Gleðin var við völd í Hörpu þegar fyrstu tónleikar vetrarins hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands voru haldnir og Eldborgarsalurinn þétt setinn.
Hinn heimsþekkti rússneski hljómsveitarstjóri Dmitri Kitajenko hélt um tónsprotann en hann er einn merkasti hljómsveitarstjóri samtímans sem stjórnar reglulega þekktustu hljómsveitum heims á borð við Berlínarfílharmóníuna, Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar og Gewandhaus hljómsveitina í Leipzig.
Á efnisskránni voru tvö verk samlanda Kitajenkos, Myndir á sýningu eftir Músorgskíj og hljómsveitarsvíta Rimskíj-Korsakovs, Scheherazade. Bæði tónverkin eru meðal helstu djásna rússneskra tónbókmennta og því voru upphafstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands sannkölluð veisla í tónum.