Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, var í essinu sínu í gær þegar Base hótelið var opnað í Reykjanesbæ. Nafnið Base hótel vísar í það tímabil þegar bandaríski herinn hafði þar aðsetur og er með nafngiftinni og útliti hótelsins, sem er málað í felulitum, verið að halda þá sögu í heiðri. Jafnframt eru tugir listaverka til sýnis á hótelinu eftir marga af okkar fremstu nútímalistamönnum. Hótelið hóf starfsemi sína í júní og hafa viðtökur verið vonum framar.
„Það er ánægjulegt að sjá hversu glæsilegar viðtökurnar hafa verið. Margir hafa lagt á sig mikla og óeigingjarna vinnu til þess að sjá þetta hótel verða að veruleika. Ég vona að hótelið muni koma til með að efla enn frekar Reykjanessvæðið sem er mjög fallegt og hefur margt skemmtilegt upp á að bjóða sem ferðamannastaður en jafnframt er gaman að geta sett upp eitt öflugasta nútímalistasafn landsins á Reykjanesi,“ segir Skúli Mogensen.