Hér kemur 2. hluti greinar þar sem rennt er yfir pólitískar áherslur og átakalínur í málefnum helstu atvinnuvega landsins. Að þessu sinni er fjallað um sjávarútveginn og orkuiðnaðinn.
Sjávarútvegur
Líklegt verður að teljast að veiðigjaldið og kvótakerfið verði eitt helsta kosningamálið í komandi kosningum enda hefur lengi verið deilt um þessi mál. Hér má segja að víglínan sé nokkuð skýr á milli þess að verja óbreytt ástand og að breyta því. Vinstri stjórnin á síðasta kjörtímabili hækkaði veiðigjaldið verulega en núverandi stjórnarflokkar hafa aftur á móti lækkað það. Segja má að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn styðji núverandi fyrirkomulag en að aðrir flokkar kalli á einhvers konar breytingar.
Líklegt verður því að teljast að ef stjórnarskipti verða á komandi kjörtímabili, verði veiðigjaldið hækkað á ný og/eða að kvótaheimildirnar kallaðar inn, a.m.k. að einhverju leyti. Á síðasta kjörtímabili vinstri flokkanna stóð til að leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka. Af þessu varð þó aldrei. Segja má að stefna nýja stjórnmálaaflsins, Viðreisnar, sé ekki fjarri þessari leið en hún gengur út á að 5% aflaheimilda fari á frjálsan markað á ári hverju.
Sumir óttast að innköllum veiðiheimilda veiki rekstrargrundvöll útgerðarinnar þar sem kvótinn hefur gengið kaupum og sölum um áratuga skeið og fyrirtækin því lagt í verulegan kostnað við að tryggja sér aflaheimildir. Framsal kvótans hefur af mörgun verið talin helsta skýringin á aukinni hagkvæmni í greininni. Einnig benda menn á miklar fjárfestingar sem núverandi „kvótaeigendur“ hafa lagt í sem hafa byggt á vissunni um umráðarétt aflaheimilda til framtíðar. Aðrir halda því fram að innköllun kvóta og endurráðstöfun hans tryggi nýliðun í greininni og verji landsbyggðina gegn kvótayfirtöku en skemmst er að minnast kaupa Granda hf. á kvóta frá Þorlákshöfn. Það er eðli hagræðingar að kvótinn leiti þangað sem hagkvæmast er að nýta hann, til þeirra sem best eru til þess fallnir að reka sjávarútvegsfyrirtækin og það kallar á samþjöppun og fækkun útgerðarstaða.
Orkuðiðnaður
Orkusækinn iðnaður er ásamt sjávarútvegi og ferðaiðnaði einn af máttarstólpum íslensks efnahagslífs. Mjög hefur verið deilt um virkjanakosti á þessu kjörtímabili og erfitt hefur reynst að ná sátt um þá. Alþingi hefur á köflum logað stafnana á milli vegna rammáætlunar. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að taka ekki tillit til samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa orkunýtingar. Orkuskortur blasir við í landinu sem kemur í veg fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkusækins iðnaðar en einnig annars konar iðnaðar. Deilt er um stóriðjuna og það orkuverð sem hún greiðir. Einnig eru náttúruverndarsjónarmið fyrirferðarmikil.
Almennt má segja að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn séu fylgjandi fleiri virkjanakostum og áframhaldandi uppbyggingu orkusækins iðnaðar. Viðreisn telur að skynsamleg nýting náttúruauðlinda sé undirstaða velsældar en vill auðlindagjald fyrir afnotaréttinn. Vinstri flokkarnir eru á bremsunni hvað varðar nýjar virkjanir og stóriðju með þeirri undantekingu þó að VG hefur beitt sér fyrir byggingu kísilmálmvera.
Íslendingar hafa reyndar aldrei verið sammála um ágæti orkusækins iðnaðar. Þeir sem eru á móti stóriðju halda því gjarnan fram að það sé ekki gott að hafa atvinnufyrirtækin í eigu útlendinga, að við seljum raforkuna of ódýrt og að virkjanir stríði gegn sjónarmiðum náttúruverndar. Bygging Kárahnjúkavirkjunar var t.d. kröftulega mótmælt af ýmsum náttúruverndarsamtökum en álverið á Reyðarfirði er knúið með raforku þaðan.
Hins vegar er ótvírætt að orkusækinn iðnaður hefur haft mjög jákvæða þýðingu fyrir efnahag landsins. Landsvirkjun er a.mk. metin á 500 milljarða kr. auk þess sem von er á tugmilljarða arðgreiðslum í náinni framtíð. Þessi ágóði Landsvirkjunar er að langmestu leyti kominn til vegna orkukaupa stóriðjunnar. Aldrei hefði verið lagt í þær stóru virkjanaframkæmdir sem raforkukerfið byggist á hér á landi, nema Landsvirkjun hefði haft traustan orkukaupanda eins og stóriðjuna til lengri tíma litið, til að tryggja sjóðsstreymi til niðurgreiðslu þeirra lána sem fjármögnuðu virkjanirnar. Almenningur nýtur m.a. góðs af þessari tilhögun með einu lægsta orkuverði í Evrópu sem ella væri ekki.
Málefni sjávarútvegsins og orkuiðnaðarins eru flókin og erfið viðureignar og mikil átök hafa verið um þau á hinum pólitíska vettvangi. Það er því orðið tímabært að um þessa málaflokka náist sátt í þjóðfélaginu. Í næstu grein verður fjallað um landbúnað og ferðaiðnað.