c

Pistlar:

16. desember 2017 kl. 14:10

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Er kakó “víma” 21. aldarinnar?

Katharine Hepburn á að hafa haft á orði um útlit sitt sem margir dáðust að: “Það sem þið sjáið, kæru vinir, er niðurstaða þess að hafa borðað súkkulaði alla ævi.”

cacaoUm súkkulaði hefur stundum verið sagt að það sé næstum “djöfullega afrodisak”, uppfullt af alsælu og munúð. Við þekkjum öll orðatiltækið um að súkkulaði sé fæða guðanna sem þeir noti til að sáldra töfrum inn í ólíklegustu skúmaskot lífsins. Til marks um tímanna sem við lifum á er talað um súkkulaði (cacao), þetta sem kemur beint af kakóplötunni, sem heitasta náttúrulega djammdrykkinn og um leið magnaða lækningajurt. Enda geti hann fært okkur náttúrulega alsælu. Of ef þú ferð inn á sjóðheitan dansstað í út í hinum stóra heimi í dag má vera að þú rekist á fólk sitjandi á gólfinu í kakóathöfn, þótt jógastúdíóin séu vissulega líklegri. Súperfæðan cacao á sér langa og litríka sögu og fer nú með himinskautum um hinn vestænan heim. Allt frá Ibiza að Manhattan er talað um að kókið hafi látið undan cacao-inu (gleðitíðindi). Vonandi er það merki um batnandi heim að okkar eigin náttúrulegu boðefni sé virkjuð.
Það er allstaðar verið að djamma á boðefnabarnum þessa daganna.

Fátt af þessu kemur svosem á óvart og helgar kakóathafnir eru eðlilegt framhald af jógabylgjunni þar sem andinn og efnið eru megin uppsprettan. Margt í vönduðu og hreinu cacao-i vekur upp tilfinningar sælu og tilhlökkunnar. Reyndustu menn í súkkulaðibransanum, belgískir súkkulaði framleiðendur segja Evrópubúa farna að sanka að sér góðu súkkulaði í massavís og hafi aldrei notið þess betur. Þetta geri þeir í auknum mæli í stað þess að drekka áfengi eða gleypa pillu.

Margir þekkja til sagnanna um kakóserimóníur, helgar athafnir, sem hafa verið hluti af menningu nokkura Ameríku þjóða um aldir. Líka sagnanna um að kakóbaunin hafi verið verðmæt og áhrifarík í viðskiptum, sem gull. Mayarnir áttu sterkar kakóhefðir í tengslum við brúðkaup og heitbindingar og eru fyrstir sem vitað er um að tengdu kakó (cacao) rómantík. Cacao drykkurinn rataði til Evrópu árið 1519 og náði fljótt inn í flest skúmaskot vestrænnar menningar, en auðvitað elítunnar fyrst og síðar almennings (en varð auðvitað fljótlega úþynnt, eins og svo margt í meðförum vestrænnar menningar). Það gerðist þó ekki strax. Í dag vita margir að fátt vekur meira ástríður og munúð en hin magnaða, hreina, tæra og lífræna kakóbaun. Það er engin vafi á því að önnur súkkulaðibylting er hafin. En líklegt má telja að núna verði hún tekin upp á næsta stig og fleiri fá að njóta cacao-sins í sinni tærustu mynd. Cacao inniheldur öll gæði cacao baunarinnar sem má segja að sé lygilega góð fyrir fyrir huga og líkama.

Súkkulaði og súkkulaði!
Svo hvað er súkkulaði (cacao)? Cacao er ekki sama og cocoa. Cacao er hrátt, náttúrulega gerjað ósoðið form af súkkulaði á meðan cocao, þetta sem við erum flest alin upp við, hefur verið ristað, hitað upp yfir öll mörk, unnið, jafnvel erfðabreytt og út í það bætt allskyns aukaefnum sem koma í veg fyrir virkni baunarinnar. Það er allt í kringum okkur. Á meðan nauðsynlegt er að nálgast þá bestu frá bónda, eins og t.d. kakóserimóníudrottningin, Kamilla Ingibergsdóttir og fleiri íslenskar konur og menn gera í Gvatemala. Í slíku súkkulaði er finna stórkostlega breidd næringarefna sem hafa skjóta virkni á þá sem þess neyta.

Gjafir Cacao-s
Kakó sem þetta er mjög góður náttúrulegur orkugjafi og í raun ástardrykkur sem galopnar allar gáttir hjartans. Það inniheldur PEA, það sama og við framleiðum þegar við verðum ástfangin. PEA skerpir líka fókus og athygli. Anandamide, sem einnig er þekkt sem "the bliss chemical" hefur aðeins fundist í einni plöntu - Cacao-i. Kakó inniheldur auk þess króm, theobromine, manganese, sink, kopar, járn, C vítamín, omega 6 fitusýrur, tryptophan, serótónin og gnótt af magnesíumi, svo eitthvað sé nefnt. Í því eru yfir 1200 virk efni. Allt þetta er sannað vísindalega.

