Afi í fæðingarorlofi
Okkur hjónunum hlotnaðist nýlega sú gleði að verða afi og amma í fyrsta skipti. Það vakti upp miklar tilfinningar hjá mér og opnaði augu mín fyrir foreldrahlutverkinu á alveg nýjan hátt. Að vera afi er allt annað en að vera sjálfur foreldrið og í kjölfarið ákvað ég að gera þessa greinaröð – um muninn á því að verða foreldri nú og þegar við hjónin urðum það. Þetta er grein 2.
Margt hefur breyst en sumt hefur lítið sem ekkert breyst. Sumt hefur breyst að nafninu til og sumt hefur þróast í að verða andhverfa af því sem til stóð.
Eitt sem ég komst að og þykir mjög undarlegt að ekki sé búið að laga er hvernig orlofsupphæðin í fæðingarorlofi er reiknuð út og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. T.d. þarf að hafa verið 12 mánuði í samfelldri vinnu mánuðina fyrir fæðingu til að fá greitt orlof. Þessi regla þykir mér mjög í andstöðu við tilgang orlofsins og hugsanlega leifar af þeim tíma þegar stór hluti kvenna var tekjulaus og heimavinnandi eða í íhlaupastörfum. Ég hefði haldið að hugmyndin um fæðingarorlof sé sú að samfélagið gangist við því að það sé eðlilegt að nýorðnir foreldrar hafi efni á því að taka frí fyrstu vikur og mánuði eftir fæðingu til að tengjast barninu. Vinna þá umönnunarvinnu sem þarf hvenær sem er sólarhingsins án þess að hafa áhyggjur af því að þurfa mæta til vinnu að morgni. Taka frá þeim fjárhagsáhyggjurnar og fá að vera í smá bómull í nokkrar vikur á þessum mikilvægasta tíma í tengslamyndun barns og foreldra. Einnig að barnið fái að vera í kringum foreldra sína fyrstu vikur og mánuði í stað þess að vera sett í hendur á óviðkomandi. Er þá fólk sem ekki hefur verið í samfelldri vinnu í 12 mánuði tekið út fyrir sviga? Á þeirra barn að hafa einhvern annan og minni rétt en hin börnin vegna þess að annað foreldrið varð óvinnufært og launalaust hluta þess tíma? Á þetta fólk ekki að fá greitt fullt orlof? Á fólk í þessari stöðu að skipta á bleium og vagga barninu á nóttunni og vinna á daginn til að ná endum saman eða reyna að komast af á smánarlegum fæðingarstyrk sem er 77.000 kr. á mánuði? Á þetta fólk að þurfa að standa í bréfaskriftum við Fæðingarorlofssjóð í óvissu um hvort það eigi fyrir nauðsynjum fyrir heimilið og barnið þegar það ætti að vera að dást að og sinna nýja barninu? Jafnvel eftir margra ára vinnu á sama vinnustað en hafa dottið úr vinnu í einn mánuð akkúrat á þessu 12 mánaða tímabili. Er þetta það sanngjarna samfélag sem orlofið var hugsað fyrir? Ég á bágt með að trúa því.
Eins veit ég að námsfólk er í sömu vandræðum. Það kemur út á vinnumarkaðinn og má helst ekki hefja barneignir fyrr en 12 mánuðum eftir að námi lýkur hjá báðum foreldrum og starfsævin hefst. Eða í raun 18 mánuðum, því útreikningur á orlofi miðast við meðallaun í 12 mánuði, 6 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag. Börn gera bara ekki alltaf boð á undan sér eða fæðast eftir pöntun. Ég hef séð mörg dæmi um skert orlof hjá ungu fólki sem ég hef unnið með undanfarin ár. Það nær hugsanlega nokkrum ágætismánuðum á launum og fer svo í orlof á fæðingarstyrk eða lágu orlofi sem er aðeins brot af þeim launum sem það er á og þarf því aftur að stóla á foreldra sína eins og þegar það var að reyna að ná endum saman í skólanum og missa sjálfstæði sitt og stolt í leiðinni. Ef fólk er það heppið að hafa foreldra til að stóla á. Hinn möguleikinn er taka að sér svarta aukavinnu á meðan það er á styrknum til að bjarga málunum. Í námi er þó hægt að nýta sér námslán sem eru margföld á við fæðingarstyrkinn og ef viðkomandi hefði eignast barnið á meðan námi stóð hefði fæðingarstyrkurinn verið 177.000 kr. á mánuði sem er mun skárra en styrkurinn er að námi loknu.
Er eitthvað ódýrara fyrir þetta fólk að vera með ungbarn?
Hér er linkur inn á Vinnumálastofnun fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar:
http://www.faedingarorlof.is/files/Upph%C3%A6%C3%B0ir%202019_232393447.pdf
Fæðingarorlof er líklega einn mikilvægasti réttur sem stéttarfélagabarátta hefur náð fram. Fyrir fæðingarorlof voru konur nánast dæmdar úr leik fjárhagslega við barnsburð ef þær höfðu ekki fyrirvinnu rétt eins og húsdýr eru háð eigendum sínum til að lifa af. Rétturinn var því stórt skref í jafnréttisbaráttunni ásamt því að gefa barninu öruggan rétt til að tengjast foreldrum sínum á mög svo mikilvægum og viðkvæmum tíma. Þessi réttur er margskonar og er einn hluti hans sá að fólk á rétt á að ganga aftur að starfi sínu að orlofi loknu sem er mjög mikilvægur réttur sem ekki kom að sjálfu sér.
Fyrir 28 árum þegar við urðum foreldrar í fyrsta skipti fékk móðirin sex mánuði í orlof og faðirinn ekki neitt. Að sjálfsögðu var það ósanngjarnt á tvennan hátt. Réttur föður og barns til að tengjast tilfinningaböndum var fyrir borð borinn. En einnig hallaði á konur í atvinnulífinu við þessi skipti, konur á barneignaaldri voru frekar til vandræða fyrir atvinnurekendur en karlar á sama aldri þar sem dýrt er fyrir fyrirtæki að missa fólk í slíkt orlof og þurfa að leysa það með bráðabirgðalausn. Sérstaklega átti þetta við um konur í ábyrgðarstöðum og í samkepnni við karla um slíkar stöður. Ég hef oft verið spurður að því í mínum rekstri hvernig ég þori að vera með svona margar konur á barneignaaldri í vinnu og hvort það sé ekki dýrt?
Þetta hefur sem betur fer verið lagað með því að móðir og faðir hafa nú jafnan rétt og svo líka sameiginlegan rétt. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera setja fólk í þá stöðu að ákveða skiptingu réttarins heldur hafa eingöngu jafnan rétt beggja. Í dag virðist móðirin nær undantekningalaust fá þann hluta allan til sín og það veldur sömu skekkjunni á vinnumarkaði og var í gamla daga. Einnig hef ég heyrt mörg dæmi um að karlar taka orlofið en halda samt áfram að vinna og fresta launagreiðslum fram yfir orlofstímann. Þannig var þessi dýrmæti réttur sem kostaði blóð, svita og tár að ná fram ekki hugsaður og er það vanvirðing við þá baráttu að nota hann á þann hátt.