c

Pistlar:

13. nóvember 2017 kl. 19:49

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Whole Foods spáir topp 10 heilsufæðutrendunum 2018

Óhætt er að fullyrða að Whole Foods hafi drottnað yfir heilsuvörmarkaðnum undanfarin ár. Vart eiga áhrifin eftir að dvína eftir aðkomu Amazon sem nýlega keypti keðjuna. Það er því ástæða til að staldra við þegar Whole Foods leggur línurnar fyrir heilsuvörumarkaðinn árið 2018. Það er alltaf gaman að koma við í Whole Foods, sérstaklega í stóru búðirnar og sækja þangað innblástur. Þeir eru með puttann á púlsinum. Hér er hitamælir Whole Foods sem nýlega setti fram topp 10 lista yfir heitustu fæðu heilsutrendin árið 2018, sem fóru vissulega í gegnum íslenska síu.

  1. blóm til að borða Blómabragð
    Sælkerar og helstu matreiðslustjörnur heims hafa lengi dýrkað og dáð matblóm. Ekki síst vegna þess hve gaman er að skreyta diskinn með fallegum blómum. En nú má segja að blómabragðið sé að springja út. Heilu blómin og krónublöðin sem prýtt hafa fallega diska eru líka að verða að bragði í drykkjum og snakki. Þetta trend númer eitt árið 2018 að mati heilsukeðjunnar Whole Foods, sem segir blómin færa okkur náttúrulegt sætt bragð ekks síður en ilm. Nú munum við fara að sjá allskonar lækningajurta-latté-a og lavender latte kemur sterkur inn. Rósabragðið verður allsráðandi en þá þarf að fanga hárfínt bragðið. Dökkbleikur hibiscus drykkur verður bæði heitur og kaldur og ylliblómin verða á hvers manns vörum í koteilum og freyðandi drykkjum. Það er gaman að geta þess að við höfum tekið upp marga af þessum bráðskemmtilegu blómasiðum í Systrasamlaginu.

  2. Ofurduft
    Og flestir sem héldu að ofurduftið væru á útleið? Ónei, því fer fjarri enda frábær leið til að flytja góða næringu á milli staða og landa. Það á ekki síst við um allar mögnuðu lækningajurtirnar, sem eins og lifna við í höndum þeirra sem kunna með þær að fara. Allskonar latté-ar með óvæntu bragði (turmeric, matcha, cacao úr regnskógunum) munu ná nýjum hæðum. Ayurvedakryddin/lækningajurtinar (heitu meltingarkryddin) verða aldrei vinsælli og líka cacao-ið (þetta hreina frá Guatemala sem á viðkomu í Systrasamlaginu). Þetta þýðir líka að þreytingurinn með allskonar ofurdufti eins og spirulina, grænkáli, rótum prýða góða þeytinga sem aldrei fyrr. Semsé þeytingurinn er ennþá á uppleið enda frábær leið til að næra sig vel og á dýptina. Svo eru auðvitað vönduðu próteininduftin komin langt út fyrir líkamsræktarstöðvarnar.

  3. Sveppir sem búa yfir lækningamætti
    Það er ekkert að draga úr vinsældum sveppa, segja Whole Foods sérsfræðingarnir með viskuna frá Amazon farteskinu. Reishi, chaga, cordyceps og lion’s mane munu standa upp úr. Margir drykkir árið 2018 munu innihalda sveppakraft. Líka kaffi, þeytingar og te. Sveppakraftur sem geymir þetta sterka jarðarbragð smellpassar með kakói, súkkulaði og kaffi (og færir okkur jarðtengingu). En við munum líka mæta þeim í ýmsum húðsnyrtivörum enda húðin auðvitað magnað frásogs líffæri.

  4.  Matargerð Mið-Austurlanda
    Við sem fylgjumst vel með þróun í matargerð höfum séð Ottolenghi fara með himinskautum undanfarin ár og boða nýja tíma í matargerð. Hann er nýr Jamie Oliver. Árið 2018 verður meginstraumurinn mið-austurlenskur að mati Whole Foods. Hummus, pítur, og falafel þekkjum við mætavel en nú er matargeirinn að fara ennþá dýpra og leitar fanga í persenskar hefðir, til Marokkó (appelsínu blómaseyði), Sýrlands, Líbanon og ekki síst Ísraels. Þá sjáum við mikið af harissu, endlaust af kardimommum, za’tar, ásamt shakshuka, grilluðum halloumi og helling af lambi. Líka granatepli, eggaldin, gúrku, steinselju, mintu, allskyns tómatmauk og þurrkaða ávexti. Allt verður þetta ennþá meira áberandi árið 2018.

  5. Gagnsæi..
    …verður ennþá meira krafist á næsta ári við merkingu og innihald matvæla. Nokkrir veitingahúsaeigendur og ekki síst neytendur vilja vita hvaðan maturinn kemur og úr hvaða uppsprettu. Neytendur er líka farnir að fatta munstur þeirra segja eitt og gera annað í heilsubransanum. Það gæti orðið hávaði á næsta ári. Óerfðabreytt matvæli verða efst á bannlista í heilsugeiranun en í humátt á eftir koma siðleg viðskipti, siðferðisleg ábyrgð, velferð dýra og ekki síst hvaða næring er á bakvið hitaeiningarnar. Whole Foods ætlar sjálft að krefjast ennþá betri merkinga á matvælum á næsta ári. Það veit á gott.

  6. Hátækninni fleygir fram
    Grænmetisfæðan og –diskurinn mun áfram ráða ferðinni en matartæknin hefur hafið innreið sína. Heldur betur. Þannig styttist óðum í að hægt verði að fá “blæðandi” vegan borgara og túnfisk sushi búið til úr tómötum (ég veit ekki hvað mér finnst um það). Þessai tækni bíður líka upp á allskonar skemmtilega jurtamjólk og jógúrt, ís, brioche, crème brûlée og fleira sem verður svo gómsætt að þú munt ekki finna muninn á því hvort það er vegan eða ekki. Hér er þó um að ræða matvæli úr hnetum, perum, banönum og pili hnetum og fleiri jurtauppsprettum.

  7. Útblásið og poppað snakk
    Marrandi snakk verður sjálfsagt alltaf í miklu uppáhaldi. En aftur; tækninni fleygir fram og nú hefur orðið bylting í útblásnu, poppuðu, þurrkuðu og stökku. Hér erum við að tala um þang, poppuð hrísgrjón, kínóna og pasta og allskonar. Gömlu góðu “frönsku” kartöflurnar verða úr ennþá fjölbreyttari hráefni en áður, m.a. jicama, rósakáli, nípum og öðru (og vonandi koma rófurnar líka sterkar inn).

  8. Takó losnar úr skelinni
    Takóið er ekki endilega best í maískökunni, fullyrðir Whole Foods. Enda hver þarf svosem maísköku þegar skelin gæti verið úr þangi og bragðast eins, ef ekki betur? En þetta snýst svosem ekki endilega um það. Matur frá Mexíkó hefur aldrei verið jafn vinsæll. Undir skelinni er heill heimur af bragðmiklum dýrgripum, líka morgunverðum og eftirréttum, með og án korna. Þarna er fjársjóður fyrir þá sem aðhyllast Paelo og alla sælkeranna.

  9. Frá rót að stöngli
    Í kjötiðnaðinum er talað um frá nefi að hala. Í grænmetisiðnaðinum frá rót að stöngli sem snýst um að fara vel með hráefnið og nýta það allt. Það þýðir að nota beri allt af grænmetinu og ávöxtunum, það sem er vanalega ekki borðað. Réttir eins og pikklað vatnsmelónuhýði, pestó úr laufum rauðrófa og spregilkálsstönglar eru að koma neytendum á óvænt og skemmtilega næringarríkt bragð.

  10. Skál í bubblum
    LaCroix gæti hafa rutt brautina. En nú er komið að því drykkir sem eru náttúrlega freyðandi (bannað að tala um gos) er á hraðri uppleið. Þessir drykkir eru ekkert líkir sykruðum gosdrykkjum. Kaldbruggað, náttúruleg vatn, drykkir drukknir úr jávæðum kristalsflöskum. Það er þetta hreina og tæra. Heilsugos er kannski heitið og bragðið er óvænt og skemmtilegt. Mocteilar halda áfram að freyða og gefaog náttúrlegir gosdrykkir, eins og t.d. LemonAid með læmi frá Mexíkó, blóðappelsínum frá Ítalíu og/eða ástríðualdini frá Sri Lanka eiga sviðið. Líklega verður ekki aftur snúið. Sykrarðir innantómir gosdrykkir eru á hröðu undanhaldi.
Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira