c

Pistlar:

18. febrúar 2018 kl. 20:18

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Mjöður sem kveikir meltingareldinn

Logandi sterkur eplasíder er magnað fyrirbæri og eitthvað sem við ættum öll að brugga á þessum tíma árs. Svona mjöður bústar ofnæmiskerfið og hitar okkur frá hvirfli ofan í tær. Nú er lag að skella í einn (eða tvo) til að koma eldhress undan vetri.
Þótt þessi brennandi heiti eplasíder sé vissulega nútímadrykkur byggir hann á aldagömlum hefðum og vísindum. Sterkur eplasíder er í raun tímalaus perla. Á meðan við bíðum þess að mjöðurinn bruggist og jurtirnar skili sér út í vökvann er gott ráð að undirbúa sig andlega undir næstu hreinsun, vorhreinsunina, sem er auðvitað mikilvægasta hreinsun ársins og tími lifrarinnar samkvæmt kínversku alþýðulæknisfræðinni.

Útkoman er afar hressandi og mjöður sem ýtir undir hringrás líkamsvessanna og meltingarinnar. Hann er góður fyrir lungun og kveikir meltingareldinn en bragðast líka mjög vel.

Uppskriftin er ekki heilög. Í hana má bæta ýmsum góðum lækningajurtum, t.d. piparrót, piparkornun, annarskonar lauk eða allskyns þurrkuðum berjum og jurtum. En umfram allt hafðu mjöðinn logandi.

Hér er minn logandi sterki eplasíder sem ég ætla að byrja að taka inn undir eins og hann er tilbúinn, sem er nákvæmlega eftir mánuð. Geymið hann á myrkum stað, t.d. á dimmasta staðnum í eldhúsinu. Þó þar sem þið sjáið til hans svo þið munið að hrista hann mjúklega daglega. Eftir mánuð verður mjöðurinn tilbúinn og eftir það geymist hann í 3 mánuði í ísskáp.
Ég mæli með að allt innihaldið sé lífrænt og eplaedikið líka, og með móður.

UPPSKRIFT:

½ bolli fersk rifin engiferrót

1 meðalstór laukur, saxaður

10 hvítlauksrif, kramin og söxuð

1 stór rauður chili með fræjum

Börkur og safi af 1 sítrónu

Börkur 1 stórri appelsínu

2 msk þurrkað rósmarín

1 tsk turmerik duft

1/2 tsk cayenne duft

Lífrænt eplaedik með móður.

¼ bolli gott hunang, eða eftir smekk

AÐFERÐ:

Undirbúið allt innihaldið. Skerið og rífið niður. Setjið í sirka 500 ml krukku með smelluloki (sjá mynd). Hellið eplaedikinu yfir og fyllið krukkuna passlega og bætið við hunangi eftir smekk. Gætið þess að eplaedikið snerti ekki málminn. Best er að setja smjörpappír á milli loks og krukkunnar og loka svo. Hristið mjúklega á hverjum degi. Að mánuði liðnum er best að notast við grisju og sigta vökvann frá jurtunum og setja svo vökvann lokaða krukku eða flösku. Ef ykkur finnst mjöðurinn mjög sterkur er í lagi að bæta við smá hunangi. En best er auðvitað að hafa hann logandi sterkan og skella honum í sig. Þannig virkan hann best bæði á líkama og anda.

Takið inn 1 teskeið daglega.

mjodur 1 mjodur 2

mjodur 3

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira