c

Pistlar:

25. ágúst 2016 kl. 12:12

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 1. hluti

Atvinnuvegirnir eru undirstaða velferðar í landinu. Nú styttist í kosningar og verður hér í þremur greinum fjallað um stefnu stjórnmálaflokkanna í efnahagsmálum og gagnvart atvinnuvegunum. Einungis verður fjallað um þá flokka sem gera má ráð fyrir að komist á þing skv. skoðanakönunum Gallup og MMR en stjórnmálahreyfing þarf minnst 5% fylgi til að koma manni á þing.

VG er sá flokkur sem er lengst til vinstri á Íslandi. Í efnahagsmálum er stefnan að auðlindirnar séu þjóðareign og að fiskveiðikvótinn verðir afturkallaður. VG aðhyllist ríkisforsjá í flestum málum, vill ríkiseign á fyrirtækjum, minni fyrirtæki og samvinnufélög. VG leggur mikið upp úr byggðastefnu sem kallar á inngrip stjórnvalda. Flokkurinn vill nota skattkerfið til að jafna kjör landsmanna. VG er á móti aðild að ESB og vill herða eftirlit með viðskiptum.

Samfylkingin hefur norræna sósíaldemókrata að fyrirmynd. Þetta þýðir að flokkurinn sættir sig við kapítalismann upp að vissu marki. Samfylkingin er mjög sammála VG um auðlindirnar, skattastefnu, og umhverfismál en í öðrum hlutum efnahagsstefnunnar er áherslumunur milli þessara vinstri flokka. Samfylkingin vill opna markaði en er með sömu áherslur og VG að öðru leyti í atvinnustefnu. Samfylkinginn vill ganga í ESB og aðhyllist viðskiptafrelsi með vissum takmörkunum.

Píratar eru vinstra megin við miðju og virðast vera að staðsetja sig þeim megin í auknum mæli. Gjarnan hefur verið kvartað yfir því að stefna flokksins í mikilvægum efnisflokkum sé óljós. Píratar aðhyllast samt sem áður auðlindarákvæði stjórnlagaráðs og vilja innkalla fiskveiðikvótann. Þeir hafa svipaða stefnu og VG í atvinnumálum. Píratar eru hlutlausir varðandi inngöngu í ESB.

Framsóknarflokkurinn er dæmigerður miðjuflokkur sem sveiflast nokkuð á milli hægri og vinstri, allt eftir málaflokkum. Rætur hans úr samvinnnuhreyfingunni eru mjög áberandi þar sem áherslan er á verndarstefnu og byggðastefnu. Framsókn er sammála vinstri flokkunum um eign á auðlindunum, aðhyllist verndarstefnu og blandaða leið í atvinnumálum. Flokkurinn vill lækka skatta en halda í virðisaukaskattinn og nota tolla til verndar innlendum iðnaði. Framsókn er andvíg aðild að ESB, aðhyllist verndarstefnu og fríverslunarsamninga í milliríkjaviðskiptum.

Viðreisn er nýtt stjórnmálafl sem leggur áherslu á almannahagsnuni umfram sérhagsmuni. Flokkurinn aðhyllist viðskiptafrelsi og markaðslausnir þar sem við á og vill kanna hug landsmanna til ESB með þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn vill skapa fyrirtækjum stöðugt og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi án hafta, byggt á stöðugum gjaldmiðli og samkeppnishæfum vaxtakjörum. Skynsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda er að mati Viðreisnar undirstaða velsældar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til verið eini hægri póllinn í íslenskum stjórnmálum en með tilkomu Viðreisnar er það skoðun sumra að þeir séu orðnir tveir. Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist markaðslausnir og frálslyndi í atvinnustefnu en vill óbreytt kerfi í sjávarútvegi og landbúnaði. Flokkurinn hefur hægri sinnaða afstöðu í skattamálum sem þýðir sem lægsta skatta. Hann er andvígur inngöngu í ESB en aðhyllist frjálshyggju í milliríkjaviðskiptum.

Eins og sést af þessari yfirferð eru tveir andstæðir pólar í hinu pólítíska landslagi hér á landi líkt og í nágrannalöndunum, hægri og vinstri. Auk þess staðsetja nokkrir flokkar sig nálægt miðjunni. Þróunin hefur verið sú að flokkarnir hafa verið að tileinka sér „það besta“ úr stefnu hver annars og hafa skilin á milli hægri og vinstri því verið á undanhaldi. Sú framvinda birtist í svokölluðu blönduðu hagkerfi. Þetta hugtak felur m.a. í sér að sum gæði eins og vörur og þjónusta, ganga kaupum og sölu á frjálsum markaði og eru framleidd af einkaaðilum en önnur gæði eru framleidd og þeim úthlutað samkvæmt opinberum tilskipunum.

Blandað hagkerfi er því eins konar millistig á milli hreins markaðshagkerfis annars vegar og hreins áætlunarbúskapar hins vegar. Hugtakið áætlanabúskapur lýsir tilskipanahagkerfi og er þá vitnað til þeirrar stefnu sem var rekin í Sovétríkjunum forðum. Togstreitan á milli vinstri og hægri snýst oftar en ekki um að það hve ríkið á að vera fyrirferðarmikið í hagkerfinu og skilgreininguna á ráðstöfunarétti einstaklingsins á þeim tekjum sem hann aflar. Spurningin er hvað kemur atvinnuvegunum best.

Í næstu grein sem birtist innan skamms verður fjallað um áherslur flokkanna gagnvart sjávarútvegi og orkuiðnaði.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira