Kvikmyndin Albatross var frumsýnd í gærkvöldi í Háskólabíó. Myndin fjallar um Tómas, sem er ástfanginn og ævintýragjarn borgarstrákur, sem stefnir að nýjum kafla í lífinu með Rakel kærustunni sinni. Hann eltir ástina út á land og fær vinnu á Golfvelli Bolungarvíkur yfir sumarið. Það renna á hann tvær grímur þegar hann kynnist skrautlegum samstarfsmönnum sínum (þeim Kidda og Finna) og ekki tekur betra við þegar hann hittir Kjartan, yfirgengilegan yfirmann þeirra. Stefnt er á að fá stórmót á völlinn yfir sumarið og því öllu tjaldað sem til er. Tómasi líst ekki beint á blikuna en hvað gerir maður ekki fyrir ástina. Hann ákveður að taka slaginn en sumarið tekur aðra stefnu þegar óvænt áföll dynja yfir.
Snævar S. Sölvason leikstýrir myndinni en hann ákvað að gera myndina þegar hann var hálfnaður með nám sitt við Kvikmyndaskóla Íslands. Í stað þess að finna sér enn eina sumarvinnuna ákvað hann að láta draum sinn rætast, búa til bíómynd. Hann byrjaði að skrifa handritið og að því loknu safnaði hann saman skemmtilegum 10 manna hópi af hæfileikaríku fólki.
„Þegar handritið var tilbúið rukum við af stað í undirbúningsvinnu og þaðan beint í tökur. Með góðri samstöðu og ósérhlífni hópsins auk aðstoðar velunnara tókst okkur að klára tökur í lok júlí 2013. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því við tók eftirvinnsla myndarinnar. Það var ekki hlaupið að því að ganga frá henni enda kostnaðarsamt ferli og buddan orðin tóm,“ segir Snævar. Hann endaði á að fjármagna restina með Karolina fund.