c

Pistlar:

16. febrúar 2024 kl. 16:57

Valgeir Magnússon (valgeirmagnusson.blog.is)

Ekki lenda á girðingunni

Það eru tvær leiðir til að takast á við vandamál. Önnur veldur því að allt verður auðvelt og fólk hópast saman við að leysa það. Hin leiðin (sem er algengari) er hræðslan við að mistakast. Í báðum tilfellum er drifkraftur og í báðum tilfellum ræðst fólk að vandamálinu, en með algjörlega sitthvora sýnina.

Ef andi vinnustaðar eða aðstæðna er þannig að fólk er drifið áfram af hræðslu við að mistakast, þá verður það varkárt og hrætt við að taka ákvarðanir. Aðrir eru ekki eins áhugasamir um að aðstoða við lausnina og líkurnar á góðri lausn minnka verulega. Ef andi vinnustaðar eða aðstæðna snýst um gleðina við að verkefni heppnist, þá er fólk óhrætt að taka ákvarðanir og sækist eftir því að vera með í að leysa verkefnið. Líkur á að málið leysist aukast verulega.

Sumir myndu segja að þetta væri munurinn á bjartsýni og svartsýni. En þetta er samt ekki það sama, þó þetta séu vissulega skildir hlutir.

Þar sem bannað er að gera mistök og fókusinn er ávallt á mistökin verður til menning þar sem drifkrafturinn snýst um að gera ekki mistök. Í sumum tilfellum er um líf og dauða að tefla og fólk telur það borga sig að drifkrafturinn snúist um að gera ekki mistök. Einnig er oft um að ræða verkefni þar sem möguleikinn er aðeins einn og allt undir. Ef það mistekst, þá er allt búið. Þá er þessi menning einnig skiljanleg. En samt verður hún til þess að auka líkur á mistökum, eða leiðir til ákvörðunarfælni og hik, sem eru mistök í sjálfu sér.

Þessi mennig er oft verulega hamlandi, því fólk sem er drifið áfram af hræðslu við mistök gerir ekki neitt – af því þá gerir það engin mistök. En að gera ekki neitt eru að sjálfsögðu mistök. Mistök eru hluti af lífinu og hluti af öllum framförum. Ef fólk er drifið áfram af gleðinni við að takast vel upp, þá getur það gert eitthvað stórkostlegt.

Ég var eitt sinn í þannig aðstæðum að það var stöðugt verið að minnast á það sem illa var gert en aldrei hrósað fyrir það sem vel var gert. Niðurstaðan gagnvart mér sjálfum var að eftir eitt ár gat ég ekki gert neitt, öll gleði var horfin og efinn hafði náð tökum á mér. Þetta gerðist hægt og rólega á löngum tíma, svolítið eins og hjá humarnum sem var í pottinum sem hitnaði jafnt og þétt þangað til fór að sjóða. Ég vissi ekki að ég væri að kafna fyrr en ég var orðin svo hræddur við að mistakast að ég þorði ekki að gera neitt. Það var búið að sá efanum í hausinn á mér og ég var orðin hræddur. Ég var ekki eins viss um að mér myndi takast vel upp og ég var áður. Ekki óalgent með íþróttafóllk sem er að spila fyrir þjóð sína eða söngvara sem eru að fara í Eurovision á tímum samfélgsmiðla þar sem allir eru sérfræðingar og umræðan er verulega óvægin.

Að einbeita sér að því að verkin munu heppnast en ekki mistakast er afstaða sem ég tel vera eina þá mikilvægustu til að ná árangri. Í vinnu, í íþróttum, í viðskiptum, skóla, í samskiptum og bara í lífinu sjálfu. Það þýðir ekki að maður geti gengið um dreyminn og óábyrgur. Það þýðir bara að drifkrafturinn á að vera gleðin við að takast ætlunarverkið. Ef við náum því, þá er hægt að skora. Ef drifkrafturinn er óttinn við mistök, þá eru meiri líkur á að skjóta framhjá. Því þá erum við farin að efast.

Þau sem eru drifin áfram af gleðinni við að takast vel upp elska að glíma við vandamál. Því þau verða bjartsýn og hlakka til gleðinnar sem fylgir því að leysa málin. En þeir sem eru drifnir áfram af því að gera ekki mistök finna fyrir kvíða við að takast á við vandamál. Því hræðslan við að gera mistök býr ekki til eftrvæntingu við að takast á við verkefnið. Dæmi um þetta er svokallaður prófskrekkur, sem margir eru þjakaðir af. Þar tekur kvíðinn völdin sem minnkar verulega líkurnar á því að ná prófinu. Eða fólk sem fer í atvinnuviðtal með þá hugmynd að gera engin mistök til að missa ekki af starfinu í stað þess að mæta til að landastarfinu og fá þar af leiðandi vinnuna.

Ég man þegar ég var að byrja í fallhlífastökki þá sagði Þór Jón sem var að kenna mér: „Þegar þú hefur opnað fallhlífina og sérð girðingu, ekki horfa á girðinguna því þá lendirðu á henni. Horfðu á staðinn sem þú ætlar að lenda á en ekki þann sem þú ætlar ekki að lenda á.“ Það voru góð ráð og ég lenti aldrei á girðingu. Og þetta ráð á við um allt í lífinu. Þegar ég stökk út úr flugvélinni hugsaði ég um hvernig ég ætlaði að hreyfa mig á leiðinni niður og hvar ég ætlaði að lenda – en ekki hvort ég myndi klúðra því að opna fallhlífina og hvar ég ætlaði ekki að lenda. Það hefði verið mjög aftrandi.

Ef maður einbeitir sér að árangrinum sem maður ætlar sér að ná, þá eru meiri líkur á að ná honum. Ekki einbeita þér að því hvert þú ætlar ekki, því þá endarðu þar.

Valgeir Magnússon

Valgeir Magnússon

Valgeir er auglýsinga og markaðsmaður ásamt því að vera rithöfundur, textahöfundur, dægurlagahöfundur, pistlahöfundur, pabbi og afi. Valgeir er stjórnarformaður hjá Pipar\TBWA, The Engine, Ghostlamp og Fastland. Stofnandi og einn eigenda Landnámseggja í Hrísey og stjórnarformaður í Hrísey verslun. Framkvæmdastjóri SDG\TBWA og Scandinavian Design Group í Noregi og stjórnarmaður í TBWA\Nordic og varaformaður Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.

Meira