Það var svo innilega kátt á hjalla í Þjóðleikhúsinu þegar vampíruleikritið, Hleyptu þeim rétta inn, var frumsýnt. Rapparaparið Arnar Freyr úr Úlfi Úlfi og Salka Sól úr Amabadama og Reykjavíkurdætrum létu sig ekki vanta.
Selma Björnsdóttir leikstýrir verkinu en fresta þurfti frumsýningu um tvær vikur vegna slyss sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona varð fyrir á æfingu.
Hleyptu þeim rétta inn er hrífandi verk um einelti, einsemd og óvenjulega vináttu. Það fjallar um Óskar sem er einmana, vinalaus og lagður í skuggalega gróft einelti í skólanum. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í íbúðina við hliðina á honum, þar sem hann býr einn með móður sinni, umturnast tilvera hans.
Þegar undarlegir og óhugnanlegir atburðir fara að eiga sér stað á svæðinu, áttar Óskar sig smám saman á því hvert leyndarmál Elí er. Hún er vampíra, sem verður að nærast á blóði fólks til að komast af. En hún er líka einstaklingur sem er einmana og utangarðs, rétt eins og Óskar sjálfur. Smám saman þróast á milli Óskars og Elís vinátta sem hvorugt þeirra átti von á eða gat látið sig dreyma um.
Leikritið Hleyptu þeim rétta inn er byggt á metsölubók og kvikmynd sænska rithöfundarins Johns Ajvides Lindqvists. Sænska kvikmyndin hefur notið mikillar hylli og var endurgerð í Hollywood undir nafninu Let Me In. Leikritið Let the Right One In hefur verið sýnt við miklar vinsældir í Royal Court leikhúsinu í London, Skoska þjóðleikhúsinu, St. Ann's Warehouse í New York og á Norðurlöndunum.