Leikarinn Stefán Karl Stefánsson berst við veikindi þessa dagana. Vinir hans efndu til styrktartónleika í kvöld í Þjóðleikhúsinu. Bubbi Morthens, Úlfur Úlfur, Ný dönsk, Salka Sól, Laddi, Gói, Hansa og Selma, Jón Ólafsson, Regína Ósk, Valgeir Guðjónsson og Stuðmenn komu fram. Edda Björgvinsdóttir leikkona var kynnir.
„Nú er rannsóknum að mestu lokið og meinið fundið og staðsett. Það virðist ekki stórt og vel skurðtækt sem eru bestu fréttir sem ég hef fengið. Gulan er kominn úr hæstu hæðum og ég er farinn að ná upp orku. Fer nú heim í leyfi í nokkra daga fram að aðgerð sem verður 4 október sem er einmitt skírnardagurinn minn, fæðingardagur föðurafa míns og giftingardagur foreldra minna, heppilegri dag er ekki hægt að finna.
Kveðjur ykkar um bata styrk og bænir hafa hjálpað mér ótrúlega mikið að taka á þessu áfalli sem mun án efa breyta lífi mínu til frambúðar. Ég er hinsvegar fullur af jákvæðni og bjartsýni og tek ekki annað í mál en að koma eftir hlé og láta ykkur hlægja ennþá meir en fyrir hlé,“ sagði Stefán Karl á facebook-síðu sinni á dögunum.
„Það er ómetanlegt að eiga góða vini og fjölskyldu. Ég er klökkur, orðlaus vegna framtaksins og þakka auðmjúkur fyrir framlag kollega minna sem ég er svo heppinn að gera kallað mína bestu vini líka,“ segir Stefán Karl.