Eitt sumarð gróðursetti nágranni minn litla myntu útí garði, svona rétt til að eiga alltaf myntu í mojitoið sitt. Hann hefur örugglega ekki reiknað með að nú nokkrum árum seinna gæti hann reddað myntu í mojito fyrir alla í götunni.
Myntan er svo lífsglöð og dugleg planta og dreifir vel úr sér ef hún fær næði til þess. Hún er með því fyrsta sem skýtur upp kollinum i garðinum á vorin þ.e.a.s af því sem er ætt. Myntan kemur víða við í matargerð heimsins hún er ómissandi í búlghur en það er meðlæti ættað frá miðausturlöndum. Á Englandi er borið fram myntuhlaup með lambasteikinni og á Indlandi er hún mikið notuð í chutney.
Myntan er einnig mjög góð í salöt. Nýlega bjó ég til eftirfarandi salat á Krúsku, prófaði það svo aftur heima og bar það fram með grillaðri lambasteik. Satt best að segja þá kom það mér skemmtilega á óvart hvað þetta bragðaðist vel saman.
Uppskriftin af salatinu hljóðar eitthvað á þessa leið.
Agúrka skorin langsum og kjarnhreinsuð sneidd í aflangar sneiðar.
Appelsína í litlum bitum.
Græn paprika sneidd fallega
Spínatblöð
Graskersfræ
Ólífuolia
Smá salt
2-3 myntublöð fínt skorin. Ofur einfalt salat en virkilega ferskt og sumarlegt.
Þegar myntan er notuð í mat verður maður að passa sig á því að nota mjög lítið af henni, því eins og hún er góð í litlu magni, þá er hún mjög vond ef notað er of mikið af henni. Getur hreinlega eyðilagt matinn.
Nema í te þá er hún frábær sama hvað maður notar mikið af henni. Myntu te er sérlega góður og heilnæmur drykkur og er sagður góður fyrir ristilinn og auðvitað viljum við dekra við hann.
Í sveitinni minni vex mynta í garðinum og finnst mér sérlega viðeigandi þar að bjóða gestum uppá myntu te eftir kvöld matinn það passar svo vel með súkkulaðibitanum sannkallað dekur við ristil og sál.
Mynta passar einstaklega vel með ávöxtum. Um daginn smakkaði ég niðrurskornar plómur með myntublöðum það var verulega gott og frískandi . Jarðarber með balsamic og myntublöðum borið fram með með vanilluís er líka algjört lostæti.
Ég er nágranna mínum þakklát fyrir mynturæktunina hann hefur enga hugmynd um hvað myntan hans er búin að gleðja minn munn og maga í gegnum árin, kemst sjálfsagt aldrei að því hvað ég hef oft nælt mér í myntugrein frá honum því af nóg er að taka og fullt eftir fyrir alla hina í götunni.