Sýningin Kvennafræðarinn var frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í gær. Gestirnir brostu hringinn enda sýningin mögnuð. Maríanna Clara Lúthersdóttir og Jóhann G. Jóhannsson fara með öll hlutverk í sýningunni.
Leikritið Kvennafræðarinn hefur notið mikilla vinsælda í Danmörku frá því að það var frumsýnt þar fyrir tveimur árum. Sýningin hlaut virtustu leiklistarverðlaun Dana, Reumertverðlaunin.
Leikritið er byggt á bókinni Kvinde kend din krop sem kom fyrst út í Danmörku árið 1975 og vakti mikla athygli með hispurslausri umfjöllun um konur, líkama þeirra, tilfinningar, frjósemi og kynlíf. Bókin þótti byltingarkennd, og varð vopn í baráttunni fyrir því að efla sjálfsvitund og sjálfsvirðingu kvenna. Hún hefur komið út í nýrri útgáfu á tíu ára fresti, og leikritið byggir á öllum útgáfum hennar. Hér á Íslandi kom bókin út endursamin undir heitinu Nýi kvennafræðarinn árið 1981.