Ég eins og svo margir aðrir er rosa spennt fyrir því að ná af mér nokkrum aukakílóum, ekki það að ég ætli í eitthvað opinbert átak. Þetta er meira bara svona gömul lumma sem hefur fylgt mér lengi en merkilegt nokk þá hafa aukakílóin frekar valið að fjölga sér heldur en að yfirgefa mig.
En þar sem frúin er langt komin á fimmtugsaldurinn og langar óskaplega til að viðhalda æskublómanum sem lengst, svo ekki sé nú talað um liðleika og styrk, er eiginlega mál til komið að verða svolítið fullorðinsleg og hætta að haga mér eins og óþekkur krakki sem engu hlýðir. Þegar uppi eru áform um að verða besta útgafan af mér.
Ég væri svo mikð til í að geta skoppað upp um fjöll og fyrnindi fram eftir öllum aldri og þess á milli gengið allan daginn um stræti stórborga án þess að pústa eða kvarta yfir slæmsku i mjöðm.
Ég veit það fyrir víst að það er ansi margt sem ég get gert sjálf til að viðhalda góðri heilsu og gera þennan draum um góða elli að veruleika.
Með því að njóta augnbliksins og taka eftir fegurðinni sem er allsstaðar. Fá nægjanlegt súrefni með góðri útiveru og muna eftir því að anda djúpt. Vanda matarræðið, passa upp á svefninn, ástunda reglulega hreyfingu og ekki gleyma að leika sér bæði úti og inni. Vera þakklátur fyrir lífið hvern dag og öll tækifærin til að gera það betra.
Svona skrifað á blað virðist þetta allt vera svo auðvelt og sjálfsagt mál. En hvað gerir maður raunverulega, ansi oft í amstri hversdagsins gleymast þessir litlu góðu hlutir.
Dagurinn verður að kvöldi og á koddanum hugsar maður um allt það sem betur mátti fara þann daginn og inn í svefninn fylgir manni sú hugsun að það sé örugglega best að fara bara á kolvetnissnauða kúrinn ... eða einhvern annan kúr, þá verði allt eins og það á að vera.
All You Need Is Love segir í laginu. Það eru orð að sönnu. Með því að elska sjálfan sig svolítið meira og meðvitað tel ég að umhyggja fyrir eigin velferð verði drifkrafturinn að betra lífi. Hvaða aðferðir við svo sem kjósum að nota til að ná markmiðum okkar.
En talandi um kolvetissnauða kúrinn þá er hér ein góð uppskrift af kjúkling sem nánast eldar sig sjálfur meðan maður er úti að anda djúpt og leika sér.
Uppskrift fyrir 4
1/2 dl olía
1 ferskur kjúklingur
1 stór hótellaukur
10-15 hvítlauksrif
1 fennel
1 meðalstór kúrbítur
2 paprikur
1 dós niðursoðnir tómatar, helst kirsuberjatómatar.
Salt, svartur pipar og ítölsk kryddblanda.
Ruccolasalat
Parmesanostur
1/2 Sítróna ef vill gott að kreista hana yfir allt saman í restina.
Aðferð:
Skerið allt grænmetið frekar gróft og setjið í ofnpott, leggið kjúklinginn ofan á það. Dreypið olíu yfir allt saman, kryddið með salti pipar og ítölsku kryddi.
Hellið síðan tómötunum yfir grænmetið.
Bakið með loki í 90 mínútur við ca 110 gráður. Takið lokið af og bakið áfram í 20 mínútur við ca 180 gráður.
Borið fram með fersku ruccolasalati og parmesanosti.
Fyrir þá sem eru ekkert að sneiða hjá kolvetnum er sjálfsagt að vera frjálslegur í grænmetisvali í þennan rétt og nota það sem til er eins og t.d kartöflur, gulrætur og sætar kartöflur.