Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um fíknisjúka og hversu brotið kerfið er í kringum þann alvarlega sjúkdóm. Sumum finnst kerfið vera mannskemmandi á meðan aðrir segja að sjúkdómurinn sé sjálfskapaður og fjármagni því betur varið til annarra innviða í samfélaginu.
Ég fór að velta fyrir mér hvort við gætum litið á málið frá annarri og harðari hlið. Það er að segja með því að arðsemisreikna verðmæti þjónustunnar og hversu miklu hún skilar til samfélagsins. Til að gera það þarf að gefa sér forsendur um fjölda og kostnað. Ég leyfi mér að áætla nokkuð margar tölur í þessu reikningsdæmi og aðrar hef ég fundið með leit á netinu. Þeir sem hafa allan aðgang að tölunum geta reiknað betur út. En ég geri ráð fyrir að ég sé nógu nálægt raunverulegum tölum til að hægt sé að sjá stærðirnar sem um ræðir. Ég ákvað því að reikna hvað biðlistinn eftir plássi í fíknimeðferð kostar og hvaða arðsemi yrði af því að fjárfesta í að eyða honum.
Bara á þessu ári hafa orðið 56 dauðsföll vegna ofskömmtunar. Til viðbótar eru slysin, sjálfsvígin og dauðsföll vegna annarra lífstílssjúkdóma sem eru afleiðing fíknar. Ég held við getum áætlað að með því öllu séu dauðsföllin að lágmarki 100 með öllu töldu af fólki sem er að bíða eftir meðferð, en eru líklega mun fleiri.
Á hverjum tíma eru um 800 manns á biðlista eftir meðferð. Sumir komast fljótlega að enda með litla fíknisögu en flestir eru að koma í enn eina endurkomuna, því það tekur að meðaltali fimm meðferðir að ná árangri í baráttunni við sjúkdóminn. Biðin fyrir þessa aðila er milli 6 til 15 mánuðir. Biðtími þar sem fólkið missir heilsuna, aðstandendur missa heilsuna, fólk missir eignir sínar og fólk verður óvinnufært.
Ef við áætlum að í kringum þessa 800 einstaklinga séu fjórir hjá hverjum sem eru meðvirkir og í mikilli vanlíðan vegna sjúklingsins og þar af leiðandi í stöðugu áfalli þá eru það 3200 manns að meðaltali á hverjum tíma. Þar af eru hugsanlega 1000 óvinnufærir vegna álagsins. Einnig er þekkt er að fólk í stöðu aðstandenda er oftar veikt en almennt meðaltal veikindadaga er. Hægt væri að áætla það einn veikindadag aukalega á mánuði. Það gera þá 3200 veikindadagar á mánuði eða 38.400 á ári.
Ef við áætlum að um helmingur þeirra sem eru á biðlista brjóti af sér, þá eru það 400 manns. Af þeim eru 200 sem stela smávægilegum upphæðum hér og þar og 200 sem eru í innbrotum og öðrum glæpum. Við skulum setja 5000 kr. á dag í meðaltal á þá sem eru í minni brotum og 20.000 á dag á þá sem eru í stærri brotum. 100 beita ofbeldi í að minnsta kosti tvisvar á biðtímanum. Ef við setjum sex mánuði sem meðalbiðtíma á hvern geranda í slíkum ofbeldismálum þá verða það 200 brot sem gerir rúmlega eitt brot á dag. Við getum gert ráð fyrir að 20 manns á biðlistanum eða 40 á ári þurfi að sitja í fangelsi í að meðaltali 30 daga vegna brota sem framin eru á biðtímanum. Hver og einn kemur á bráðamóttökuna að meðaltali tvisvar á biðtímanum, sem má reikna í 1600 heimsóknir. Mögulega leiðir helmingur ofbeldisbrotanna til útkalls lögreglu. Það eru 182 útköll. Bætum svo við útköllum vegna þeirra 200 sem brjóta alvarlega af sér og áætlum þau 1 á mánuði á hvern, þá bætast 80 útköll við. Gerum ráð fyrir að vegna 10% heimsókna á bráðamóttöku hafi verið kölluð til sjúkrabifreið, það eru 160 útköll, og svo fylgir líka lögregla hverjum sjúkrabíl sem bæta má við þá tölu. Gera má ráð fyrir að 50% þeirra sem nýta gistiskýli borgarinnar séu á biðlistanum. 200 manns á biðlistanum eru á einhvers konar bótum frá ríki og/eða sveitarfélagi á meðan biðin varir. Hér geri ég ekki ráð fyrir neinum kostnaði af helmingi biðlistans, sem ætti samt að vera talsverður.
