Það vakti ansi skemmtilegt umtal þegar ljóst varð að við systur værum á leið í HM í hafragrautsgerð í skosku hálöndunum. Þannig fréttum við m.a. af því að dag eftir dag hefði hafragrauturinn verið aðal umtalsefnið í heitum pottunum á Nesinu. Ekki við. Heldur sjálfur grautrinn. Það þótti okkur skemmtilegt. Því þetta snýst ekki um okkur. Heldur holla hafragrautinn og hvað fólk borðar á morganna. Hvernig fólk fer af stað út í daginn? Hafragrauturinn á allt gott umtal skilið og líka að það sé keppt um hverjir gera þann allra besta. Hafrar eru í raun óendanleg uppspretta dásamlegrar hollustu og uppskrifta. Fleiri en ykkur órar fyrir.
Því fengum við systur sannarlega að kynnast um helgina. Flestir vilja hann á morgnanna, sumir í hádeginu og aðrir á kvöldin. Hann getur verið súr, kryddaður, steiktur, soðinn og allskonar.
Okkar framlag til skosku hálandaleikanna í hafgrautsgerð, Golden Spurtle, eða Gullnu þvörunnar, var hugsað sem eftirréttur í morgunmat. Draumurinn um bragð sem ýtir okkur mettum og sælum út í daginn og nærir öll skilningavit.
Hitt er að það var magnað að bregða sér til Carrbridge í Skotlandi og fá að taka þátt í svona dúndur skemmtilegri keppni. Skotar eru frábært fólk og bestu gestgjafar sem hugsast getur. Við hittum einstaklinga frá mörgum löndum sem allt er ástríðufólk í matargerð. Þar á meðal Svía sem fengu allar Gullnu þvörurnar í ár, en þeir stóðu líka upp og klöppuðu, stöppuðu og sungu með Íslendingum. Það er skemmst frá því að segja að Svíar eru afar góðir í hafragrautsgerð og gera hann eingöngu með hjartanu. Það skilaði sér.
Hér er okkar framlag sem við nutum að deila með dómurum og gestum. Við fengum mikið lof fyrir frumlega, góða og skemmtilega hugsaða grauta.
HAFRAGRAUTURINN - GRUNNUR:
250 gr glútenlaus, spíraður og lífrænn hafragrautur (bestur frá Rude Health, þessi bleiki).
½ lítri vatn
½ tsk lífræn vanilla
½ tsk lífrænn kanill
½ til 1 tsk gott íslenskt salt
250 -500 ml möndlurís mjólk
ferskur rifinn og lífrænn engifer
Þessi uppskrift er ágæt fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem vill fara vel nærð út í daginn. Minnkið hlutföllin ef þið kjósið að gera minna í einu. Annars er hann líka góður daginn eftir.
Blandið öllu saman nema möndlurísmjólkinni og engifernum. Gott er að láta blönduna standa í klukkutíma (má líka gera kvöldinu áður) en það er alls ekki nauðsynlegt.
Sjóðið eins og stendur á pakkanum. Sumir kjósa að hafa grautinn “al dente” á meðan aðrir vilja hann lungamjúkan. Eitt af því sem skosku hafragrautarfræðin hafa kennt okkur er að það er lang best að hræra oft í í grautnum á meðan hann sýður við vægan hita með þvöru (ekki sleif heldur meira eins og þykku tréspjóti). Hrærið oft því hafrar eru um margt eins og risottó. Það er, því meira sem þið hrærið því meira drekka hafrarnir í sig að vökva og kryddum. Og því meira gefa þeir af sér að góðri næringu. Þegar hafragrauturinn þykknar og þarfnast meiri vökva bætið þá við möndlurís mjólkinni eftir þörfum. Sumir kjósa 250 ml, aðrir meira. Raspið út í vænan bita af ferskum engifer. Það sem er svo gott að hafa í huga með lífræna engiferinn er að þegar maður notar vel af honum er minni þörf á salti. Þegar ykkur finnst hafragrauturinn tilbúinn (við viljum hann heldur mjúkan) er gott að setja lokið á og láta hann standa í smá tíma.
DÖÐLU- OG KARDIMOMMUSÓSA
Mér hefur alltaf líkað samsetning af mjúkum döðlum og kardimommum. Grænum bragðmiklum kardimommum sem ég þarf að steyta sjálf og mala. Þær eru bragðbestar og –mestar. Síðan má næstum segja að kardimommur séu pínu íslenskar. Þær eru jú í íslenskum pönnukökum og hver elskar ekki Kardimommubæinn?
Sósuna má vel geyma í ísskáp í lokuðu íláti í viku. Svo gerið meira heldur en minna (hún er líka frábær á ís):
400 ml kasjúhnetumjólk (Rude Health)
200 ml lírænar kasjúhnetur (sem hafa verið lagðar í bleyti í 4 tíma eða lengur).
8 mjúkar lífrænar medjoel döðlur
1 tsk grænar lífrænar heilar kardimommur
½ tsk salt.
Þetta er ekki flókið. Takið steina úr döðlunum og hellið auka vatninu af kasjúhnetunum. Takið hýðið af kardimommunum og steytið þær. Setjið allt saman í blandara og hrærið uns blandan verður silkimjúk. Gerið áður en þið byrjið á hafragrautnum. Það er gott að láta kardimommurnar taka sig í sósunni.
Annað sem til þarf til að fullkomna grautinn er krækiberjasafi, villt íslensk krækiber og sýrð kókosjógúrt eða grísk lífræn Bíóbújógúrt.
Setjið grautinn saman í þessarri röð. Færið graut í fallega skál. Hellið yfir vænum skammti af döðlu og kardimommusósunni, hellið yfir einum einföldum af krækiberjasafa frá Íslenskri hollustu, bætið við tveimur til þremur matskeiðum af vel sýrðri jógúrt (vegan eða ekki) og sáldrið svo yfir villtum íslenskum krækiberjum. Látið helst minna á jökla, fossa, ár og fjöll séð úr háloftunum (við þurfum líka að næra augun).
Verði ykkur að góðu.
Ps: Bláber koma ekki í stað krækiberja í þessum graut. Það skildu skosku dómararnir vel. Það er þetta með tannínið sem er svo gott á móti sætkrydduðu sósunni og sýrðu jógúrtinni.