c

Pistlar:

11. mars 2012 kl. 16:52

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Ert þú bergmál?

Warren Buffet er stundum kallaður Spámaðurinn frá Omaha, hann er einn ríkasti maður heims og fyrirmynd fjölmargra fjárfesta um víða veröld. Opinber ævisaga hans, Snowball, er afar athygliverð lesning. Af þessum snillingi má læra margt, ekki aðeins tengt viðskiptum heldur á svo mörgum öðrum sviðum.  Heiti bókarinnar vísar í skemmtilega samlíkingu Warrens um að lífið er eins og snjóbolti. Það sem mestu máli skiptir er að finna blautan snjó og mjög langa brekku!

Í bókinni eru sagðar ýmsar skemmtilegar sögur af langri og viðburðaríkri ævi merks manns. M.a. annars er sögð saga af stuttum tónlistarferli Warrens en hann lék á kornett sem barn. Hann segist seint verða talinn undrabarn með kornettið en eitt árið þótti hann þó það góður að honum var boðið að koma fram á hátíð í skólanum með skólahljómsveitinni. Hans hlutverk var einfaldlega það að bergmála leik trompetleikarans. Hann var fullur tilhlökkunar og þegar að hátíðinni kom var hann tilbúinn í slaginn.

Lagið hófst og trompetleikarinn spilaði Dum da DUM, og Warren bergmálaði með kornettinu, Dum da DUM, eins og honum var uppálagt.  Lítið mál. Samleikur Warrens og trompetleikarans gekk ágætlega framanaf en þegar líða tók á lagið fipaðist trompetleikarinn og í Dum da DUM kaflanum sem okkar maður átti að bergmála hljómaði honum til mikillar skelfingar Dum di DUM. Nú voru góð ráð dýr. ,,Það var eins og heimurinn stöðvaðist” sagði Warren þegar hann rifjar atvikið upp löngu seinna, ,,af því ég vissi ekki hvað ég átti að gera við þessar skelfilegu aðstæður. Það hafði enginn búið mig undir það að trompetleikarinn klikkaði. Hvað átti ég nú að bergmála? Ég lamaðist.”

Enn þann dag í dag segir Warren að hann muni ekki hvað hann gerði við þessar skelfilegu aðstæður. Hvort hann hélt sínu striki og vakti með því athygli á mistökum trompetleikarans við það að spila rétta nótu eða hvort hann gerði það sem honum var uppálagt og bergmálaði feilnótuna. Enda skiptir það ekki öllu. Það sem skiptir mestu er að á þessu atviki lærði hann lexíu sem hefur fylgt honum æ síðan. Hún er sú að það getur verið auðveldara að ganga í gegnum lífið í hlutverki bergmálsins, en aðeins þangað til hinn aðilinn slær feilnótu. Fyrst þá verða góð ráð dýr.

Í því felst mikill sannleikur. Það getur verið auðveldara að ganga í gegnum lífið með því að feta í fótspor annarra.  En um leið og þeir aðilar fara út af sporinu vandast málið. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þau vandræði er að forðast það að vera bergmál, hafa kjarkinn og þorið til að fara sína eigin leið. Aðeins þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því hvað gerist þegar hinn aðilin slær feilnótu.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira