c

Pistlar:

12. febrúar 2013 kl. 6:13

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (unnurvalborg.blog.is)

Rauði sokkurinn í suðuvélinni

red-sock.jpgFlest höfum við lent í því að setja litaða flík í þvottavélina með ljósum þvotti. Afleiðingarnar geta verið skelfilegar. Fallega hvíta blússan þín fær  bleikleita slikju eða öll þvottastykki heimilisins bláleitan blæ. Einn litaður barnasokkur getur ef ekki er varlega farið smitað út frá sér og eyðilagt fulla þvottavél af annars fullkomlega nothæfum þvotti nú eða gert það að verkum að við þurfum að leggja bómullarefni í klór til að hvítta þau að nýju. Sumt verður nokkurn veginn eins og nýtt en annað ber aldrei sitt barr að nýju. Við höfum því lært að það borgar sig að gæta sín vel á því hvað sett er saman í þvottavélina því annars lendum við í vandræðum.


Með sama hætti og ein lítil lituð flík getur haft mikil áhrif á umhverfi sitt í þvottavélinni höfum við áhrif á umhverfi okkar með framkomu okkar og samskiptum okkar við annað fólk. Oft þarf ekki nema eitt lítið orð eða setningu sem hefur svo neikvæð áhrif að annars góð samskipti fram til þessa litast af þessu litla atviki. Alveg eins og lítill rauður barnasokkur getur eyðilagt heila vél smitum við út frá okkur með hegðun okkar og framkomu. Sumt er jafnvel aldrei hægt að laga.


Við gætum þess vel hvað við setjum saman í þvottavélina en gætum við þess nægilega vel hvernig við komum fram við starfsfólk okkar og samstarfsmenn? Er okkar hegðun hugsanlega að smita út frá sér með neikvæðum afleiðingum, oft svo slæmum að erfitt er að laga þær að nýju.


Stjórnendur þurfa að hafa íhuga að það skap sem við erum í þegar við göngum inn um dyrnar á vinnustaðnum að morgni er líklega það skap sem starfsmenn okkar eru í þegar þeir ganga út um dyrnar að kvöldi. Við smitum út frá okkur. Spurningin er: „hverju ert þú að smita út frá þér?“. Þú setur ekki rauðan sokk á suðu með ljósum þvotti. Með sama hætti má spyrja: „hvernig nálgast þú erfið  mál á vinnustaðnum?“ er hugsanlegt að í einhverjum af þeim málum sértu rauði sokkurinn í suðuvélinni?


Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Stjórnendaþjálfari og eigandi Vendum, www.vendum.is
unnur@vendum.is

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Hofundur er stjórnendaþjálfari, eigandi www.lead1st.com, adstodarmadur.is og annar þjálfara á www.kvennahelgi.is

 

Meira