Hugtakið meðvirkni er notað yfir breytingu sem á sér stað við vanvirkar uppeldisaðstæður. Þegar ákveðnum grunneiginleikum okkar er ekki sinnt á virkan hátt þegar við erum börn, þá verður til skekkja sem leiðir til meðvirkni. Þegar talað er um grunneiginleika barna þá eru það fimm þættir sem öll börn eiga sameiginlega og mikilvægt er að hlúa að þeim á nærandi máta.
Eitt þessara fimm atriða er að börn eru verðmæt. Mjög margir alast upp á þann hátt að þeim finnst sem þeir séu lítils virði eða jafnvel verðlausir. Reglulegar skammir og aðfinnslur leiða til þess að börn fá það á tilfinninguna að þau séu ekki í lagi, séu lítils virði af því þau séu ekki nógu góð. Þetta á alltaf við ef ofbeldi er beitt, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt. Líkamlegar refsingar eru alvarleg áföll fyrir börn enda aðstöðumunurinn verulegur. Vitsmunalegt ofbeldi er annarskonar ofbeldi og eitthvað sem mörg börn upplifa, þ.e.a.s að þau upplifa sig vitlaus og um leið verðlaus af því verið er að setja út á að þau viti ekki eitthvað eða geti ekki eitthvað. Þegar uppalendur eru reglulega að skipta sér af börnunum á neikvæðan hátt, verða til óheilbrigð tengsl, eitthvað sem við köllum „klessutengsl“ (e. enmeshment). Við þessar aðstæður hættir barnið að tengjast sjálfu sér á eðlilegan hátt, það hættir í raun að vera það sjálft og er orðið meðvirkt. Á hinn boginn getur líka verið um það að ræða að uppalendur skipta sér ekki af börnunum, hafa ekki tíma eða getu til að sinna þeim og svara þeim ekki á virkan hátt. Börn sem alast upp við slíkt afskiptarleysi eða vanrækslu, upplifa sig líka verðlaus af augljósum ástæðum.
Margir alast upp við að uppalendur eru reglulega að beita einhverju af ofangreindum aðferðum eða framkomu sem leiðir til þess að þeir fá það á tilfinninguna að þeir séu verri en aðrir, minna virði, verðlausir. Það eru líka til dæmi um að börn eru alin upp við að þau séu betri en aðrir, að uppalendur kenni þeim að gera lítið úr og dæma aðra með yfirlæti og hroka sem er ekki síður skaðlegt þegar fram í sækir.
Eins og sjá má er verið að tala um uppeldi sem einkennist af öfgum, óheilbrigðum tengslum sem eru ýmist of mikil eða of lítil. Afleiðingin er að meðvirkni þróast út frá því að okkur finnst við ekki jafnverðmæt og aðrir eða verðmætari en aðrir. Það veldur því að við erum ýmist óttaslegin við aðra, finnst þeir betri en við eða að við séum yfir aðra hafin. Það leiðir svo til ójafnvægi í öllum samskiptum þegar fram í sækir, hvort sem það er við systkini, foreldra, skólafélaga, vini, vinnuveitendur eða maka. Það er augljóslega erfitt að eiga í nánum samskiptum og samböndum þegar okkur líður eins og við séum lítils virði, eða að okkur finnist við geta komið illa fram við aðra á þeim forsendum að við séum betri en aðrir. Manneskju sem finnst hún minna virði en aðrir á erfitt með að segja hvað henni finnst, breytir reglulega um skoðun út frá skoðunum annarra, finnst skoðanir annarra meira virði en sínar eigin, finnst hún ekki hafa rétt til að sinna sjálfri sér eða sínum áhugamálum, upplifir að aðrir sjái ekki hvað hún er að leggja sig fram, vaði yfir hana og komi illa fram við sig og þannig mætti lengi telja. Manneskja sem telur sig yfir aðra hafin særir annað fólk með hroka og yfirlæti sínu og á oftast erfitt með að sýna samkennd, ástand sem leiðir í versta falli til siðblindu.
Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi birtingamynd meðvirkninnar út frá einum af fimm grunneiginleikum okkar sem barna. Aðrir grunneiginleikar okkar sem börn eru að við erum viðkvæm sem hefur með mörk okkar að gera, að við erum ófullkomin sem þýðir að við megum gera mistök en endum oft með bjagaða sýn á raunveruleikann, að við erum háð öðrum í uppvextinum og því þarf að sinna á réttan hátt og að síðustu þá erum við hvatvís og opin sem börn og þurfum að fá jákvæða leiðsögn á því sviði. Allir þessir eiginleikar eru mikilvægir og langvarandi vanvirkni í uppvextinum gagnvart hverjum og einum þeirra, leiðir til meðvirkni. Rétt er að taka fram að ekkert í úrvinnslu meðvirkninnar snýst um að finna sökudólga. Almenna reglan er að gera ráð fyrir því að uppalendur okkar, rétt eins og við sjálf hafi verið að gera sitt besta og notað aðferðir sem þeir sjálfir lærðu. Við viljum fyrst og fremst að skoða af hverju við erum eins og við erum og hvað hægt er að gera til þess að bæta samskipti og breyta neikvæðri hegðun og líðan í jákvæða. Úrvinnsla meðvirkninnar hjálpar okkur að finna verðmætið okkar innan frá, þaðan sem það verður að koma.
Valdimar Þór Svavarsson
Ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu