Sýningin Nobody Will Ever Die var opnuð á dögunum en hún hverfist um vídeóverkið „Everyting is as it should be“. Verkið sýnir afa Þorgerðar Þórhallsdóttur, Gísla Magnússon píanóleikara (1929–2001) æfa 4. píanókonsert Beethovens heima hjá sér. Gísli flutti konsertinn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands 16. mars 1989, fjórum dögum eftir að Þorgerður fæddist.
Þorgerður vinnur með þessa vídeóupptöku sem og hljóðupptöku Ríkisútvarpsins af tónleikunum til að skapa nýja frásögn og annað samhengi fyrir æfinguna heima í stofu og konsertinn með Sinfóníuhljómsveitinni. Þar með er þess freistað að varðveita þessa tvo viðburði, annars vegar vídeóið sem Gísli tók upp sjálfur og líklega átti aldrei að sýna og hins vegar tónleikaupptökuna sem Ríkisútvarpið skrásetti fyrir þjóðina. Vídeóverkið er sjálfstætt framhald af útskriftarverkefni Þorgerðar úr Listaháskóla Íslands, „Liebestraum“, þar sem hún vann með sjónvarpsupptöku frá 1976 af Gísla að flytja Liebestraum eftir Franz Liszt. Hún brenglaði línulega stefnu þessarar klassísku tónsmíðar, fjarlægði risið og skrifaði nýtt tónverk fyrir tvö píanó. Þorgerður fjallar þannig um vilja mannsins til að tákngera hugsanir sínar og tilfinningar með tilstyrk listarinnar.