Ég lærði mikilvæga lexíu s.l. laugardagskvöld. Eftir langan og viðburðarríkan dag kom ég við í Hagkaup til að kaupa inn nokkrar nauðsynjar. Klukkan var orðin margt, ég var orðin lúin og ég hef líklega verið þung á brún þegar ég kom að kassanum. Afgreiðslustúlkan heilsaði mér hlýlega, renndi vörunum í gegn og ég rétti henni debetkortið mitt til að greiða fyrir innkaupin. Þegar ég rétti henni kortið rekur hún augun í hring sem ég geng iðulega með og mér þykir vænt um. Afgreiðslustúlkan unga lítur á mig segir: „ rosalega er þetta fallegur hringur“. Brúnin á mér léttist eðlilega við hólið en stúlkan segir um leið og hún er búin að sleppa orðunum: „ég hugsaði þetta...af hverju ekki að segja það.“
Þessi setning, „ég hugsaði þetta, af hverju ekki að segja það“ hefur ómað í huga mér nokkuð reglulega síðan afgreiðslustúlkan í Hagkaup færði hana í orð við mig, seint að kvöldi eftir að hafa hrósað mér fyrir hringinn minn fallega. Auðvitað. Hugsa ég alltaf í kjölfarið. Auðvitað eigum við að segja fallegu hlutina sem við hugsum við þá sem í kringum okkur eru. Auðvitað.
Það er hins vegar engu að síður svo að við höfum tilhneigingu til að halda aftur af okkur. Það sem við hugsum er ekki alltaf fært í orð (sem betur fer í mörgum tilfellum). Hversu oft hugsum við fallega til einhvers, dáumst að einhverju í huganum en færum þessar fallegu hugsanir ekki í orð?
Næst þegar ég hugsa eitthvað fallegt um einhvern þá ætla ég að færa hugsanirnar í orð við viðkomandi. Sama hvort í hlut eiga börnin mín, maðurinn minn, samstarfsfólk, viðskiptavinir eða einhver bláókunnugur.
Ertu með?