c

Pistlar:

12. september 2012 kl. 13:40

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Orð eru til alls fyrst

Liggur leyndarmálið að auknum árangri í innri röddinni?


„Ég er ekki góð í að hvetja fólk áfram“
„Ég hef alltaf verið lélegur í tímastjórnun“canstockphoto5087685
„Ég get ekki selt“
„Ég er ekki góð í að virkja tengslanetið“
Ég get ekki – ég kann ekki – ég er lég(ur) – ég hef aldrei getað – ég mun ekki geta !!!!


Ofangreint eru orð sem ég hef heyrt færa stjórnendur láta út úr sér á undanförnum dögum. Fólk sem út á við virðist hafa náð góðum árangri, fólk sem við hin dáumst að og segjum jafnvel „af hverju get ég ekki verið eins og hann/hún?“ Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvernig þetta fólk – alveg eins og  við hin - talar við sjálft sig. Hvernig við rífum okkur niður með neikvæðni, alhæfingum og þröngsýni. Við segjum þessi orð sjaldnast upphátt en hugsum þau þeim mun oftar. Einhverstaðar las ég að allt að 60 þúsund hugsanir geti flogið í gegnum mannshugann á degi hverjum. Þar af vilja margir áætla að 70-80% séu neikvæðar hugsanir líkt og þær sem stjórnendurnir færðu í orð hér að ofan. Ef rétt reynist þá er það alvarlegt mál. Hvernig innri rödd okkar rífur okkur niður og í raun heldur okkur niðri. Ég velti stundum fyrir mér hvaða árangri væri mögulegt að ná með því einu að snúa innri röddinni við og gera hana jákvæðari.


Fyrirtækið þú!
Fyrir nokkru las ég grein í veftímariti þar sem því er haldið fram að lykillinn að árangri sé einmitt að ná tökum á þessari innri rödd. Í greininni eru settar fram áhugaverðar leiðir til þess að vinna bug á þessum leiða ávana.

Segjum sem svo að þú værir fyrirtæki að skilgreina tilgang sinn, setja niður markaðsherferð og sölunálgun. Líkur eru á að mikill tími færi í að orða skilaboð fyrirtækisins út á markaðinn. Í mörgum tilfellum verja fyrirtæki milljónum króna í að búa til hin fullkomnu skilaboð og til að skýra samskiptin við markaðinn. Orðin sem lýsa fyrirtækinu eru gríðarlega mikilvæg til jafns við útlit markaðsefnis og móta ásýnd fyrirtækisins. Fyrst orðin eru svona mikilvæg skýtur það ansi skökku við að þau orð sem við notum í samskiptum við mikilvægasta hagsmunaaðilann í okkar lífi – okkur sjálf – séu illa ígrunduð, ómeðvituð, neikvæð og stuðli að niðurrifi frekar en hitt.


Brattabrekka
Ef orðin sem við notum þegar við tölum við okkur sjálf eru sífellt neikvætt gildishlaðin og ræna okkur orku er líklegt að leið okkar til árangurs verði brattari brekka en ella. Við komumst hugsanlega upp brekkuna en erfiðið verður meira. Það sem meira er, neikvætt sjálfstal hefur tilhneigingu til að smitast út í hvernig við tölum við aðra sem varpar skugga á samskipti og hefur neikvæð áhrif á tengslanet okkar. Í alvöru, vilt þú vera í samskiptum við þá sem gefa sífellt frá sér neikvæða orku?


Hvað er til ráða?
Innri rödd okkar mótast á löngum tíma. Til að breyta þeim hugsunum sem fara ómeðvitað af stað þarf meðvitað að grípa inn í. Það þarf ekki að vera flókið ferli en er svo sannarlega þess virði. Stígðu þessi þrjú skref og náðu enn meiri árangri:

  1. Hlustaðu á hugsanir þínar. Vertu meðvituð/aður um hugsanir þínar. Í stað þess að láta þær vaða stefnulaust yfir allt og alla staldraðu við. Skoðaðu hvaða orð þú notar, bæði um þig og aðra í huganum, og hvaða áhrif þau hafa á þig.
  2. Skrifaðu orðin niður og merktu „jákvætt“ , „neikvætt“.
  3. Skiptu neikvæðu orðunum út fyrir kraftmeiri orð, skoðaðu jafnvel hvort jákvæðu orðin geti verið enn sterkari. Hafðu listann með gömlu og nýju orðunum á áberandi stað til að minna þig á að nota nýju orðin þegar þú grípur þig í hugsunum sem ræna þig orku. Smátt og smátt ferðu að nota kraftmeiri orðin ósjálfrátt.

Dæmi um „gömul“ og „ný“ orð:
Í stað þess að segja Reyna  notaðu Ætla
Í stað þess að segja að þú sért Léleg(ur) þá hefurðu Tækifæri til bæta
Í stað þess að eitthvað séu Vonbrigði  þá Kom það á óvart
Í stað þess að Hafa aldrei getað þá er þetta eitthvað sem þú vilt ná tökum á
Mistök  eru sannarlega Lærdómur
Það sem er Gott getur líka vel verið Frábært

Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendamarkþjálfi
www.vendum.is

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira