c

Pistlar:

9. mars 2020 kl. 21:44

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Naflaolínudd og silkimjúkar varir

Nú þegar margir iðka sjálfsnudd / Abhyanga, hafa lært að brúka tungusköfu, púlla olíumunnskol og þurrbursta líkamann, er gott til þess að vita að vísindi lífsins hafa upp á margt fleira áhugavert að bjóða. Naflaolíunudd er loks komið upp á yfirborðið og hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu. Tískutímaritin Cosmopolitan og Harper ´s BAZAAR hafa bæði birt greinar um naflaolíunudd. Og hvers vegna, jú varirnar verða silkimjúkar, húðin glóandi, augun losna við þurrk og meltingin batnar, svo nokkur dæmi séu nefnd.

naflaolíunuddNaflaolíunudd á rætur í Ayurveda og er ein hinna ævafornu leiða til að halda okkur ungum, hressum og sætum. Allt veltur á því hvaða góðu olíu þú notar. Naflaolíunudd snýst um að hreinsa naflann og fylla hann af nokkrum dropum af vandaðri olíu og líka nudda magasvæðið allt um kring. Þetta er allt gott að gera að kvöldi dags, á tóman maga, áður en við förum að sofa og láta þannig naflann drekka í sig olíuna.

Vísindi lífsins vísa til meðferðar í Bhavaprakasha. Þar og víðar er talað um naflann sem mikilvægasta orkupunkt líkamans eða “great marma”. Undir það tekur kínverska alþýðulæknisfræðin sem segir naflann leika lykilhlutverk í almennri heilsu. Svæðið er kallað “shen que” eða andlega hliðið. Líkt og frá sjónarhóli Ayurveda er naflasvæðið í kínversku alþýðulæknisfræðinni miðpunktur allra orkubrauta líkamans.

En er naflinn nógu magnaður til að húð ykkar verði fegurri, meltingin góð, varirnar silkimjúkar og augun rök? Þið verðið bara að prófa.

Hvernig berðu þig að?

Naflaolíunudd er best að framkvæma fyrir svefninn svo olían frásogist vel á meðan við sofum. Byrjaðu á því að setja olíu á fingurnar og berðu á naflasvæðið. Nuddaðu svæðið í kringum naflann með mjúkum hreyfingum í sirka 1 mínútu. Settu þá nokkra dropa ofan í naflann (gott að nota dropateljara). Oftast er nefnt að 3 dropar séu nóg. Þurrkaðu olíuna í kringum naflann með t.d. bómull og þá er bara að leggjast til svefns og láta miðju líkamans vinna fyrir okkur.

Hvaða olíu er best að nota?

Fremstar eru laxerolía (castor) og ghee (smjörolía) og mikilvægt er að hafa þær báðar lífrænar.

Ekki bara að margir vitni um að naflaolíunudd bæti meltinguna heldur hafa vestrænu vísindin stutt það líka. Sjá nánar.

Hitt er líka vitað að það er samhengi á milli húðfegurðar og heilbrigðrar meltingar. En þótt meltingin sé fljót að léttast með því að setja olíu í naflann og flestir vitni um að vindverkir minnki, vilja sumir meina að það taki aðeins lengri tíma fyrir húðina að nærast og varirnar að vökna. Gefðu þér að minnsta kosti 2 vikur í það.

Hvaða olía gerir hvað?

Laxerolía bætir meltingu, minnkar vindgang, dregur úr verkjum í hnjám og er líka sögð draga úr liðverkjum, bakverkjum og vöðvaverkjum en hún er líka góð fyrir húð og hár.

Ghee (smjörolía) er sögð ákaflega góð fyrir húð og varir. Hana þarf að hita (bræða) undir heitri vatnsbunu í glerkrukku áður en hún notuð. Einnig sögð vinna gegn harðlífi, auka blóðflæði og styrkja ónæmiskerfið.

Sítrónuolía. Hér er lag að nota lífræna kjarnaolíu og blanda aðeins 1 dropa saman við 1 matskeið af grunnolíu (olífuolíu t.d.). Sögð jafna húðlit, hreinsa húð og færa henni ljóma.

Kókosolía er ekki bara sögð bæta meltinguna heldur líka draga úr hósta og kvefi. Hún er kælandi og því góð við magakrampa og tíðarverkjum. Kókosolía er jafnvel talin bæta frjósemi og skerpa sjón. Það er ekki lítið.

Möndluolía er rík af E-vítamíni og þykir yngjandi. Góð við þurri húð, baugum og jafnvel hrukkum.

Sinnepsolía (settu 1 tsk af sinnepsfræjum í 50 ml af lífrænni grunnolíu, hitið upp og sigtið). Sögð draga úr þreytu og sleni, bæta minni, styrkja nelgur, bæta sjón, minnka fótapirring og mýkja þurrar varir.

Olífuolía þykir svo einstaklega góð fyrir lifur, sögð lækka blóðþrýsting og styrkja bein og vöðva. Hún er líka afskaplega góð grunnolía fyrir t.d. sítrónukjarnaolíu og sinnepsolíu.

Svo er bara að þreifa sig áfram.
Góða skemmtun!

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira