Margar halda að það sé hundleiðinlegt að borða eins og jógi. Það er ekki rétt. Allmargir jógar eru grænmetisætur og þónokkrir vegan. En alls ekki allir. Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna, dæma ekki fæðuna sem fólk borðar, þótt þau mæli vissulega með því að sem flestir borði fæðu sem gefur góða orku og nota má til uppbyggingar. En ekki fæðu sem skaðar og veldur orkuleysi. Ólíkt því sem margir kunna að halda er kjöt ekki á bannlista jóganna. Kannski leggja þeir ekki mikið upp kjötáti, en eins svo margt annað í jógafræðunum er litið á kjöt sem eina af lækningajurtunum / orkujurtunum fyrir þá sem nauðsynlega þurfa þá næringu á ákveðnum skeiðum í lífi sínu.
Jógafræðin snúast í fyrsta lagi um að hjálpa okkur að finna jafnvægi í lífinu, jafnvægi á milli anda og efnis. Í nútímnum nýtast þessi fræði líklega betur en nokkru sinni, þegar fólk þeysist úr einu í annað, úr þessu mataræði í hitt. Þannig getur gott jafnvægi og það að hvíla meltinguna með því borða mikið af grænmæti, að minnsta kosti tímabundið, komið á dásamlegu jafnvægi. Það hefur auðvitað aldrei verðið skemmtilegra en nú að tímum veganisma, grænmetisstefnunnar og flexiteríanna (þeir sem borðar grænmetisfæði nær undantekningalaust).
Jóga- og ayurvedafræðin má nálgast með ýmsu móti. Þau hvíla á grunni gúnanna þriggja sem kallast sattva, rajas og tamas. Gúnurnar koma við sögu allastaðar. Í mat, í náttúrinni og hvernig við högum okkur og í líkama og huga. Að þekkja eiginleika gúnanna í umhverfi okkar getur hjálpað okkur að ná hinu gullna jafnvægi.
GÚNURNAR ÞRJÁR:
Tamas er að segja má pönkgúnan og stendur fyrir myrkið og dauðann. Þetta er þung orka sem er m.a. talað um að geti fylgt miklu kjötáti, dúpsteiktum og þungum mat, hvítum sykri og áfengi. Þetta er líka orkan sem fylgir því að sofa of mikið eða vera sófakartafla. Of mikið tamas er í lífi okkar þegar við erum of þung, markmiðslaus, þunglynd og/eða gráðug.
Rajas er tvíbent orka sem getur verið góð en líka haft truflandi áhrif. Of mikið rajas getur birst í formi spennu, streitu og spennufíknar. Rajas getur leitt til ójafnvægis í blóðrás og taugakerfi sem getur af sér ótta, svefnleysi og þyngsli. Ofgnótt af rajas leiðir til tamas. En rajas í jafnvægi er sannarlega gott. Það færir okkur ástríðu (rgatmakam) og lífsþorsta. Gerir okkur mennsk. Rajas fæða er jafnan sú fæða sem er góð fyrir okkur flest öðru hverju en getur valdið ójafnvægi í of miklum mæli. Það er matur eins og kaffi og allskyns orkudrykkir, mikið kryddaður matur, ofsaltur ofl.
Sattva er björtust gúnanna þriggja og merkir í raun jafnvægi, heilbrigði, sannleikur og samkennd. Allt hið létta og um leið það sem gefur orku, jarðtengingu og frið og ró í líkama og sál. Sattva merkir í raun tenging við náttúruna og þegar við tengjum við eitthvað innra með okkur. Innan sattvískrar fæðu rúmast margar tegundir grænmetis, basmati hrísgrjón, adzuki baunir, grasker, kál, hunang, ghee, eða allt sem er uppfullt af lífsorku og næringu. Allt sem er upplífgandi en gefur um leið jarðtengingu. Á endanum veltur allt á hæfileika okkar til að melta matinn og nýta næringu hans. Þannig leiðir sattvísk fæða og hugarfar (kærleikur) okkur að jafnvægi og náttúrunni og þar með betri tengingu líkama og anda.
Í jógafræðunum er að finna uppsprettu þekkingar um hvernig við getum breytt líðan okkar sem birist ekki síst í að skoða hvaða líkams- og hugargerð við erum. Þar eru ráð um hvað kann að henta okkur og hvað ekki.
Með því að nýta okkur það sem þessi fornu fíngerðu fræði hafa fram að færa með þekkingu nútímans náum við að lifa lífinu til fulls. Ayurveda er ekki tæki til að telja hitaeiningar. Ef þú spyrð sérfræðing í jóga/ayurvedafræðinum um mataræði mun hann líklega skoða þína líkams- og hugargerð og beina þér inn á sattvíska braut, að fæðu og lífsstíl sem færir þér smátt og smátt jafnvægi.
Það er líka áhugavert að upplýsa að um leið og fólk fer að neyta sattívsks matar minnkar smám saman áhuginn þeim rajasíska og tamasíska. Það gerist fyrirhafnarlaust. Áhugi á athöfnun eins og spennuíþróttum sem flokkast sem rajas og glásglápi á sjónvarp sem flokkast sem tamas (sófakartaflan) kann að minnka líka. Með sattvísku líferni er hætt við að þú viljir heldur horfa á sólarlagið á kvöldin fremur en á langa og stranga sjónvarpsseríu. Rólegur hugur er ekki eins spennufíkin.
En allt er þetta auðvitað ágætt í bland. Það myndu jógarnir alltaf segja.
Svo má að gamni velta því upp hvernig gúnurnar þrjár birtast í persónuleika fólks:
Tamasískur persónuleiki er eigingjarn og ófær um að setja sig í spor annarra.
Rajasískur persónuleiki er ástríðufullur og dramatískur en um leið sjálfmiðaður.
Sattva persónuleika fylgir kyrrð, friður og hamingja.
Þó má geta þess að gúnurnar þrjár verða aldrei aðskildar. Þær eru síkvik, dínamísk og skapandi orka sem við getum haft áhrif á m.a. með fæðu og lífsstíl.