðbundnar leitarlínur Hafrannsóknastofnunar. Hann stingur upp á að nota skipaflotann betur til að safna upplýsingum. „Sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur í gegn­um tíðina talað fyr­ir því að efla haf­rann­sókn­ir. All­ur tog­ara­flot­inn er mjög vel tækj­um bú­inn. Skip­stjór­arn­ir sem ég er í sam­bandi við senda mér oft á tíðum mynd­ir sem sýna glögg­lega hvar loðnutorf­ur eru, utan hefðbund­inna leiðarlína rann­sókn­ar­skipa,“ sagði Hákon.

Tækifæri í fjölstofna greiningu

Frá sjónarhóli vísindalegrar nálgunar væri hægt að bæta rannsóknaraðferðir með aðferð gervigreindar og vélanáms (ML), sem gefa dýpri innsýn í áhrif hvala og hvernig einstakar tegundir hafa áhrif á hvor aðra. Slíkar aðferðir greina flókin mynstur milli tegunda og umhverfisáhrifa og mæla afleiðingar afráns hvala. Samkvæmt rannsóknum hafa gögn frá fiskiskipaflotanum sýnt að fjölstofna greining á sambandi milli tegunda getur bætt skilning á nytjastofnum.

Aukin gagnaöflun gæti stutt þátttöku íslenskra skipa og skapað sterkari grunn til að byggja líkan fyrir át hvala á loðnu, með möguleikum á að tryggja hámarksnotkun auðlindarinnar.

Tillögur til að bæta nálgun

Til þess að styrkja umræðuna og gera hana markvissari má benda á eftirfarandi tillögur. Nauðsynlegt er að þróa nákvæmari stærðfræðilíkan með aðferðum gervigreindar og vélanáms til að taka tillit til þátta eins og umhverfis og áhrifa hvala sem eru  flókin í vistkerfinu og hafa óhjákvæmilega víðtæk áhrif á aðrar tegundir. Betra samstarf á milli útgerða og Hafrannsóknastofnunar, þar sem skipaflotinn eykur öflun upplýsinga sem nýtast til stofnmats, gæti skilað verulegum ávinningi. Einnig þarf að taka upp stefnu um veiðar hvala sem byggir á vísindalegum gögnum til að jafnvægi náist  milli hvalastofnsins og annarra stofna í vistkerfinu. Til að bæta rannsóknir og mælingar á loðnustofninum ætti að styðja útgerðir til að nýta nútímatækni á borð við dróna og sónartækni, sem getur aukið skilning á hegðun loðnustofnsins.

Niðurstaða

Skipstjórarnir krefjast þess eðlilega að ljósi sé varpað á áhrif afráns hvala á loðnustofninn. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að við erum ekki að nýta þekkingu sjómanna eða þá tækni sem til er nægilega vel. Með því að virkja þessa möguleika gætu verið sköpuð mikil verðmæti og betri skilningur á ástand nytjastofna. Með betri rannsóknaraðferðum, samstarfi útgerða og Hafrannsóknastofnunar og nútímatækni getum við betur varið fiskistofna og dregið úr neikvæðum áhrifum of stórs hvalastofns á efnahagslega velferð landsins.