c

Pistlar:

24. október 2024 kl. 15:33

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Vítamínin sem koma þér í gegnum veturinn - og kosningarnar!

Svo gæti farið að margir verði hóstandi með heilaþoku kjörklefunum í lok nóvember. Kvefið er komið og flensan færist nær og nær. Nú þegar vetur gengur í garð, að ekki sé talað um þegar flensan mætir af öllum sínum þunga er gott að vera búin að byggja upp mótstöðu. Í það minnsta þannig að flensan taki ekki af okkur viljann til að kjósa eða hugsa rökrétt.

Mesta umtalið er ávallt um C-vítamín í fylgd góðra fitusýra sem veitir frábært viðnám gegn veikindum og er gulls ígildi fyrir ónæmiskerfið, húðina og orkustigið. En það þarf miklu meira til að komast í gegnum myrkustu og köldustu mánuði ársins, sérstaklega þegar álagið er mikið.
vítamín

Óumsemjanlegt!!

Í fyrsta lagi er það að taka inn D-vítamín á þessum tíma árs óumsemjanlegt. Skortur á sólskini á norðurhjara veraldar kallar á D-vítamín á hverjum einasta degi. Höfum í huga nokkra hópa sem eru útsettari fyrir skorti en aðrir: Það eru börn undir 5 ára aldri, þungaðar konur, konur með barn á brjósti og aldraðir. Það er á okkar ábyrgð að passa upp á þesssa viðkvæmu hópa.
Ef þú finnur að þú ert að veikjast eða veikist oftar en venjulega getur það verið merki um lágt magn af D-vítamíni, sem er algengara en fólk heldur þrátt fyrir alla umræðuna. Þess utan hjálpar D-vítamín líkamanum að taka upp kalk og fósfat, sem eru tvö nauðsynleg steinefni fyrir beinheilsu og vöxt. Í frumum líkamans eru jafnframt viðtakar sem virka betur til að halda ónæmiskerfinu virku ef nægt D-vítamín er til staðar. D-vítamín hjálpar okkur að verjast alvarlegum öndunarfærasjúkdómum og árið 2017 var sýnt fram á fylgni á milli hás magns D-vítamíns í líkamanum og gnægðar örvera í þörmunum sem er tengt góðri meltingarheilsu. Einnig hefur D-vítamín verið tengt minni bólgum, styrkari vöðvum og sterkari liðum. Þetta hefur m.a. komið fram í British Medical Journal.

 

B6 vítamín fyrir betra geð

Öll B-vítamínin eru mikilvæg. Í raun mikilvægustu orkuvítamínin. Þar sem B6 stuðlar að eðlilegri starfsemi ónæmiskerfisins er það ákaflega mikilvægt á kvef- og flensutímabilinu. Mikilvægið stafar af stórum hluta í stuðningi við framleiðslu T-eitilfrumna en það eru verndarfrumur sem senda boð sem stjórna viðbrögðum ónæmiskerfisins gegn sýkingum. Ef þú þjáist af minni orku og aukinni þreytu yfir vetrartímann ætti B6 að lyfta þér upp. Það gerir líkamanum kleift að breyta fæðu í orku. Árstíðabundin röskun, kölluð SAD, getur valdið vonleysistilfinningu, trega og einbeitingarörðugleikum. B-vítamín tryggja í raun betra geð og góða vitræna virkni. B6 hefur einkum áhrif á taugaboðefni í heila sem hjálpa til við að stjórna skapi og andlegri starfsemi. Ef deyfðin nær tökum á þér yfir vetrartímann er mikilvægt að hafa B6-vítamínið í hámarki. 

Sink fyrir betri svefn

Sink er steinefni sem er frábært að taka inn á veturna til að styrkja náttúrulegar varnir líkamans, sérstaklega gegn árstíðabundnum húðvandamálum. Kalt og þurrt vetrarloft er ansi oft harkalegt fyrir húð og slímhúð. Sink er eitt af því sem ýtir undir að sár grói og viðheldur góðri slímhúð. Gott sinkmagn í líkamanum hjálpar til við að koma í veg þurrk og sprungur. Þá styðja rannsóknir við að sink geti stytt kveftímann. Ávinningurinn af því að taka sink með C-vítamíni hefur verið skjalfestur: í einni rannsókn komust vísindamenn að því að samsetningin C- vítamín og sink er verulega áhrifarík til að draga úr nefrennsli. Hitt er, sem við mörg vitum, að skortur á náttúrulegu ljósi og kaldara hitastig, kemur oft í veg fyrir að við fáum góðan nætursvefn. Nægilegt magn af sinki getur unnið gegn því. Ef þú átt í erfiðleikum með að loka augunum og festa svefn í vetur skaltu íhuga að narta í graskersfræ (kannski ekki af ástæðulausu úr aðal þakkargjörðar grænmetinu). Auk þess að vera rík uppspretta sinks innihalda graskerfræ einnig melatónín sem styður við heilbrigðan svefn. Það er skynsamlegt að leggja ríka áherslu á sink yfir vetrarmánuðina.

