c

Pistlar:

21. júní 2017 kl. 18:21

Vilborg Arna Gissurardóttir (vilborgarna.blog.is)

Útilíf fyrir alla fjölskylduna

IMG_8392Náttúran er okkar stærsti leikvöllur með óþrjótandi tækifærum og möguleikum á góðri hreyfingu utandyra. Útileikir eru bæði hvetjandi og skemmtile afþreying fyrir alla fjölskylduna allt árið um kring og börn og leikir eiga svo vel saman. Í leikjum eru þau frjáls, öðlast hvatningu og gleði og byggja upp sjálfstraust sitt. Að kanna umhverfið fyrir leik er eitt það fyrsta sem börn gera, þar á eftir búa þau til leiki sem henta umhverfinu og finna svo góð úrræði til þess að leika og þróa leikinn. Í þessu ferli koma upp vandamál sem börnin þurfa að leysa jafnóðum. Þá reynir á samskiptafærni þeirra og félagsþroska. Fullorðnir eiga því að hvetja til leiks eins oft og færi gefst.

Náttúrufjársjóður
Umhverfi okkar er fullt af gersemum sem safna má saman í einn fjársjóð
eftir smekk og áhugasviði hvers og eins. Góður undirbúningur er mikilvægur
og getur haft mikið um það að segja hversu mikinn áhuga börnin hafa á
leitinni. Þátttakendur geta valið sér þemu til þess að leita eftir og jafnvel
sett sér markmið um að finna til dæmis tíu hluti sem tilheyra sama flokki.
Litlir kassar eða taupokar eru hentugir til þess að safna gersemunum saman.
Sem dæmi um þemu má nefna steina, laufblöð, skeljar, sjó, fjöru, árstíðir og
svona mætti lengi telja.
Fjársjóðsleit er skemmtileg fyrir leikskóla, skóla, ættarmót, útiafmæli og
ævintýri fyrir fjölskylduna.


Fjársjóðskista
Safnið saman hlutum úr náttúrunni; fjörunni, fjallinu, skóginum og frá svæðum
sem eru ykkur kær og geymið í kistu heima fyrir. Síðar er hægt að skoða í
kistuna og rifja upp hvaðan hlutirnir eru, jafnvel föndra með þá og rifja upp
góðar minningar.

Kaflinn er úr Útilífsbók Fjölskyldunnar eftir undirritaða og Pálínu Ósk Hraundal.

Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir

Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: “Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, – annars finnurðu bara afsökunina“. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum. Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi. Meira