c

Pistlar:

28. ágúst 2012 kl. 14:32

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Hefurðu reynt að gleypa fíl?

Hvernig litlu breytingarnar geta haft mikil áhrif

Flestir kannast við gátuna Hvernig borðar maður fíl?  og þekkja þá jafnframt svarið Einn bita í einu.  Þessi gáta er mjög oft notuð þegar einhver færist mikið í fang eða þegar þarf að brjóta stór markmið niður í minni og viðráðanlegri einingar. Það er jú algerlega lífsins ómögulegt að gleypa blessaðan fílinn í einum bita.

Við Íslendingar erum hins vegar oft ansi gjörn á að ætla okkur að gleypa fílinn. Við setjum okkur sum hver fjölda markmiða og ætlum okkur oftar en ekki að ná hámarksfærni á lágmarkstíma. Erlendur hlaupaþjálfari orðaði það sem svo að þegar samlandar hans settu sér markmið um að hlaupa maraþon þá geri þeir það með nokkurra ára fyrirvara, ráða sér hlaupaþjálfara og byggja sig upp smátt og smátt á nokkrum árum fyrir stóru stundina. Íslendingar aftur á móti eigi það til að setja sér það markmið í júní að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst, kaupa sér hlaupaskó og vaða af stað.

Nú verð ég síðust manna til að hvetja fólk til að setja sér lágstemmd markmið. Þvert á móti. Ég skora á mína viðskiptavini að setja sér metnaðarfull og krefjandi markmið, en þau verða engu að síður að vera raunhæf. Að öðrum kosti erum við að auka líkur á því að okkur mistakist og mistök hafa ekki góð áhrif á sjálfstraust okkar mannanna. Það er því línudans að setja sér krefjandi en um leið raunhæf markmið sem hvetja okkur til árangurs.

Nú eru margir í þeim sporum að setja sér markmið varðandi nám og störf eftir gott sumarfrí. Það er því ekki úr vegi að rifja upp til viðbótar við gátuna hér upphafi, máltæki sem er okkur Íslendingum að góðu kunnt. Margt smátt gerir eitt stórt. Það er nú einu sinni þannig að litlar breytingar sem við gerum og höldum út í langan tíma munu safnast saman í eitt stórt þegar yfir líkur. Langtímasparnaður gengur út á nákvæmlega þetta. Foreldrar leggja smáupphæðir inn á framtíðarreikninga barna sinna og á þeim tæpu 20 árum sem reikningarnir eru bundnir verða til góðir sjóðir úr þeim smápeningum sem foreldrarnir finna lítið fyrir að leggja til hliðar mánaðarlega.

Fyrir stuttu rakst ég á grein á vefmiðli um offitu barna þar sem staðhæft var að með því einu að minnka hitaeininganeyslu barna um aðeins 64 hitaeiningar á dag megi stemma stigu við óæskilegri þyngdaraukningu barna (sjá grein hér). 64 hitaeiningar samsvara 1/3 úr kókdós, 7 kartöfluflögum, 7 m&m kúlum eða 1/3 úr snickersi (þá er átt við snickers af stærðinni sem var eina stærðin sem hægt var að fá þegar ég var að alast upp – ekki þessi risasnickers sem fáanleg eru í dag). Það að sleppa einhverju af þessu úr dagneyslunni er viðráðanlegt og langtímaáhrifin eru þess virði að reyna það.

1% breyting á stefnu LA til NY

Flugvél sem tekur á loft í Los Angeles á leið til New York og gerir ekki nema 1% breytingu á stefnu til norðurs eða suðurs endar heilum 250 km frá upphaflegum áfangastað. Í Albany eða Delaware. 1% breyting sem á lengri leið þýðir 250km breytingu á áfangastað. Sem sagt, margt smátt gerir eitt stórt!

Það eru því litlu breytingarnar sem við gerum og höldum út í langan tíma sem geta skila okkur miklum árangri og eru viðráðanlegri en að ætla sér að troða í sig fílnum margumrædda í einum bita. Úthald í sambland við raunhæf markmið er það sem skilar okkur árangri.

Hvaða 1% breytingu getur þú gert á þinni stefnu í dag sem skilar þér á nýjan og betri áfangastað?

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendamarkþjálfi
www.vendum.is

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira