Eitt af því mikilvægasta sem ég geri er að fara í heimsókn til Lama Geishe og fá blessun. Ég virði trúarathafnir heimamanna og tek þátt ef ég á þess kost. Þetta er mér mjög mikilvægt og ég held fast í allar hefðir. Lama Geishe kemur frá Tíbet og eftir því sem ég skil best talar hann ekki Nepölsku. Það er mikil virðing borin fyrir honum. Hann er eldri maður og situr ávallt á sama stað í herberginu þar sem athöfnin fer fram. Þar á hann greinilega sitt horn og er með allt sem hann þarf í kringum sig svo hann þurfi ekki að fara langt. Á veggjunum eru myndir af Everestförum sem hafa hlotið blessun og toppað farsællega.
Við athöfnina fær maður hálsmen með bænabók svipað og ég fékk í Namche hjá Dechen og ber ég því nú tvö um hálsin. Á bakpokanum mínum er ég með Katha slæðu sem hann blessaði í fyrstu ferðinni minni um Khumbudalinn og í hverri ferð síðan þá. Mér þykir vænt um sjalið og það fylgir mér hvert sem ég fer. Lama Geishe gefur góð heilræði sem eru jafnan þýdd af heimamanni yfir á ensku og á meðan á athöfninni stendur er boðið upp á svart te.
Eftir athöfnina göngum við rösklega til Dingboche þar sem ég ákveð að koma við í bakaríinu og fá mér Strawberry Chocolate tartar eins og alltaf, jæja nema það var ekki til í þetta skiptið svo fyrir valinu varð Lemon tartar og masala te. Það er nokkuð magnað að það skuli vera svona fín bakarí á leiðnni þar sem aðstæður eru frumstæðar en ég get fullvissað ykkur um að bitinn er sjaldnast betri en einmitt þegar búið er að vinna sér inn fyrir honum. Við Dendi höfum lagt áherslu á að borða hollt á leiðinni og láta sem minnst af slikkeríi ofan í okkur og var þetta því eina undantekningin á leiðinni upp í grunnbúðir en þangað komum við tveimur dögum seinna eftir að hafa gist í Loboche.