Það er því engin furða að djammarar öðlist náttúrulegt úthald til að skemmta sé undir cacaodrykkju. Serótnín hefur áhrif á heilann og almenna vellíðan okkar. Og það er gaman að geta þess að orðið ananda (stofnin í anandamide) kemur fyrir í Sanskrít og þýðir sæla. Ekkert af þessu er því nýtt undir sólinni.

Bliss sameindin færir okkur að segja má himnasælu og gleði en leikur líka lykilrullu í að draga úr bæði líkamlegum og andlegu verkjum ásamt því að hjálpa til við að koma geðinu í jafnvægi og auka eða minnka matarlyst, eftir því sem við á, sem er kærkomið fyrir marga. Hernán Cortés sagði árið 1519 að þessi guðdómlegi drykkur verndaði gegn flensum og að vel mætti komast í gegnum daginn með því einu að drekka cacao.

Það sem hefur sjálfsagt skjótvirkustu áhrifin er himinátt magn magnesíums í náttúrulegu cacaoi sem slakar á stóru vöðvum líkamans og er bæði nauðsynlegt hjartanu og heilanum. Svo þegar dansandi cacao neytendur fljúga um dansgólfin losar magnesíumið um líkamann. Að auki eru flavóníðar í cacaoi bólgueyðandi og auka blóðrennsli sem er frábært fyrir hjartað. Allir vegir liggja til hjatans.

Árið 2006 var birt vísindaleg rannsókn sem sýndi að regluleg neysla súkkulaðis gæti hugsanlega dregið úr hjarta- og æðasjúkdómum um allt að 50%. Nýrri rannsókn sem var birt í American Journal of Clinical Nutrition leiddi í ljós að upptaka á súkkulaði (til þess að góð upptaka eigi sér stað þarf hráefnið að vera gott) dragi úr allskyns hjarta- og æðasjúkdómum, líka á nokkrum sem hafa með insúlínviðnám að gera. Að baki þessu liggur samantekt á 42 langtíma vísindalegum rannsóknum.

Helga hátíðar Cacao-ið
Til forna hafði cacao-ið sannarlega í senn læknandi og hátíðar tilgang. Seiðmenn Mayanna notuðu cacao til að komast í snertingu við æðri víddir, ef svo má að orði komast. Seiðmennirnir gáfu cacao í þessum tilgangi til að opna fyrir andlegar víddir en einkum þó til að opna hjartað og færa okkar helindi og tengsl við móður jörð. En fátt er meira jarðbindandi en cacao. Þið finnið það bara á lyktinni.

Þegar um er að ræða gæði sem þessi hafa þau nánast töfrandi áhrif á taugaboðefnin og virkja þau sem ýta undir blóðflæði um taugar, heila, hjarta og húð. Þannig að allur líkaminn nærist. Það er augljóst þegar við prófum. Sumir upplifa aukna skerpu, einbeitingu og að öll skilningavit skýrirst. Svo eru langflestir sammála um að þegar hjartað opnist streymi kærleikurinn bæði inn og út. Það sé því fullkomið að drekka cacao og hugleiða á eftir. Enginn vaknar þunnur daginn eftir.

katherine hepurnKeith Wilson sem býr í hálöndum Gvatemala hefur unnið með cacao í meira en 12 ár. Hann notar cacao eins og seiðmenn til forna og kallar fram cacao andann. Fornleifafræðingar sem rannsakað hafa Mayanna segja cacaó andann hafa verið öflugustu andagift Mayanna og Keith Wilson segir cacao geta verið fæðu umbreytinga. Umbreytinga sem nú eru að eiga sér stað í heiminum.

Mörgum þykir merkilegt að kakóathafnir hafi farið framhjá hippakynslóðinni, þótt margar aðrar meintar “lækningajurtir” gerðu það ekki. Cacao-ið þótti einfaldega ekki nógu skynörvandi. Cacao tekur fólk ekki á tripp en greiðir hins vegar fyrir róandi og djúpri innlifun/upplifun byggðri á okkar eigin boðefnum. Okkar eigin boðefnabar.

Hægt er að nota m.a. Cerimonial cacao frá Gvatemala á marga vegu. Það er vinsælt, áhrifaríkt og bragðgott. Það er frábært að drekka í góðum hópi til að ná "samslökun" en það má líka kíkja á eina kaffihúsið sem býður upp á cacao frá Gvatemala og fá sér bolla með sjálfum sér eða öðrum. Það er semsé í Systrasamlaginu.

Ef eitthvað má kalla ofurfæðu (mjög leiðinlegt orð) eða súperfæðu (ofnotað) þá er það cacao. Því staðreyndin er sú að margir sem neyta þess reglulega fara oft úr miklu orkuleysi inn í sterka lífsorku. Þið getið ímyndað ykkur ef þetta verður raunin með marga. Endalaus lífsorka og kærleikur. Þá er hætta á að heimurinn fari batnandi.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira