Systrasamlagið efnir til hugleiðslumaraþons í miðborginni laugardaginn 20. júlí frá 10-16.
Boðið verður upp á nokkrar ólíkar tegundir af hugleiðslu úr mismunandi menningarheimum. Við fáum til liðs við okkur reynda hugleiðslukennara sem munu miðla þekkingu sinni og leiða okkur hver í gegnum sína hugleiðslu.
Hugleiðslumaraþonið fer nánar tiltekið fram í Systrasamlaginu og ef til vill að einhverju leyti í Leynigarði Systrsamlagsins, ef veður leyfir. Hægt verður koma inn hvenær sem er dagsins og hefja hugleiðslu á heila tímanum en auðvitað er líka gaman að gefa sér daginn og prófa þær flestar, ef ekki allar. Dásamleg leið til að róa hugann, taugakerfið, hjartað og takast á við streitu.
M.a. þess sem kemur við sögu eru:
Möntruhugleiðsla
Kirtan
Indversk hugleiðsla
Kyrrðarbæn
Lectio Divina
Hljóðbað
Hugleiðslukennarar að þessu sinni eru Thelma Björk, Össi Árnason, Shilpa Khatri Babbar, Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Vala Gestsdóttir.
Nánari dagskrá og meira um hugleiðslurnar og kennarana:
10:00 Thelma Björk sem er allt í senn jóga og listgreinakennari með diplóma í jákvæðri sálfræði og stofnandi Andaðu er konan á bakvið hugleiðslumorgna alla föstudaga í Systrasamlaginu. Hún mun leiða okkur í gegnum möntruhugleiðslu.Í hugleiðslu með möntrum er farið með endurtekna þulu í huganum eða upphátt til að ná hlutlausum huga og til að slökkva á truflandi hugsunum. Með möntrusöng er unnið með orð eða röð orða sem eru endurtekin til að framkalla breytingu á huga og vitund. Að sögn Thelmu Bjarkar færir það henni hugarró að syngja möntrur. Það sefar hugann og hjálpar okkur að losa upp óæskileg hugsanamynstur sem valda okkur hugarangri
11:00 Össi Árnason er fyrrum sjómaður og kvikmyndagerðamaður. Hann fór til Indlands og lærði jógakennarann og hefur síðasta áratug haft brennandi áhuga á andlegum og líkamlegum málefnum. Hann kynnir okkur fyrir kirtan hugleiðslu og mætir með gítarinn. Sanskrít orðið „kirtana“ þýðir „að endurtaka“. Kirtan er frábær leið til að róa taugarnar og sefa hugann, sem verður þá náttúrulega hneigður til að hugleiða. Kirtan er upphaflega æft með sanskrít möntrum en það er í raun hægt að gera það á hvaða tungumáli sem er, svo framarlega sem tilfinningin og hugarfarið er til staðar.
12:00 Dr. Shilpa Khatri Babbar er félagsfræðingur og formaður indverskra fræða við Háskóla Íslands þar sem hún hefur kennt hindímál og indverska menningu síðan 2022. Hún er fædd og uppalin á Indlandi og hefur iðkað ayurveda, chanting og Bhakti jóg sem saman mynda stoðir indverskrar hugleiðslu. Shilpa segir forna indverska heimspeki sjálfstyrkjandi. Hún hefur haldið meira en 50 afar vinsæla fyrirlestra á Íslandi með áherslu á indversku reynsluvísindin.Dr. Shilpa lítur á heiminn sem eina stóra fjölskyldu og sér sig sem sendiherra innri friðar, friðar á milli fólks og milli okkar og alheimsins. Eina markmið hennar er að verða betri manneskja.
13:00 Bylgja Dís Gunnarsdóttir, sem er æskulýðs- og fræðslufulltrúi Hafnarfjarðarkirkju er í námi í Spiritual Direction, hún er með kennsluréttindi í hugleiðsluaðferðum kristinnar trúar frá Contemplative Outreach og fyrir jólin 2023 komu út Kyrrðarlyklar eftir hana sem eru spjöld sem styðja við bæn, íhugun og hugleiðslu. Bylgja Dís kemur inn með kyrrðarbæn og Lectio Divina sem eiga rætur sínar að rekja til hugleiðsluarfs kristinnar trúar. Kyrrðarbæn fer fram í þögn og ásetningur hennar er að dvelja í nærveru Guðs, eða æðri máttar, handan hugsanna, orða og tilfinninga. Í Lectio Divina er helgur texti lesin fjórum sinnum með þögn á milli og í þögninni íhugar hvert og eitt okkar textann á sínum forsendum.
14:00 Andrými og kaffistund. Kaffihúsið opið með léttum veitingum.
15:00 Vala Gestsdóttir lærði tónheilun og hjá Acutonics í Englandi. Grunnur Völu liggur í tónlist en hún hún er með meistaragráðu úr Tónlistardeild LHÍ, auk þess sem hún lærði hljóðfræði og hljóðupptökur við SAE Institute í London. Vala miðlar tónheilun sem er heilandi meðferð sem byggir á hljóðbylgjum sem streyma um líkamann og losa um spennu og uppsafnaðar stíflur sem myndast við áföll og annað mótlæti sem við verðum fyrir í lífinu. Tónheilun getur umbreytt lærðu hegðunarmunstri sem við sitjum uppi með, munstri sem ekki þjónar neinum tilgangi og getur aftrað heilbrigðu flæði á leið okkar í lífinu.
16:00. Dagskrárlok.
Þetta verKefni er unnið i samvinnu við Andaðu og Sumarborgina
ATH: Kaffihús og verslun Systrasamlagsins er lokuð á meðan hugleiðsla/fræðsla er í gangi
Gengið er inn bakdyramegin, í gegnum garðinn.
Hægt verður að fá sér drykk og meðí á milli hugleiðslustunda.
Vekjum líka athygli á andrýminu milli hugleiðsla sem verður frá 14-15.
ÖLL velkomin og aðgangur ókeypis á meðan húsrúm leyfir.