Petersen svítan í Gamla Bíó iðaði af lífi á Menningarnótt. Svítan er staðsett á þriðju hæð Gamla Bíós en að undanförnu hafa staðið yfir umfangsmiklar endurbætur. Tromp Petersen svítunnar er án efa risastórar svalir þar sem er útsýni yfir Reykjavík. Nú hefur húsnæðinu verið breytt í bar og kaffihús og verður staðurinn opnaður formlega í næsta mánuði þegar framkvæmdum lýkur.
Samúel Jón Samúelsson og Big Band héldu uppi stuðinu þegar ljósmyndari Smartlands Mörtu Maríu leit við í gær.
Peter Petersen, bíóstjórinn sem stóð fyrir byggingu Gamla bíós árið 1926, lét innrétta fyrir sig íbúð á efstu hæð hússins sem hann bjó í. Sú íbúð var á tímum óperunnar notuð fyrir saumastofur og æfingaherbergi en hefur nú verið breytt í kaffihús og bar.
Petersen svítan verður opin dags daglega og fram á kvöld. Þar er boðið upp á glæsilegt úrval drykkja og m.a. sérbruggaðan Petersen bjór. Í Petersen svítunni verður einnig léttur matseðill svo tilvalið er að koma fyrir viðburði í Gamla bíó eða skjótast í hádeginu og njóta veitinga í glæsilegu umhverfi.
Eins og sést á myndunum var mikil stemning á staðnum á Menningarnótt.