Ég var að velta fyrir mér um daginn hvað ég myndi segja við foreldra mína ef ég gæti hitt þau í dag. Það er nefnilega svo skrítið að stóran hluta ævinnar þá er maður reglulega að segja foreldrum sínum frá afrekum sínum, vandamálum og hversdegi. En svo allt í einu þá eru þau ekki lengur til staðar. Hverjum á maður þá að segja þessa hluti?
Þá fór ég að velta fyrir mér þeim tíma sem liðinn er frá því að ég gat talað við þau síðast og hverju ég myndi segja frá fyrst. Þessu merkilegasta eða þessu skemmtilegasta? Eða þessu sem var erfiðast? Ætli ég myndi ekki byrja á að segja þeim frá barnabarnabörnunum þeirra. Og hversu vel foreldrahlutverkið gengur hjá börnunum okkar. Ég myndi segja þeim hversu vel hefur gengið í viðskiptum, bæði hjá mér og Silju konunni minni. Frá ævintýrunum sem við höfum ratað í, tónlistinni sem ég hef tekið þátt í að skapa og öllum dýrmætu augnablikunum sem við höfum átt sem fjölskylda og þau misstu af. Augnablikunum með æskuvinunum okkar Silju sem þau þekktu svo vel. Ég myndi tala um íþróttir við pabba, gengi Víkings í fótboltanum og segja honum frá því þegar ég keppti á HM öldunga í badminton. Hann hefði fílað það. Ég myndi ræða stjórnun við mömmu. Um vandamál og velgengni við að byggja upp teymi þar sem allir róa í sömu átt. Um sanngirni og að standa með gildum sínum.
Svo þegar ég hefði verið óðamála góða stund myndi ég líklega ná að slappa af. Bara vera. Sitja og vera. Rifja upp tíma frá því ég var krakki. Spyrja meira um sjálfan mig til að skilja mig betur. Spyrja spurninganna sem ég aldrei spurði þau þegar ég hafði tækifæri til. Hvernig það var fyrir þau að verða foreldrar? Koma sér fyrir og díla við unglinginn mig? Hrokafullan og uppfullan af sjálfum mér. Skilja betur hvort þau hafi haft trú á mér og borið mikið traust til mín? Eða hvort þau hafi kannski alltaf verið hrædd um mig en bara falið það svona vel? Spyrja þau út í hvernig þeim hafi fundist að verða afi og amma? Hvernig þau áttuðu sig á að þau gerðu sem mest gagn? Því meira sem ég hugsaði um það hvað ég myndi segja þeim, því meira fann ég að ég saknaði mest að geta ekki leitað ráða. Spurt um þessa hluti sem erfitt er að finna hvar maður á að leita svara um. Mér finnst þau eiginlega vera alltumlykjandi hvort sem er. Kannski þarf ég ekki lengur að segja þeim hvað á daga mína hefur drifið síðan síðast. Ég hef ekki lengur sömu þörf fyrir að þau viti að ég sé að standa mig og að fólkið í kringum mig sé að standa sig. Enda vildu þau bara vera til staðar þegar eitthvað bjátaði á og vera til staðar til að gleðjast þegar allt gekk vel. Veita ráð og stuðning. Benda mér á þegar ég virtist vera að fara fram úr mér. Róa mig þegar ég hafði áhyggjur og styðja þegar þau sáu að við Silja þurftum tíma saman. Þá spurðu þau hvort þau mættu fá börnin okkar lánuð upp í bústað. Svo það leit út eins og við værum að gera þeim greiða með að gefa þeim tíma með börnunum okkar, þegar þau voru í raun að búa til tíma fyrir okkur bara tvö.
Núna þegar maður er sjálfur afi, þá held ég að ég myndi helst vilja ræða við þau um það. Afahlutverkið, svona afi við afa. Afi við ömmu. Stoltur af því að vera á jafningjagrundvelli. Ræða um hvernig maður kemur að sem bestu liði? Hvað skiptir mestu máli á hverju aldursskeiði barnabarnanna. Því ég man sérstaklega þegar börnin mín voru unglingar hvað afi og amma skipu miklu máli. En líka hvað það hafði mikil áhrif þegar þau á viðkvæmum aldri misstu ömmu sína. Þá hefði ég viljað hafa reynsluna sem ég er með núna. Kunna betur að hugsa um sjálfan mig á sama tíma og ég hugsaði um alla aðra. Kunna betur að gráta og skilja að allt þarf sinn tíma. Skilja betur tilfinningasveiflurnar sem koma í vanlíðan. Hafa meiri þolinmæði.
Ég held að það sé kjarni málsins. Þolinmæði. Því ástin er þolinmóð. En í foreldrahlutverkinu finnst manni svo oft að maður hafi ekki tíma fyrir þolinmæði. Það þarf þroska til þess. Ég horfi á börnin mín í dag og hugsa; þau eru mun þolinmóðari en ég var á sama aldri. Það gerir mig stoltan. Það er líklega það fyrsta sem ég myndi segja foreldrum mínum ef ég gæti hitt þau í dag.