Ástríða mín er náttúra, útivist og áskoranir og hef ég haft mikla köllun til þess að fylgja draumum mínum eftir. Mottóið mitt er: Ef þú þráir eitthvað nógu heitt að þá finnurðu leiðina, annars finnurðu bara afsökunina. Gildin sem ég hef að leiðarljósi í öllum mínum verkefnum eru jákvæðni, áræðni og hugrekki.
Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr ferðaþjónustu en ég hef sinnt hinum ýmsu störfum innan hennar. Ég er með B.A. ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum í Hjaltadal og hefur auk þess MBA gráðu frá Háskóla Íslands.
Meðal leiðangra sem ég hef farið í eru skíðaferð yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Jafnframt hef ég klifið fjöll bæði hér á landi og víða erlendis. Árið 2014 varð ég fyrsta og eina konan í heiminum sem hefur bæði klifið 8000m tind sóló og gengið á pól sóló. Það eru forréttindi að alast upp á íslenskum fjöllum og jöklum. Aðstæðurnar á Íslandi eru oft krefjandi og þá sérstaklega með tilliti til veðurfars. Íslenska náttúran hefur verið góður skóli með öllum sínum litbrigðum.
Ég hvet fólk til þess að leyfa sér að dagdreyma því draumarnir eru oft undirrót þess að fólk setji sér markmið. Í dagdraumunum er maður nefnilega alltaf leynt og ljóst að ná markmiðum sínum og maður er að ferðast inn á staði og inn í aðstæður sem manni langar raunverulega að vera á. Auk þess er maður alltaf sigurvegari í sínum eigin draumum og við eigum að hugsa um okkur sem sigurvegara í okkar eigin lífi.