Eflaust hafa margir fengið að heyra setninguna „þú verður að gera fleira en gott þykir“ frá foreldrum sínum á uppvaxtarárunum eða sambærilegar setningar. Það er ekki hægt að ganga í gegnum lífið og gera einvörðungu það sem okkur langar mest til. Við verðum að gera fleira en það sem gott þykir og láta okkur hafa að gera hluti sem okkur finnst síður skemmtilegir. Eða hvað? Getum við komist upp með að gera bara það skemmtilega? Líklega ekki. Það verða alltaf einhverjir hlutir sem við þurfum að gera þó okkur hugnist þeir síður. Sömuleiðis munu líklega alltaf einhverji hlutir sitja á hakanum sem okkur finnst við verða að gera og eru okkur mikilvægir.
Gott og vel. Undanfarna daga hefur mér verið tíðhugsað um akkúrat þetta og hvernig við tölum við okkur sjálf um þessa hluti sem við þurfum að gera en eru kannski ekki okkar uppáhalds. Við segjum við okkur sjálf setningar eins og:
„ég þarf að fara að taka til í geymslunni“
„ég þarf að fara að koma mér af stað í ræktina“
„ég þarf að finna betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs“
„ég þarf að borða hollari mat“
„ég þarf að nýta tímann betur í vinnunni“
...og svo framvegis. Hvað það er sem við þurfum að gera er misjafnt. En flest eigum við eitthvað sem okkur finnst við þurfa (eða verða) að gera sem við erum ekki að gera í dag.
Við „þurfum“ eða „verðum“ ekki bara að gera þá hluti sem okkur hugnast síður heldur líka þá sem eru okkur mikilvægir. Eins og:
„ég þarf að eyða meiri tíma með börnunum mínum“
„ég þarf að sinna vinunum betur“
„ég þarf að hlusta meira á maka minn“
„ég þarf að gefa starfsfólkinu mínu meiri tíma“
...og svo framvegis.
Hér er stóra fréttin: ÞÚ ÞARFT EKKI AÐ GERA NEITT AF ÞESSU!
Þú ÞARFT ekki að taka til í geymslunni, né fara í ræktina, finna þetta blessaða jafnvægi, borða hollar eða nýta tímann betur. Þú ÞARFT ekki eða VERÐUR ekki að gera það sem setið hefur á hakanum en þér finnst þú skuldbundin(n) til að gera eða er þér mikilvægt. Það er enginn sem segir að þú VERÐIR eða ÞURFIR að sinna vinum þínum betur eða eyða meiri tíma með börnum (hvernig er annars hægt að eyða tíma með börnunum sínum?), hlusta meira á makann eða gefa starfsfólkinu meiri tíma.
Þú hins vegar VILT hugsanlega gera eitthvað af þessu eða þig LANGAR TIL þess. Það er stór munur á því að ÞURFA eða VERÐA og VILJA eða LANGA TIL.
Margir segja við sig „að þeir þurfi að vinna“. Hvernig væri að prófa að breyta orðalaginu og segja „ég vil vinna svo ég geti séð fyrir fjölskyldunni og gert það sem mér finnst skemmtilegt“. Í stað þess að segja ég „verð að eyða meiri tíma með börnunum“ að segja frekar „mig langar til að verja meiri tíma með börnunum mínum“. „Ég vil hreyfa mig meira“ í stað „ég verð að hreyfa mig meira“. Og svo framvegis.
Hver er munurinn? Hvað gerist þegar einhver segir við þig að þú VERÐIR eða ÞURFIR að gera eitthvað? Líkur eru á að við finnum eitthvað því til foráttu sem við verðum, þurfum, eigum eða skulum gera. Það sem við viljum, langar eða ég tala nú ekki um dreymir um að gera er hins vegar miklu auðveldara í framkvæmd.
Þú þurftir til dæmis ekki að lesa þessa grein. Þú vildir það einhverra hluta vegna. Skoðaðu í framhaldinu það sem þú VERÐUR og ÞARFT að gera og hvort það er einhver leið til að þú getir látið þig VILJA, LANGA eða DREYMA um að gera það hið sama. Mér segir svo hugur um að það auðveldi leikinn.
Þú þarft ekki að prófa....en kannski viltu það!