100 jarðarfarir
38.000 veikindadagar
1000 óvinnufærir einstaklingar
Smáþjófnaður 365 milljónir á ári
Stærri glæpir 1.460 milljónir á ári
Alvarleg ofbeldisbrot 365
Heimsóknir á bráðamóttöku 1600
Fangelsisnætur 1.200
Útköll lögreglu 422
Útköll sjúkrabifreiða 160
Gistinætur í gistiskýli 10.950
Bætur á biðtíma 200 manns
Í þessum útreikningum er líf ekki metið til fjár, ekki heldur tilfinningatjón þeirra þolenda sem verða fyrir innbrotum, kynferðisbrotum eða líkamstjóni. Einungis peningaleg verðmæti. Hver jarðarför kostar að meðaltali 800.000 kr. fyrir utan erfidrykkju og legstein. Einn veikindadagur kostar samfélagið 37.500 kr. miðað við núverandi meðallaun. Óvinnufær einstaklingur kostar samfélagið 7,8 milljónir króna á ári Fjárhagslegt tjón af alvarlegum ofbeldisbrotum (sjúkrahúskostnaður, endurhæfing, vinnumissir, örorkubætur, tryggingabætur) mætti reikna að lágmarki á fimm milljónir króna að meðaltali. Hver heimsókn á bráðamóttöku kostar samfélagið að meðaltali 130.000 kr. Ein nótt í fangelsi 50.000 kr. Hvert útkall lögreglu kostar 105.000 kr. og hvert útkall sjúkrabifreiðar 97.000 kr. Kostnaður við heimilislausa hjá borginni á 1,8 milljarð króna margfaldað með 50% eða samtals 900 milljónir króna. Bætur á mánuði lágmark 350.000 kr. eða samtals 4,2 milljónir króna á ári á hvern einstakling.
Þá höfum við einfalt reikningsdæmi:
Jarðarfarir 80 milljónir
Veikindadagar 1.425 milljónir
Óvinnufærir 7.800 milljónir
Smáþjófnaður 365 milljónir
Stærri glæpir 1.460 milljónir
Alvarleg ofbeldisbrot 1.825 milljónir
Bráðamóttaka 208 milljónir
Fangelsiskostnður 60 milljónir
Útköll lögreglu 44 milljónir
Útköll sjúkrabifreiða 16 milljónir
Sjúkrabætur 840 milljónir
Kostnaður heimilislausra 900 milljónir
Fjárhagslegur kostnaður samfélagsins á ári af biðlistanum er því 15 milljarðar króna einungis af þeim sem eru að bíða eftir hjálp við sínum sjúkdómi.
Til að eyða þessum biðlista þarf aðeins að fjárfesta fyrir u.þ.b. einn milljarð króna á ári. Og það án þess að taka með í reikninginn alla mannlegu harmleikina, allar erfiðu tilfinningarnar. Án þess að taka með þann kostnað sem verður vegna allra barnanna sem alast upp í óöryggi á meðan foreldrar þeirra fá ekki þjónustu við sjúkdómi sínum. Sömuleiðis án þess að taka tillit til allra syrgjandi foreldranna eða yfirleitt meta til fjár alla vinnuna og kostnaðinn við fólkið sem þjáist úti á biðlistanum. Einnig án þess að tiltaka allan þann kostnað sem fellur til í samfélaginu af því að hafa fulla bráðamóttöku sem aftur verður til þess að fólkið sem er EKKI með fíknisjúkdóm þarf að bíða enn lengur þar. Ekki heldur kostnað vegna sjúkrabifreiða sem geta ekki sinnt öðrum útköllum af því þeir eru uppteknir eða vegna lögreglu sem gæti verið að sinna öðru en afleiðingum af hegðun fólks á biðlistanum.
Þá samt sem áður sjáum við, eingöngu með því að skoða tölurnar, að með því að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu fyrir fíknisjúka og eyða biðlistanum þá er það bara ansi góður bisness.
Ég myndi allan daginn í mínum rekstri fjárfesta fyrir 1 milljarð á hvaða vöxtum sem er ef arðsemin af því væri tólf- til þrettánföld árlega.