Albert Einstein sagði að hver sá sem ekki hefði gert mistök hefði aldrei reynt neitt nýtt. Í þeim orðum felst mikill sannleikur. Sá sem aldrei reynir neitt nýtt fer líklega lítið sem ekkert út úr sínum þægindahring með þeim hömlum á þroska og vöxt sem því fylgir. Við óttumst mistökin og að gera eitthvað sem hætta á að feli í sér höfnun en um leið viljum við flest vaxa og dafna. Til þess að vaxa og dafna verðum við að skora á okkur, gera eitthvað nýtt og hætta þannig á að gera mistök og/eða verða hafnað.
Við gerum öll mistök. Á dögunum las ég áhugaverðan lista þar sem sagt er frá fólki sem náð hefur miklum árangri og er heimsþekkt en hefur ekki alltaf notið slíkrar velgengni og upplifað mistök og höfnun, alveg eins og við hin.
Henry Ford – Ford Motor Corporation var þriðja fyrirtækið sem hann stofnaði. Hin tvö urðu gjaldþrota.
Steve Jobs – var rekinn frá Apple.
JK Rowling – 12 útgefendur höfnuðu Harry Potter.
Walt Disney – var rekinn af dagblaði þar sem hann þótti ekki fá nægilega margar og góðar hugmyndir.
Soichiro Honda – var ekki ráðinn þegar hann sótti um verkfræðistöðu hjá Toyota.
Thomas Edison – kennari hans sagði honum að hann væri „of heimskur til að læra nokkuð.“
Michael Jordan – var rekinn úr körfuboltaliðinu í grunnskóla þar sem hann „skorti hæfni.“
Simon Cowell – verður gjaldþrota, flytur heim til foreldra sinna og er sagt að hann geti ekki náð árangri í tónlistarheiminum.
John Grisham – 16 umboðsmenn og 12 útgefendur höfnuðu honum
Oprah Winfrey – var rekin úr starfi sem fréttaþulur þar sem hún þótti ekki „henta í sjónvarp.“
Fred Astaire – áskotnaðist minnismiði eftir áheyrnarprufur hjá MGM sem á stóð „getur ekki leikið. Hárið farið að þynnast. Getur örlítið dansað.“
Alex Hayley – skrifaði metsólubókina Rætur (Roots) en fékk 208 bréf þar sem henni var hafnað til útgáfu.
Stærstu mistökin sem þetta fólk hefði getað gert voru að gefast upp. Þau gáfust ekki upp, þau létu ekki óttann við höfnun eða mistök aftra sér í því að eltast við drauma sína og náðu árangri á endanum.
Hvað ætlar þú að reyna í dag sem þig hefur lengi dreymt um en ekki gert af ótta við mistök eða höfnun?