Orðatiltækið „að skila skömminni“ er vel þekkt þegar rætt er um kynferðislega misnotkun af einhverju tagi. Þegar nánar er að gáð er heilmikil þýðing bakvið þetta orðatiltæki. Í raun og veru er það þannig að þegar kynferðisofbeldi á sér stað má segja að sá sem beytir því kunni ekki að skammast sín en sá sem verður fyrir því tekur skömmina á sig, þrátt fyrir að eiga ekki að bera hana. Þetta kallast að „yfirfæra skömm“. Skömm er eðlileg tilfinning sem á að hjálpa okkur að taka réttari ákvarðanir í lífinu og sleppa því að gera hluti sem við finnum að við ættum ekki að gera. Þessi tilfinning gegnir þar af leiðandi mjög mikilvægu hlutverki og óhætt að segja að það sé betra að kunna að skammast sín en að kunna það ekki. Kynferðisleg skömm tengist hinsvegar mörgu fleiru en grófu kynferðislegu ofbeldi.
Skilgreining á kynlífi getur verið mjög víð og snertir anda, sál og líkama. Einn einstaklingur getur stundað kynlíf sem og fleiri en einn. Fyrstu kynni fólks af kynlífi er eins fjölbreytt eins og við erum mörg. Algengt er að þegar spurt er um fyrstu reynslu af kynlífi þá nefni fólk fyrsta skiptið sem það átti samfarir við einhvern. Þegar betur er að gáð kemur hinsvegar oftast í ljós að allflestir hafa upplifað kynlíf á barnsaldri, jafnvel mjög ung.
Stundum er gantast með „læknisleikinn“ sem svo margir tóku þátt í þar sem verið var að kynnast leynilegum svæðum líkamans í gegnum leik með öðrum börnum. Algengt er að börn verði vitni að kynlífi eldri aðila eða kynlífstengdum hlutum svo sem að rekast á hjálpartæki ástarlífsins, klámblöð eða sjái klámfengið efni í sjónvarpi, tölvu eða síma. Margir kannast við að hafa á barnsaldri umgengist eldri aðila, svo sem systkini og vini þeirra, ættingja eða aðra sem hafi verið að uppgötva kynlíf og ýmislegt sem því tengist. Mörkin á einkalífinu eru óljós hjá mörgum og því nokkuð algengt að börn og unglingar verði vitni að kynlífi á einhvern hátt, fyrr en æskilegt getur talist. Þegar fyrstu kynni okkar af kynlífi er á unga aldri er það oft vegna einhvers af ofangreindu sem í sumum tilvikum mætti fella undir óvænta reynslu eða jafnvel að við verðum „óvart“ vitni að einhverju kynferðislegu.
Í öðrum tilvikum getur verið um ofbeldi að ræða þar sem börn eða unglingar eru hvött til þátttöku í kynferðislegum athöfnum af einhverju tagi eða beinlínis ýtt að þeim af öðrum börnum, unglingum eða fullorðnum. Kynferðisleg misnotkun er því miður fyrsta upplifun af kynlífi margra.
Sama hver aðdragandinn er, hvort sem hann er óvart eða viljandi, þá er verðum við fyrir áfalli þegar við verðum vitni af kynlífi á barnsaldri, áður en við höfum öðlast kynþroska eða fengið viðeigandi kennslu um kynlíf. Áfallið sem við verðum fyrir skilur okkur eftir með skömm sem við berum áfram og eins og áður sagði, oft án þess að hún sé okkar að bera. Fyrir suma bætist svo við þessa vondu tilfinningu að skömmin er enn meiri ef þeim líkaði sú kynferðislega reynsla sem þau upplifðu á unga aldri, jafnvel þar sem kynferðislegt ofbeldi átti sér stað. Það á auðvitað alls ekki alltaf við en er þannig hjá sumum. Eins situr það í mörgum að hafa yfir höfðu tekið þátt í kynlífi af einhverju tagi á unga aldri, hvort sem það tengist sjálfsfróun eða kynlífi með öðrum.
Það er mikilvægt að komast yfir skömmina sem fylgir kynferðislegri reynslu frá æskunni. Í mörgum tilvikum erum við að bera skömm sem við eigum ekki og erum jafnvel með ranghugmyndir um að okkar reynsla sé óalgeng. Það getur haft mikil áhrif á okkur sjálf og samböndin sem við stofnun til á fullorðins aldri ef við berum þessar slæmu tilfinningar með okkur. Fyrir marga er það eins og ókleifur veggur að ræða um reynslu á kynferðislega sviðinu en það er óhætt að segja að enn þyngra er að burðast með skömmina. Það að takst á við skömmina með aðstoð fagaðila, létta af sér byrðinni og komast í sátt fortíðina á þessu sviði hefur reynst mörgum mikill léttir og falið í sér frelsi sem bætir eigin sjálfsvirðingu, samskipti, nánd við aðra og lífið sjálft.
Valdimar Þór Svavarsson
Berglind Magnúsdóttir
Ráðgjafar
Fyrsta skrefið, ráðgjafaþjónusta