Kirsuberjagarðurinn eftir Anton Tsjekhov var frumsýndur í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöldið. Menningarelítan fjölmennti á þessa flottu sýningu sem er sannkölluð leikhúsperla um ástir, drauma og vonir.
Verkið fjallar um fjölskyldu sem hefur eytt um efni fram án þess að leiða hugann að morgundeginum - enda lömuð af minningum um fegurð og gleði æskuáranna.
Á meðan fjölskyldan forðast að taka á vandamálunum, kynnast áhorfendur öllu þessu grátbroslega fólki, dætrunum Vörju og Önju, þjónustufólkinu, starfsfólki og vinum fjölskyldunnar. Öll eiga þau drauma og þrár, sumir þrá fortíðina á meðan aðrir eiga sér von um nýtt og betra líf. En öll dreymir þau um ástina – meira að segja Lopakhín.
Kirsuberjagarðurinn er síðasta og mest leikna leikrit Antons Tsjekhov (1860–1904). Verkið er af mörgum talið eitt besta leikverk allra tíma, angurvært stórvirki þar sem gaman og alvara vegast listilega á. Leikstjórinn Hilmir Snær hlaut Grímuverðlaun fyrir síðustu uppsetningu sína, Fjölskylduna, sem gekk tvo vetur fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu.