Druslugangan fór fram í þriðja sinn hérlendis á laugardaginn. Fjölmenni var í göngunni enda veður afbragðsgott og stemning í loftinu.
Yfirlýst markmið göngunnar er að uppræta þá fordóma sem endurspeglast í áherslu á klæðaburð og ástand brotaþola í umræðu um kynferðisofbeldi. Þannig vilja skipuleggjendur göngunnar vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi, en ekki þolendur. Hópurinn vill ekki einblína á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem mögulega afsökun fyrir glæpamenn heldur að menn hætti að nauðga.
Fyrirmynd Druslugöngunnar er hin svonefnda Slut walk sem fyrst var farin í Toronto í Kanada 2011. Tilefni göngunnar voru umdeild ummæli lögreglustjórans í Toronto, Michael Sanguinetti, sem sagði á háskólafyrirlestri að „konur þyrftu að forðast að klæða sig eins og druslur til að verða ekki fórnarlömb.“
María Lilja Þrastardóttir, Rósa Björk Bergþórsdóttir og María Rut Kristinsdóttir.
mbl.is/Árni Sæberg