Omega-3 fyrir mýkri húð

Omega-3 fitusýrur eru lífsnauðsynlegar allt árið um kring. En yfir vetrarmánuðina þegar loftið er kaldara og þurrara tryggja þær húðinni raka og teygjanlega. Omega 3 fitusýrur eru líka bólgueyðandi og halda því “þurrum” húðsjúkdómum (eins og exemi), sem blossa gjarnan upp á veturna, í skefjum. Á saman tíma smyrja þær liði og eru í raun ómissandi hluti af vetrarlífinu. Omega fitursýrur halda rakanum inni í frumuhimnunum og styðja því við ónæmiskerfi húðar. Þótt mikilvægt sé að bera á sig góðar olíur yfir vetrartímann eru Omega 3 fitusýrurnar það sem heldur okkur virkilega djúsí. Ekki gleyma því að Omega 3 draga úr bólgum, lækka blóðþrýsing og bæta almennt hjarta- og æðakerfi. Það er mikilvægt á streitutímum, eins og á kosningavetri.

Járn fyrir bætta orku

Járn er sannarlega orkugefandi steinefni sem þarf til að búa til blóðrauða, mikilvægan hluta rauðra blóðkorna. Blóðrauði flytur súrefni um líkamann og frásogar orku úr fæðugjöfum. Þannig að ef þig skortir járn eru líkur á því að þú finnir fyrir stöðugri þreytu, líkt og að þú sért að keyra á tómum tanki. Börn og barnshafandi konur og konur á barnseignaraldri hafa oft lægra járnmagn. Ef þér er nú þegar of kalt, þótt ekki sé kominn hávetur, getur verið þess virði að láta kanna járnið þitt þar sem lágt magn getur hindrað getu líkamans til að mynda, geyma og dreifa hita. Ráðlagður daglegur skammtur fyrir karla er 8,7 mg fyrir karla og um það bil tvöfalt það, eða 14,8 mg, fyrir konur á barnseignaraldri. Gakktu úr skugga um að þú hafir eitthvað C-vítamín við höndina til að auka frásog járnsins.

Ofurkraftar ylliberja

Ylliber, þessi smáu dökku ber eru hreint kyngimögnuð. Á þau er minnst víða í alþýðulæknisfræði mismunandi landa og sagt að þau haldi okkur heilsuhraustum í gegnum köldustu mánuði ársins. Andoxunarefnin sem búa í þessum litlu berjum halda ekki aðeins ónæmiskerfinu sterku heldur eru einnig talin hafa bakteríudrepandi og veirueyðandi ofurkrafta. Það geta sannarlega stytt kvef- og flensutímann.

C-vítamínið sjálft 

C-vítamín er alltaf gott á kvef- og flensutímum. Kannski það allra mikilvægasta. Fyrir utan að rétta líkamanum hjálparhönd þegar þú reynir að koma í veg fyrir kvef í kulda býr C-vítamín yfir ótrúlegum andoxunareiginleikum sem geta hjálpað þér við að takast á við algeng vetrarhúðvandamál. Í raun og veru er C-vítamín hið eina og sanna “kollgen” sem gerir við skemmdar húðfrumur, endurnýjar húð og viðheldur henni.

B 5 fyrir minni streitu, kannski kosningavítamínið?

Svo er það annað B- vítamín. B5 vítamín, sem vert er að nefna. Stundum nefnt „andstreitu“ vítamínið vegna þess að það getur snúið við líffræðilegum skaða af völdum streitu. Líkamlegt, tilfinningalegt og sálrænt álag veldur gjarnan því að nýrnahetturnar seyta kortisóli (langtíma streituhormóni) og adrenalíni (skammtíma streituhormóni). Langvarandi streita knýr framleiðslu á of miklu af þessum hormónum, sem getur valdið skaða, jafnvel löngu eftir að álagið er yfirstaðið. Þegar B5 vítamín er í nægilegu magni í líkamanum dregur það úr seytingu kortisóls og líkaminn er betur fær um að jafna sig. Í skortsástandi getur farið svo að nýrnahetturnar ráði ekki við álagið og skortur verður á heilbrigðum viðbrögðum gegn mýmörgum streituvöldum. Langvarandi álag tekur lífeðlisfræðilegan toll. B5 vítamín er því kannski aldrei mikilvægara en nú veturinn 2024.

 

 

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira