Þeir sem fæddir eru um og fyrir 1970 muna vafalítið eftir sænska skíðakappanum Ingemar Stenmark. Ég man eftir því að fylgjast með skíðakeppnum í sjónvarpinu sem barn og "heija" með til að hvetja Stenmark. Fyrir nokkrum árum vann ég verkefni með sænskum manni og einhverra hluta vegna barst þessi þjóðhetja Svía til tals. Þessi sænski vinur minn var í barnaskóla þegar Stenmark var á hátindi ferils síns og lýsti því hvernig kennararnir trilluðu sjónvarpi á sal og allir nemendur fylgdust með honum keppa með öndina í hálsinum. Allir vildu vera eins og Stenmark og sænskt þjóðfélag lamaðist þegar hann vann sína stærstu sigra.
Til eru margar semmtilegar sögur af Stenmark og sænski vinur minn deildi með mér einni sem ég hef ekki gleymt og mjög oft hugsað um.
Einu sinni sem oftar var Stenmark að keppa, ekki fylgdi sögunni hvaða mót um var að ræða en eins ótrúlegt og það hljómar þá var Stenmark undir eftir fyrri ferðina. Ekki munaði miklu á honum og efsta manni en þó það miklu að það yrði veruleg áskorun fyrir Stenmark að vinna upp þann mun. Ungur íþróttafréttaritari spyr Stenmark með öndina í hálsinum hvað hefði eiginlega gerst í fyrri ferðinni? Ingemar svarar með þeirri stóísku ró sem hann er þekktur fyrir. "Nú ég er annar, það er staðan." Fréttaritarinn ungi heldur áfram og spyr "hvað ætlarðu eiginlega að gera í seinni ferðinni til að vinna þetta upp?" "Mitt besta" segir Stenmark og þar með var því viðtali lokið.
Áhorfendur bíða með öndina í hálsinum eftir seinni ferð Stenmarks. Keppinautur hans fór seinni ferðina á frábærum tíma sem gerði það að verkum að Stenmark þurfti að ná sínum allra besta tíma ætti hann að eiga möguleika á sigri. Dauðaþögn var í brekkunni þegar hann kemur sér fyrir í rásmarkinu og þegar hann stekkur af stað fara áhorfendur að hvetja hann sem aldrei fyrr. Ekki bara í brekkunni heldur líka í grunnskólum í Svíþjóð þar sem nemendur fylgdust með þjóðhetjunni með öndina í hálsinum.
Stenmark byrjar ágætlega en er langt frá sínu besta þegar millitíminn kemur á skjáinn...en svo er eins og eitthvað ótrúlegt gerist. Allt gengur upp. Hann skíðar eins og engill, nær betri tíma en nokkru sinni í seinni hluta brekkunnar og kemur í mark sem sigurvegari á mótinu. Áhorfendur tryllast og íþróttafréttamaðurinn ungi tekur til fótanna og ætlar að ná tímamótaviðtali við Stenmark eftir þennan ótrúlega sigur.
"Ingemar, Ingemar, þetta var ótrúlegt, þvílíkur sigur...þvílík heppni" másar íþróttafréttamaðurinn og rekur hljóðnemann í átt að Ingemar Stenmark sem dregur andann djúpt, og segir svo, enn með sinni stóísku ró: "er það ekki magnað, því meira sem ég æfi mig, því heppnari verð ég."
Ekki varð þetta viðtal lengra enda fátt annað hægt að segja.
Þessi orð skíðahetjunnar Ingemars Stenmark hafa setið í mér og segja ótrúlega margt. Þau eru góð áminning um að þeir sem ná árangri ná honum sjaldnast fyrir einskæra heppni heldur liggur að baki mikil vinna og óteljandi stundir við æfingar og undirbúning. Malcom Gladwell segir í bók sinni Outliers frá því að rannsóknir sýni að til að skara fram úr á einhverju sviði þurfi a.m.k. 10000 stunda þjálfun eða undirbúningur að liggja að baki. Meira að segja Bítlarnir hafi spilað linnulaust í Þýskalandi mánuðina og árin áður en þeir voru uppgötvaðir í Liverpool og þeir hafi án vafa átt meira en 10000 stunda spilamennsku að baki áður en þeir slógu í gegn. Heppni hafði lítið með þeirra velgengni að gera, heldur má skrifa hana á þrotlausa vinnu. Í ljósi árangurs kvikmyndar Baltasars og hans velgengni væri áhugavert að slá tölu á þær vinnustundir sem hann hefur unnið að undirbúningi þessa verkefnis allt frá því að hann var við nám í leiklistarskólanum. Ég giska á að þær stundir séu fleiri en 10 þúsund! Hversu mörgum stundum ætli frjálsíþróttakona Helga Margrét hafi varið í æfingar á sínum ferli? Þær eru ófáar og líklega fleiri en 10 þúsund. Og svo mætti lengi telja.
Ert þú tilbúin(n) til að leggja á þig það sem til þarf til að skara fram úr eða ertu að bíða eftir því að heppnin hitti þig fyrir?