c

Pistlar:

2. nóvember 2016 kl. 21:38

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Brauðið fær uppreist æru!

súrdeigsbrauðBrauð hefur átt á brattann að sækja. Margir hafa viljað losna við glútenið og hátt innihald kolvetna hefur staðið í öðrum. Blessunarlega er nú brauðið að fá uppreist æru. Þar erum við ekki að tala um næringarlaus pappabrauð heldur brauð unnin úr alvöru hráefnum upp á gamla mátann. Vönduð súrdeigsbrauð sem eru fágæt hér á landi en finnast núorðið í sárafáum bakaríum. Nýjar vísindarannsóknir frá Harward háskóla styðja svo ekki verður um villst að kornið er okkur mikilvægara en áður en var talið.

Í vönduðu og vel unnu súrdeigsbrauði getur nefnilega verið besta samsetning trefja sem völ er á, ásamt vítamínum, steinefnum og allskonar flóknum og lífsnauðsynlegum kolvetnum. Að því tilskyldu að notast sé við heilt korn sem ekki er búið meðahöndla og úða með allskyns eitri.

Samvæmt nýju Harvard rannsókninni kemur fram að þeir sem borða 3 skammta af heilu korni á dag lifa talsvert lengur en þeir sem ekki gera það. Það styður raunar við og vikkar út eldri rannsóknir sem segja heilt korn draga úr hættunni á hjartasjúkdómum, sykursýki og sumum tegundum krabbameina.

Besta leiðin til að sjá hvort um heil korn sé að ræða er rýna utan á umbúðirnar eða spyrja afgreiðslufólkið í bakarínu. Ef orðið heilt eða “whole” kemur fyrir þá ætti að vera um heilkorn að ræða. Ólíkt og í heilu korni hefur kímið og klíðið verið fjarlægt úr unnu korni. Ef klíð og kím eru ennþá í brauðinu hægir á niðurbroti sterkju sem umbreytist glúkósa (sykur). Óunnið korn heldur blóðsykri okkar í jafnvægi á meðan unnið korn virkar eins og sykur sem skýtur okkur upp í orku og svo strax niður í orkuleysi.

Öllu skiptir, ef þú kýst súrdeigsbrauð, að það fái rétta meðhöndlun svo próteinin nái að brotna niður. Þannig minnka líkur á að það verði of þungt í maga. Og jafnvel glúteninnihald og aðrir óþolsvaldar minnka umtalsvert. Þetta er einmitt ástæða þess að t.d. Þjóðverjar borða helst ekki nýbakað súrdeigsbrauð. Þeir vilja það heldur dagsgamalt því þá hafa próteinin brotnað ennþá betur niður.

12965225_589763827854556_159872683_nTrefjar í korni eru líka taldar koma í veg fyrir að kekkir myndist í blóði sem minnkar líkur á hjartaáföllum og heilablóðfalli.

Jurtaestrógen og lífsnauðsynleg steinefni eins og magnesíum, selen og kopar í korni eru þau efni sem talin eru geta minnkað líkur á ýmsum tegundum krabbameina.

Og bara til að hafa það á tæru þá fjarlægir vinnsla á korni ekki eingöngu kímið og klíðið heldur líka meira en helming B-vítamínanna, 90 % E-vítamínsins og nánast allar trefjarnar.

En munið líka að skoða orðið heilt þegar um pasta, risotto, hrísgrjón og önnur grjón eða korn er að ræða. Og ef þú vilt glútenlaust hafðu það korn heilt líka, eins og heilt amaranth, heilt hirsi og heilt kínóa. Annars er næringin svo gott sem horfin. Amaranth, hirsi og kínóa eru bestu glútenlausu heilkornin.

Þó er ekki allt sem sýnist. Heilt korn (whole grain) þýðir ekki alltaf alveg heilt korn. Hlutfallið af unnu á móti heilu getur stundum verið 10:1 (tíu á móti einum). Þannig stimpla margir framleiðendur vöru súna hástöfum sem heilkorna og komast upp með það. Því ættu allir alltaf að kíkja eftir vönduðu og helst lífrænu merkjunum og lesa vandlega utan á vöruna. Best er að borga fyrir gæðin. Þá fáið þið svo miklu meiri, betri og dýpri næringu úr minna magni.

Við erum rétt að bíta úr nálinni með fitufóbíuna. Sú fóbía var kannski að mörgu leyti skiljanleg því fitan sem hefur verið á borð borin undanfarna áratugi var oft svo illa unninn að hún gat verið hættuleg heilsu okkar. En sem betur fer er nú neysla á hreinum og vönduðum jómfrúarolíum af ýmsu tagi vaxið. Mikil vitundarvakning hefur orðið á neyslu góðra olía.

Nú óttast hins vegar framsýnar konur og menn að mörg heilsuvandamál muni spretta upp vegna meints “sykurleysis” í framtíðinni. Sykurfóbían nú minni um margt á olíufóbíuna sem hafði margvíslegar heilsufarslegar afleiðingar.

Margir rugla saman sykri og sætu sem er alls ekki það sama. Margt sætt frá náttúrunnar hendi er með því næringaríkasta sem fyrirfinnst. Sæta er okkur jafn nauðsynleg og fita. Kannski mikilvægust af öllu. Lífsins elexír. Og ef út í það er farið flokkast korn og grjón ásamt mörgu öðru undir hin sætu lífsgæði sem þið getið kynnt ykkur betur hér.

Heimildir: https://www.hsph.harvard.edu/

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira