Við fengum eftirminnilega heimsókn á skrifstofuna á dögunum. Til okkar kom gamall maður með eldgamlan skrúfblýant sem merktur var Viðurkenning fyrir tímamótaárangur á Dale Carnegie námskeiðinu. Hann mærði pennan og blýið sem í honum var mikið – sagðist hafa skrifað með sama blýinu í áraraðir en nýverið hafi það klárast og það virtist engin bókabúð selja blý sem passaði. Þess vegna hafði hann gert sér ferð til okkar á bílnum sínum til að athuga hvort við gætum aðstoðað hann. Það væri nú kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að maðurinn var 96 ára gamall, enn að vinna við sitt eigið fyrirtæki í innflutningi! Hann sýndi okkur meira að segja ökuskírteinið sitt því við áttum bágt með að trúa manninum, svo hress var hann og lipur en það stóð heima, hann var fæddur árið 1911, ári áður en Dale Carnegie hélt sitt fyrsta námskeið! Þetta var heimsmaður, óaðfinnalega klæddur í brúnum rykfrakka yfir jakkafötin, líklega bandarískur, mér láðist að spyrja, talaði ótrúlega góða íslensku en skipti öðru hvoru yfir í ensku sem augljóslega var hans móðurmál. Fas hans minnti mig svo sterkt á greifann sessunaut minn í óperunni í Munchen á dögunum – fas manna sem kunna að meta gæði lífsins. Hann minnti mig líka á afa sem rak fyrirtæki í áratugi og keypti aldrei neitt út á krít eins og hann orðaði það – menn sem standa við orð sín.
Ég handfjatlaði pennann, hristi hann og heyrði strax að það var blý í geymsluhólfinu og aðstoðaði gamla manninn við að setja það á sinn stað – það þurfti smá lagni en gekk að lokum. Blýið var þykkt, augljóslega gæðablý og ræddum við nokkra stund um gæði, hvað það skipti hann miklu máli að versla með gæðavöru. Hann sagði augljóst að blýinnihaldið í þessu blýi væri hátt sem sannaðist á því hve lengi það entist honum. Hann var að vonum ánægður með að við gátum aðstoðað hann við þetta og ég sagði honum að þetta blý myndi eflaust endast honum í áraraðir eins og hið fyrra og hann hefði meira að segja lítinn bút upp á að hlaupa í geymsluhólfinu þegar þennan þryti.
Ég var að vonum forvitin um blýantinn góða. Átti eitt sinn einn slíkan sem ég hafði komist yfir með mikilli fyrirhöfn en gefið frá mér og spyr manninn hvar hann fékk hann. Í ljós kom að konan hans hafði fengið viðurkenningu á námskeiði fyrir fjölda ára. Við spjölluðum áfram og reyndist sá gamli afar skemmtilegur og hress. Frásagnir hans og fas einkenndist af krafti og glettni sem við sem yngri erum mættum taka okkur til fyrirmyndar. Hann hreif okkur með sér með kraftinum og orkunni sem stafaði frá honum. Hann var eldmóðurinn holdi klæddur, 96 ára gamall maður!
Ég spurði hann hverju hann þakkaði háan aldur og hressleikann. Hann nefndi tvennt. Fyrsta að hann var vel giftur, brosti við þau orð út að eyrum. Og hið síðara með glettni í rómnum að hann fengi sér Grappa á hverjum degi, eitt staup og ef löng bið var eftir matnum, stundum tvö og ef biðin var enn lengri þá þrjú...en þá væri hann orðinn fullur...Grappa væri jú svo sterkt Hann sagði svo skemmtilega frá samtölum sínum við konuna sína: „elskan, er langt í matinn?“, og hún svaraði: „nei, svona tíu mínútur elskan mín“ og þá ákvað hann að fá sér annað staup, spurði svo stuttu síðar: „elskan mín, hvað er langt í matin“ og frúin svaraði o.s.frv.
Þegar þessi nýi vinur okkar fór að tala um konuna sína sem hafði verið samferða honum í lífinu í áratugi breyttist fas hans skyndilega. Honum vöknaði um augun. Hann afsakaði sig, varð niðurlútur, þagnaði í stutta stund og sagði okkur með brostinni röddu að elskan hans væri nýdáin. Hann hefði jarðsett hana nokkrum dögum áður. Allt í einu var eldmóðurinn horfinn og í stað komin óendaleg sorg.
Hann lyfti upp blýantinum, rétti aðeins úr sér og sagði: „þess vegna vildi ég fá nýtt blý – þetta eru minningar“. Penninn minnti hann á elskuna hans sem fyrir svo stuttu hafði kvatt hann. Og rétt síðar kláraðist blýið í blýantinum sem hún hafði fengið í viðurkenningu á námskeiði áratugum áður.
Mér þótti vænt um að heyra sögu þessa blýants og hvaða gildi hann hafði fyrir þennan yndislega gamla mann. Hann minnti hann svo sterkt á elskuna sína að hann vildi halda áfram að nota hann. Eins og hann sagði sjálfur brostinni röddu og tárvotum augum þegar hann lyfti honum, „memories“.
Okkur setti hljóðar. Ég þakkaði í huganum fyrir að geta lagt þessum sorgmædda gamla manni lið. Hann kvaddi okkur kurteisislega, þakkaði fyrir sig og gekk hægt niður stigann. Hann sagðist orðinn örlítið óstyrkur og hélt þétt í handriðið.
Mér segir svo hugur um að ég eigi oft eftir að hugsa um þennan gamla mann og sögu blýantsins. Hún minnir mig á að það eru litlu hlutirnir sem skipta mestu máli, veri það blýantur, bók eða handskrifuð kveðja. Hún minnir mig á það lán að fá að snerta líf fólks í mínu starfi og hjálpa því að skapa minningar. Minningar sem ég í fæstum tilfellum veit nokkuð af. Hún minnir mig á að sögurnar leynast víða. Við þurfum bara að gefa okkur tíma til að hlusta.
Ég vona að mér beri gæfa til að njóta litlu hlutanna, snerta líf annarra og einlæglega sýna öðrum áhuga á meðan mér endist ævin.
Vittu til
ef þú kafar
nógu djúpt
leynast perlur þar
-Perlukafararnir, Dúett Jóhönnu Vigdísar og Röggu Gísla
London 10. júlí 2007