Nýlega helltist yfir mig löngun til að deila með ykkur uppáhalds biscottunum mínum. Biscottum sem eru alveg "keppnis”, eins og vinkona mín orðaði það. Við systur (í Systrasamlaginu) hófum að sjóða þessa uppskrift saman fyrir tveimur árum í litlu búðinni okkar á Nesinu. Síðan þá eru þær ómissandi á aðventunni. En ef maður bakar biscotturnar of snemma er hætt við að aðrar “smákökur” falli í skuggann. Því er kannski ráð að baka þær nú, t.d. um helgina svo að þær fái á sig hátíðlegri blæ.
Bragðgóðar biscottur eru frábærar hvort sem með fyrsta morgunkaffibollanum eða þeim síðasta. En þær fara líka afskaplega vel með mörgum hátíðareftirréttum, eins og ís eða frómas, crème brûléé eða panna cotta. Svo er í þeim hollara hráefni en gjarnan er í biscotti sem að mínu mati færir þær úr flokknum “góðar” í “sælkera”. Það er einmitt þess vegna sem við köllum þær biscottur fremur en biscotti.
Hér er uppskriftin:
Um 5 dl. gróft spelt
2 tsk. vínsteinslyftiduft
1 tsk salt
3 stór egg af frjálsum.
3 dl kókospálmasykur
Börkur af ½ lífrænni sítrónu (mjög mikilvægt, vart viljið þið eiturefnasprautaðan börk?)
200 gr heilar lífrænar möndlur
200 gr gróft hakkað 70% súkkulaði, lífrænt (hvítt súkkulaði er líka góður kostur)
100 gr pistasíur (betri lífrænar)
100 gr þurrkuð trönuber (líka lífræn, einfaldlega bragðbetri)
Stillið ofninn á 180 °C gráður og leggið smjörpappír á bökunarplötu.
Blandið saman mjöli, salti og vínsteinslyftidufti í skál. Þeytið saman eggin og kókospálmasykurinn í annarri skál þar til blandan er ljós og létt. Blandið síðan mjölinu varlega saman við eggjablönduna. Að lokum er möndlum, súkkulaði, trönuberjum og sítrónuberki blandað saman við. Það er best að gera með því að skipta á þeytaranum og hræraranum í hrærivélinni. Hrærið varlega en ákveðið saman við eggjablönduna.
Skiptið deginu í þrjá hluta, sirka 4 sm breiðar pulsur og leggið hlið við hlið á bökunarplötuna.
Bakið “pulsurnar” í 30 mínútur fyrst (við 180°C), eða þar til þær eru orðnar ljósbrúnar. Takið út og lækkið hitann á ofninum niður í 100 °C. Látið kökurnar kólna í sirka fimm mínútur. Skerið þá “pulsurnar” niður í 1 sm þykkar sneiðar.
Leggið nú sneiðarnar á bökunarplötu, líklega þarftu tvær plötur. Bakið í ofni í 25 til 30 mínútur, eða þar til þær verða þurrar og fagurbrúnar. Látið þær kólna á grind eða í það minnsta forðið þeim af heitri bökunarplötunni.
Auðvitað verður maður að fá sér eina strax en hitt er að þær geymast mjög vel og eru ómóstæðilegar með fyrsta morgunkaffibollanum. Alltaf. Öll jólin. Njótið.
Ps: Næst stendur til að upplýsa um uppskrift sem undirrituð þróaði fyrir ári síðan úr afar spennandi hráefni. Uppskrift sem minnir einna helst á Ris a la mande en geymir engin hrísgrjón heldur chia fræ og er alveg "vegan" Meira innan skamms.