Sýning um Auði á Gljúfrasteini var opnuð í gær í Listasal Mosfellsbæjar. Sýningin er söguleg því þetta er í fyrsta skipti sem saga Auðar er sögð í sýningarformi. Heiti sýningarinnar vísar í þau fjölmörgu hlutverk sem Auður gegndi á sinni margbrotnu og viðburðaríku ævi.
Það má segja að sýningin sé hálfgerð innsetning því á henni eru sýnd munstur eftir Auði, ljósmyndir, hljóðmyndir og gripir sem tengjast henni á einhvern hátt. Þess má geta að Auður er oft nefnd sem hönnuður íslensku lopapeysunnar en hún gerði eina af fyrstu lopapeysunum og notaði bekki og munstur eins og tíðkast í dag.
Safnið á Gljúfrasteini, þar sem Auður bjó ásamt eiginmanni sínum Halldóri Kiljan Laxness, er tíu ára um þessar mundir. Árið 2002 gaf Auður ríkinu bókasafn og handrit Halldórs Laxness auk innbúsins á Gljúfrasteini.
Sýningarteymið sem stendur að sýningunni um Auði skipa Guðný Dóra Gestsdóttir, safnstjóri Gljúfrasteins, Marta Guðrún Jóhannesdóttir safnafræðingur og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir sýningarhönnuður.