c

Pistlar:

11. apríl 2012 kl. 11:22

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Fjársjóðurinn innra með þér

Fjórir ungir menn sitja við dánarbeð föður síns. Gamli maðurinn segir þeim í andarslitrunum að á landareign fjölskyldunnar sé falinn gríðarlegur fjársjóður. Synirnir hópast að föður sínum og spyrja grátklökkir, „hvar, hvar???” en það er of seint. Gamli maðurinn er fallinn frá. Daginn eftir jarðarförina og vikum saman á eftir fara ungu mennirnir út með haka og skóflur, rífa upp jarðveginn, grafa djúpt og stinga upp hvern akurinn á fætur öðrum. Þeir finna engan fjársjóð og afar vonsviknir hætta þeir leitinni að lokum.

Uppskeran árið eftir var betri en nokkru sinni fyrr.

-Gömul dæmisaga, tekin úr bókinni The Art of Possibility.

Fjársjóðurinn var á landareigninni eftir allt saman. Hann var hins vegar á öðru formi en ungu mennirnir höfðu gert sér í hugarlund. Líklega hafa þeir átt von á því að grafa sig niður á fjársjóðskistur fullar af gulli og gersemum. Það sem þeir gerðu hins vegar var að pæla akrana svo vel að uppskeran var enn betri en áður. Það var fjársjóðurinn. Til að njóta hans þurfti að erfiða og puða. Gamli maðurinn hefur augljóslega þekkt syni sína vel.

Hvað ef ég segði þér að innra með þér býr gríðarlegur fjársjóður? Hvað myndir þú gera? Hversu marga akra ert þú tilbúin(n) til að pæla þig í gegnum til að uppskera? Hver væri uppskeran ef þú leggðir aðeins meira erfiði á þig? Nýttir þér styrk þinn örlítið betur?

Innra með þér býr gríðarlegur fjársjóður!

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira