c

Pistlar:

28. júlí 2020 kl. 10:55

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Vertu snillingur í narti!

Flest erum við meistarar í fjölbeitingu eða í því að múltítaska. Nart er drjúgur partur af þeim lífsstíl. Oft nörtum við í það sem hendi er næst sem getur verið allt frá skyndibitum til þeytinga og frá orkustykkjum til nammis. Þetta gerum við auðvitað til að halda orku svo við náum að gera allt sem við þurfum að gera. En á meðan sum okkar eru snillingar í narti sem nærir eru aðrir í tómu tjóni.

Eitt af lykilatriðum vísinda lífsins (Auyrveda fræðanna) er að halda melingareldinum skíðlogandi og þar er sagt að við verðum aldrei eldri en meltingareldur okkar. Það er ekkert að því að narta en getur verið bráðsnjallt að gera það vel.

Ólíkt því þegar við setjumst niður og borðum og njótum fer nart gjarnan ekki fram í núinu. Ef þú ert sínartandi er skýringin líklega sú að þú færð ekki næga næringu. Þegar við erum ómeðvituð um það sem við erum að borða er ekki ólíklegt að það sé gert í streituástandi. Það eitt hefur slæm áhrif á meltinguna og veldur oft meltingartruflunum og uppþembu sem dregur úr lífsorkunni. Með því að byggja upp þótt ekki sé nema örlita meðvitund getur nartið hins vegar gert þér ákaflega gott.

 

Ayurveda fræðin eiga svör við flestu (ef ekki öllu). Til að hafa meltinguna logandi brýna fræðin fyrir fólki að borða 2 til 3svar á dag á matmálstímum. Það veltur þó á því hvort þú er vata, pitta eða kafa (taktu prófið). Þegar þú veist hver þú ert, eða hvar þú ert stödd í dag, samkvæmt þessum áhugaverðu fræðum, er mun liklegra að þú náir rata rétta veginn og getir gert nartið bæði spennandi og nærandi.

 

Hafðu þetta þó fyrst og fremst í huga:

 

°Komdu þér upp rútinu. Reyndu að taka frá tíma til að borða ágætlega á morgnanna, gefandi mat í hádegi og léttari á kvöldin, helst ekki seinna en sex. Reyndu að skipuleggja þig fram í tímann.

 

° Legðu frá þér símann og tölvuna þegar þú borðar þessar 2 til 3 máltíðir. Tyggðu matinn meðvitað, spjallaðu um daginn og veginn við þína nánustu og njóttu. Tíminn sem maður gefur sér í svona máltíðir bætir meltinguna. Og geðið um leið.

 

°Mundu eftir vökvanum. Stundum er svengd ekkert annað en vökvaskortur. Ayurveda mælir alltaf með stofuheitu vatni eða góðum teum, líka jurtalettedrykkjum, eins og t.d. túrmerik-latté, sem er hinn sá magnaðasti, segja Ayrvedafræðin og hentar öllum líkams / hugargerðum.

 

°Ef þú dettur í nartþörf, prófaðu að spyrja sjálfa þig um hvað málið snýst? Er það vegna tilfinninga sem rísa upp (sem eru handan hungurs) eða þarftu bara að narta? Ef annað liggur að baki en svengd má reyna að anda djúpt, skrifa niður tilfinningarnar, eða gera eitthvað annað. Bara svo viðbragðið sé ekki allt nart. 

 

°Reyndu meðvitað nart. Ef þú ert svöng/svangur prófaðu að borða í takt við þína líkams/hugargerð (vata, pitta eða kafa, og endilega taktu prófið). Gáðu hvað gerist?
Turmerik latte

Hér eru góðar upplýsingar um nart sem gæti hentað þér?

 

Snakk fyrir vata

Fyrir þá sem eru með sterka vata líkams / hugargerð eða eru að upplifa mikið vataójafnvægi (eru speisaðir og kannski svolítið kaldir) er gott að hugsa um það sem tengir við jörðina. Vata týpan er þurr, létt og hrjúf og þolir illa nart sem er að sama toga. Frumefnin í vata líkams /  hugargerðinni eru hreyfanleg og óstöðug svo vatan þarf umfram allt á reglu að halda. Helst að reiða sig á 3 máltíðir á dag. Hún ætti að forðast kex og flögur, poppkorn, smákökur, þurrkaða ávexti og sleppa hráfæði alveg. Í staðinn ætti hún að sækja í náttúrulega sætan mat, heitan mat, olíur og helst alltaf vel eldaðan mat.

Góð dæmi um fyrirtakts vata-nart:

Heitir döðluþeytinga (geggjað að hita saman jurtamjólk, döðlur og kardimommur)

Apríkósur sem hafa verið lagðar í bleyti

Elduð epli með ghee-i og rúsínum

Fylltar döðlur með tahini, möndlusmjóri eða sólblómasmjöri

Avócadósneiðar eða guacamole.

Snakk fyrir pitta

Þeir sem eru sterkar pittur og eða upplifa pitta ójafnvægi ættu að leita eftir snakki sem er kælandi en um leið mjög næringarríkt. Pittan getur orðið mjög svöng, svo hún verður að passa upp á að borða reglulega og hafa gæðin mikil. Ef þú ert mjög orkumikil pitta er mikilvægt að borða á morgnanna, í hádeginu og á kvöldin. Miklar og langar föstur henta ekki endilega þeim sem eru sterkar pittur (eldur/vatn). Mjög virk pitta sem ekki nærir sig vel er líklegust allra til að enda í börnáti. Mikilvægt er að fá róandi fæðu sem dregur úr innri hita en heldur um leið meltingareldinum logandi. Orðið “hangry” (hungry/angry) lýsir pittum í ójafnvægi vel.

Gott nart fyrir pittur:

Ferskir ávextir

Agúrkur, kúrbítur og gulrætur

Möndlur sem hafa legið í bleyti (og döðlur með)

Snakk fyrir kafa:

Þeir sem eru sterkar kafa eða eru í kafa ójafnvægi mega alveg sleppa úr máltíðum. Þær þola föstur best allra (þótt þær vilji ekki endilega fasta). Það er mikivægt fyrir þær að kveikja meltingareldinn því melting kafa er gjarnan þung. Matur sem kemur jafnvægi á kafa er hitagefandi, samandragandi (þurr) og matur sem dregur úr raka, þ.e. bjúg. Nart sem kafa ætti að forðast er hið kalda, t.d. kaldir drykkir, frosin fæða, ís, sætt snakk, mjög súr matur og matur sem er mjög þéttur í sér.

Þetta er besta snakkið fyrir kafa:

Ferskt engiferte með hunangi

Bragmikið turmerikryddað poppkorn

Hrískökur með t.d. kimchi eða súrkáli

Bökuð epli með engifer og kanil

 

Góðu fréttirnar eru þær að gott súkkulaði eða cacaó getur alveg hentað öllum líkams / hugargerðum. Þó síst pitta. En það sem pitturnar geta gert að að fá sér súkkulaði með kælandi döðlum og kannski kókos. Hinar, þ.e. vata og kafa þurfa það sem er hitagefandi og því er bæði yfir 70% súkkulaði og cacaó mjög gott snakk. Hafðu súkkulaðið / cacaóið vel unnið og helst lífrænt.

 

Njóttu þess að narta.

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira